Að sjást á hjóli

17.10.2012

Núna þegar skammdegið grúfir yfir er rétt að huga að því hvernig við getum best séð hvert annað í umferðinni. Það á ekki síst við um hjólreiðamenn, en þeim hefur fjölgað umtalsvert á undanförnum misserum. Þeir deila meðal annars víða göngustígum með gangandi fólki og því er mikilvægt að þeir séu sýnilegir. Umferðarstofa hefur þess vegna ákveðið í samstarfi við söluaðila reiðhjóla og tryggingafélög og í samráði við Landssamtök hjólreiðamanna að hvetja til ljósanotkunar.

Markmiðið er að allir hjólreiðamenn séu með ljós á hjólum sínum. Til að auðvelda þetta hafa flestir söluaðilar ákveðið að veita afslátt á bilinu 15 til 25% af ljósum fyrir reiðhjól næstu daga. Jafnframt hyggjast tryggingafélög gefa hópi hjólreiðamanna ljós til að auka sýnileika þeirra og öryggi. Þess má geta að lögregla er þessa dagana með sérstakt eftirlit með ljósabúnaði ökutækja.

Verslanirnar eru:

  • GÁP í Faxafeni 7, Reykjavík,

  • Hjólasprettur í Dalshrauni 13, Hafnarfirði,

  • Hvellur á Smiðjuvegi 30, Kópavogi,

  • Markið í Ármúla 40, Reykjavík,

  • Örninn í Faxafeni 8, Reykjavík,

  • Útilíf í Holtagörðum í Reykjavík

  • Krían á Grandagarði 7 í Reykjavík.

Vonandi eykur þetta ágæta framtak verslana og tryggingarfélaga líkur á að hjólreiðamenn eignist góð ljós í þágu öryggis. Þess skal að lokum getið að um gerð og búnað reiðhjóla gilda eftirfarandi reglur:

Reiðhjól skal búið rauðu þríhliða glitmerki að aftan og hvítu að framan. Á báðum hliðum fótstigs skulu vera hvít eða gul glitmerki. Gul eða hvít glitmerki skulu vera í teinum hjólsins. Reiðhjól sem notað er í myrkri eða skertu skyggni skal búið ljóskeri að framan sem lýsir hvítu eða gulu ljósi og ljóskeri að aftan sem lýsir rauðu ljósi. Ljóskerin skulu vera fest við hjólið.  Ljóskerið að framan skal lýsa nægilega vel án þess að valda glýju.

Maður á hjóli í mikilli bílaumferð