Opnað fyrir skráningu á léttum bifhjólum í flokki I

13.10.2020

Samgöngustofa hefur opnað fyrir rafræna skráningu á eldri léttum bifhjólum í flokki I. Skráningin fer fram á Mitt svæði (innskráning með rafrænum skilríkjum). Létt bifhjól í flokki I bera appelsínugular númeraplötur og er skráningunni ætlað að auka umferðaröryggi, rekjanleika og eftirlit. 

Ný létt bifhjól í flokki I sem flutt hafa verið til landsins 1. janúar 2020 og síðar, eru skráð af innflytjanda eða söluaðila og afhendast yfirleitt skráð, skoðuð og á skráningarmerkjum. Þau fara í gegnum hefðbundið forskráningarferli ökutækja þar sem fylla þarf út eyðublað og skila inn ásamt viðeigandi gögnum.  

Eldri létt bifhjól í flokki I (flutt til landsins fyrir 1. janúar 2020) er nú hægt að skrá rafrænt í gegnum Mitt svæði á vef Samgöngustofu. Miðað er við að þessi hjól verði að vera skráð frá 1. mars 2021 ef nota á þau í almennri umferð.  

Opið verður fyrir rafræna skráningu þessara ökutækja til 30. júní 2021 og kostar skráningin 600 kr.. Eftir 1. júlí 2021 verður skráningu háttað eins og annarra ökutækja og kostar þá 4.210/7.020 kr. eftir því hvort hjólið er gerðarviðurkennt eða ekki. Gjald fyrir númeraplötu er 2.665 kr.. Auk þess þarf að greiða fyrir skráningarskoðun og nýskráningu hjólsins hjá skoðunarstöð.

Hjolognumer

Nánar um forsendur skráningar léttra bifhjóla í flokki I

Samkvæmt umferðarlögum eru létt bifhjól í flokki I skráningarskyld. Létt bifhjól í flokki I eru vélknúin ökutæki á tveimur, þremur eða fjórum hjólum sem komast á allt að 25 km/klst. hvort sem þau eru raf- eða bensíndrifin. Þá er miðað við hámarkshönnunarhraða tækisins sem framleiðandi bifhjólsins gefur upp. Þessi hjól geta verið margskonar en oft eru þau kölluð vespur, rafmagnshjól með hjálparmótor og inngjöf (sem er yfir 250W en ekki yfir 4000W og með hámarkshönnunarhraða 25 km/klst. eða minna) og rafskutlur með hámarkshönnunarhraða allt að 25 km/klst.

Skráningar- og skoðunarskylda þessara ökutækja er fyrst og fremst ætlað að auka umferðaröryggi t.d. með því að tryggja það að ljósa- og hemlunarbúnaður sé í lagi. Skráning á léttum bifhjólum í flokki I gefur einnig yfirsýn yfir þessi ökutæki t.d. fjölda og gerðir sem í umferð eru, hvaða flokki þau tilheyra og hvaða reglur eiga við um akstur þeirra.

Hér á vef Samgöngustofu, samgongustofa.is/lettbifhjol, má nálgast leiðbeiningar um skráningarferlið og finna svör við helstu spurningum. Einnig geta eigendur léttra bifhjóla í flokki I sent fyrirspurn skráninguna á netfangið afgreidsla@samgongustofa.is eða notað netspjallið hér á vef Samgöngustofu (neðst til hægri).