Um akstur leigubifreiða

6.1.2016

Til að aka leigubifreið þarf ökumaður að uppfylla ákveðin skilyrði; vera með réttindi til farþegaflutninga í atvinnuskyni og sérstakt leyfi Samgöngustofu. Í námi er m.a. lögð sérstök áhersla á skyndihjálp, fyrstu viðbrögð á slysstað, öryggi í akstri, þjónustuhlutverk atvinnubílstjóra o.fl. Hann þarf að vera orðinn 20 ára, má ekki hafa verið dæmdur til refsivistar eða framið alvarleg afbrot og þarf að uppfylla strangari kröfur til heilbrigðis en almennur ökumaður. Réttindin þarf að endurnýja á fimm ára fresti.

Allar leigubifreiðar, sem aka á takmörkunarsvæði, skulu vera með afgreiðslu á leigubifreiðastöð sem er með leyfi frá Samgöngustofu. Hún skal skipuleggja starfsemi sína með þeim hætti að almenningi verði veitt góð og örugg þjónusta. Þannig skal lágmarksopnunartími með símaþjónustu vera frá 07:00-24:00 og fjarskiptasamband skal vera á milli stöðvar og allra bifreiða sem aka á hennar vegum. Leigubifreiðastöð skal fylgjast með því að ökumenn, sem þar hafa afgreiðslu, fari eftir fyrirmælum laga og reglugerða um leigubifreiðar og tilkynna til Samgöngustofu ef út af bregður.

Aksturinn á að fara fram á fólksbifreið sem sérstaklega er skráð sem leigubifreið. Hún skal vera með löggiltan gjaldmæli, verðskrá og leyfi bílstjóra sýnilegt í bifreiðinni, auðkennd með þakljósi, merki leigubifreiðastöðvar og stöðvarnúmeri.