Vektu athygli

– endurskin á alla unglinga landsins!

1.2.2018

Samgöngustofa og ADHD samtökin hafa tekið höndum saman og gefið öllum nemendum í 8., 9. og 10. bekk grunnskóla landsins skemmtileg endurskinsmerki. Markmiðið með verkefninu er að vekja athygli á mikilvægi þess að nota endurskinsmerki. Notkun þeirra getur skipt sköpum þar sem ökumenn sjá gangandi vegfarendur fimm sinnum fyrr séu þeir með slík merki. Samhliða er vakin athygli á mikilvægi þess að skilja einkenni ADHD, horfa á það jákvæða í einstaklingnum, styrkja og eyða fordómum.

Endurskinsmerkin voru valin af rýnihópi unglinga og hönnuð sérstaklega með þann aldurshóp í huga. Týpurnar eru 10 talsins og ættu því allir að geta fundið merki við sitt hæfi. Samgöngustofa fær iðulega fregnir af gangandi ungum vegfarendum sem sjást illa í umferðinni og því var ákveðið að ná til þessa hóps sem er mikið á ferðinni, og klæðist gjarnan dökkum fatnaði og oft án endurskinsmerkja í myrkrinu. Merkin hafa fengið frábærar viðtökur í um 150 skólum og félagsmiðstöðvum landsins og gagnast unga fólkinu vel í skammdeginu.

Endurskin_mynd1