Hjólum til framtíðar 2012

21.9.2012

Hjólaráðstefnan Hjólum til framtíðar 2012 - rannsóknir og reynsla fer fram í Iðnó í dag. Á ráðstefnunni er lögð áherslan á það sem er efst á baugi í heimi hjólavísindanna og reynslu þeirra sem hafa eflt hjólreiðar í sínu nærumhverfi. Rannsókn um Hjólreiðar á köldum svæðum er eitt lykilerinda ráðstefnunnar. Virtir vísindamenn frá Bretlandi og Finnlandi halda fyrirlestra á ráðstefnunni ásamt innlendum fyrirlesurum sem kynna innlendar hjólatengdar rannsóknarniðurstöður. Þá verður einnig farið yfir reynslu einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga af eflingu hjólreiða.

Þetta er önnur ráðstefna Hjólafærni á Íslandi og Landssamtaka hjólreiðamanna en þess má geta að í gær hlaut Landssamband hjólreiðamanna samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar. Mannvit og Alta hlutu einnig þessi verðlaun en viðurkenningin er veitt í tengslum við evrópsku samgönguvikuna en dómnefndin byggir val sitt á árangri og aðgerðum sem m.a. draga úr umferð bíla.

Hjólum til framtíðar 2012; rannsóknir og reynsla er samvinnuverkefni fjölmargra aðila. Hjólafærni á Íslandi og Landssamtök hjólreiðamanna skipuleggja ráðstefnuna í góðri samvinnu við Reykjavíkurborg, Vegagerðina, Landlæknisembættið, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Ferðamálastofu og fleiri góða aðila.

Barn og foreldri hjóla meðfram tjörninni í Reykjavík