Hærri meðalaldur ökutækja

7.2.2013

Meðalaldur fólksbíla á Íslandi er með því hæsta sem þekkist innan evrópska efnahagssvæðisins.  Meðalaldurinn á síðasta ári var 11,95 ár, en árið 2010 var hann 10,9 ár.  Til samanburðar var meðalaldur fólksbifreiða innan Evrópusambandsins 8,3 ár á þeim tíma.  Þetta er hæsti aldur bíla hér á landi frá því að byrjað var að taka slíkar upplýsingar saman árið 1988. 

Á tíu ára tímabili frá 1997 til 2007 hélt aldurinn nokkuð stöðugur, en hefur hækkað jafnt og þétt síðan.  Til að varpa skýrara ljósi á þessi mál er rétt að geta þess að árið 1988 var meðalaldur fólksbíla á Íslandi 7,4 ár.  Þannig hefur átt sér stað fjögurra og hálfs árs aldurshækkun frá þeim tíma.

Mikilvægt umferðaröryggisatriði

Lítil endurnýjun hefur orðið á bílaflotanum á árunum eftir ,,hrun“ og ætla má að ástand hans sé ekki eins og gott og áður var.  Þar með sé honum ekki jafn vel við haldið og því hætt við að öryggisatriði séu ekki í fullnægjandi lagi.  Mjög jákvæð þróun hefur verið varðandi öryggisbúnað ökutækja á undanförnum árum sem stóreykur öryggi bæði ökumanna og farþega.  Þeirri þróun má að miklu leiti þakka fækkun alvarlega umferðarslysa og því er endurnýjun bílaflotans mikilvægt umferðaröryggisatriði.

Mynd af bílaflota í tolli