Öll börn í 1. bekk fá endurskinsvesti

3.5.2013

Slysavarnafélagið Landsbjörg ætlar að gefa öllum skólum á landinu endurskinsvesti til að nota í vettvangsferðum barna í 1. bekk. Um 4.500 börn eru í árganginum á landinu öllu samkvæmt tilkynningu frá Landsbjörgu.
Meginefni þessa verkefnisins er „Allir öruggir heim“   því að það er réttur okkar allra að komast örugglega  heim og á það við um  alla, ekki síst þau börn sem eru að hefja skólagöngu sína. Vettvangsferðir eru rótgróinn hluti af skólastarfi. Til að auka öryggi nemenda meðan á þeim stendur er mikilvægt að þeir séu vel sýnilegir. Ökumenn sjá einstaklinga með endurskin fimm sinnum fyrr en þá sem eru ekki með neitt.
Vestin eru af vandaðri gerð og er það von þeirra sem að átakinu standa að þau nýtist skólunum næstu árin. Endurskinsvesti ætti að nota til að beina athygli að gangandi og hjólandi fólki allt árið um kring.
Margir aðilar koma   að verkefninu og styrkja það. Það eru Alcoa Fjarðarál, Dynjandi ehf, EFLA verkfræðistofa, Eflingu stéttafélag, HB Grandi, Isavia, Landsvirkjun, Neyðarlínan, Tryggingamiðstöðin, Umferðarstofa og Þekking hf.