Samgöngustofa hlýtur viðurkenningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg
Á landsþingi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, fyrr í dag, hlaut Samgöngustofa Áttavitann sem viðurkenningu fyrir fyrir frumkvæði og virkni í slysavörnum. Undanfarin ár hafa Samgöngustofa og Landsbjörg átt í miklu og góðu samstarfi í þágu öryggis í samgöngum. Samstarfið hefur byggst á trausti og virðingu og ekki síst sameiginlegri sýn á mikilvægi fræðslu og forvarna. Það eru þessi sameiginlegu markmið og sameiginlegi skilningur um tilgang og markmið verkefnanna sem skiptir svo miklu máli.
Sem dæmi um viðfangsefni samstarfsins má nefna umferðar¬öryggismál, allt frá fræðslu í ungbarnavernd og upp í eldri borgara, öryggi ferðamanna og framleiðslu og birtingu myndefnis. Þá má einnig nefna kannanir á hegðun í umferð; beltanotkun, hjálmanotkun og öryggi barna í bíl – bæði framkvæmd og eftirfylgni með niðurstöðum á hverjum stað fyrir sig. Ekki má gleyma framleiðslu og dreifingu á endurskinsmerkjum og endurskinsvestum til barna sem og þátttöku í stökum verkefnum, t.d. Vertu snjall undir stýri, 112 deginum og minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa. Einnig hefur samstarfið verið einkar ánægjulegt varðandi öryggismál sjófarenda í gegnum Slysavarnaskóla sjómanna sem er ómetanlegt. Þá eru ótalin ýmis verkefni, allt frá smærri verkefnum í einingum félagins víða um land upp í stór alheims¬verkefni. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sem og starfsfólk ráðuneytis, hefur mjög skýra sýn þegar kemur að samgönguöryggi og hefur lagt málaflokknum ómetanlegt lið.
Samgöngustofa þakkar Slysavarnafélaginu Landsbjörg kærlega fyrir viðurkenninguna en ekki síst fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf. Viðurkenningin er Samgöngustofu mikil hvatning til að halda áfram á sömu braut, þ.e. að auka öryggi í samgöngum á Íslandi.