Krafist samtals 75 milljóna af tjónvöldum

30.8.2012

Í umferðarlögum er svo fyrir mælt, að vátryggingafélag, sem greitt hefur bætur vegna tjóns af völdum ökutækja, öðlist endurkröfurétt á hendur þeim, sem tjóni olli af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Efnahags- og viðskiptaráðherra skipar nefnd þriggja manna til þess að kveða á um, hvort og þá að hve miklu leyti beita skuli endurkröfum. Í nefndinni sitja lögfræðingarnir Helgi Jóhannesson, formaður, Andri Árnason og Sigmar Ármannsson.

Málafjöldi

Á árinu 2011 bárust nefndinni samtals 132 ný mál til úrskurðar. Af þessum málum samþykkti nefndin endurkröfu að öllu leyti eða að hluta í 127 málum. Á árinu 2010 var heildarfjöldi mála hins vegar 157, og samþykktar endurkröfur að öllu eða einhverju leyti voru 144. Á síðastliðnum fimm árum, þ.e. á árbilinu 2007 til 2011, var meðalfjöldi mála, sem bárust endurkröfunefnd, 170 á ári. Þótt málum hafi fækkað milli áranna 2010 og 2011, og fjöldi mála 2011 sé nokkuð undir meðaltali, er óvarlegt að álykta, að tjónsatvikum, sem falla undir endurkröfunefndina, fari almennt mikið fækkandi miðað við fyrri ár, þó að vissulega kunni um einhverja fækkun að vera að ræða. Skýrist þetta meðal annars af því, að málin, sem eiga undir nefndina, verða einungis að hluta rakin til tjóna, sem urðu á því ári, er nefndin fékk mál til meðferðar. Oft hafa tjónin, sem koma til kasta nefndarinnar, gerst a.m.k. einu til tveimur árum fyrr. Þá getur einnig orðið nokkuð tilviljanakennt hvorum megin áramóta málasendingar félaga til nefndarinnar kunna að falla.

Fjárhæðir

Í fjárhæðum talið nema þessar endurkröfur samtals tæplega 75 milljónum króna, og er þá einnig tekið tillit til viðbótarendurkrafna í eldri málum. Hæstu tvær einstöku endurkröfurnar námu 4.5 milljónum króna, og sú þriðja hæsta nam 4 milljónum króna. Alls voru 32 endurkröfur að fjárhæð kr. 500.000.- eða meira á árinu 2011. Á árinu 2010 námu hins vegar samþykktar endurkröfur alls tæplega 59 milljónum króna.

Ástæður endurkröfu

Ástæður endurkröfu voru oftast ölvun tjónvalds, þ.e. í 69 tilvikum, eða í 54% endurkrafnanna. Lyfjaáhrif var næst algengasta ástæða endurkröfu, og hefur slíkum tilvikum fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum. Voru þau tilvik 38, eða í 30% málanna. Um 84% endurkrafnanna voru þannig vegna ölvunar ökumanna eða lyfjaáhrifa þeirra. Í 11 málum voru ökumenn endurkrafðir sökum ökuréttindaleysis. Vegna ofsa- eða glæfraaksturs voru 7 ökumenn endurkrafðir og 4 vegna stórfellds vanbúnaðar ökutækis eða farms. Loks var mælt fyrir um endurkröfu í 4 málum vegna beins ásetnings ökumanns um að valda tjóni. Rétt er að benda á, að í sumum málum geta ástæður endurkröfu verið fleiri en ein.

Ölvun. Ölvunarstig

Í þeim 69 tilvikum, þar sem mælt var fyrir um endurkröfu vegna ölvunar, reyndust 55 ökumenn, eða 77%, vera yfir efri mörkum umferðarlaga (1,20 promill eða meira vínandamagn í blóði), og töldust því með öllu óhæfir til að stjórna ökutækinu.

Kynjaskipting

Í þessum málum voru karlar 95, en konur voru 32 af hinum endurkröfðu tjónvöldum, eða um 25%. Hlutur kvenna í málum af þessu tagi var hins vegar 21% á árinu 2010.

Aldur tjónvalda

Ökumenn, er voru 25 ára og yngri, er þeir ollu tjóni, áttu hlut að um 44% mála. Á árinu 2010 var hlutur þeirra nokkru minni, eða um 40%. Hlutur ungra ökumanna í úrskurðuðum endurkröfum hefur löngum verið mikill.

Bíll eftir veltu