Hlutverk Samgöngustofu
Samgöngustofa fer með stjórnsýslu samgöngumála og annast eftirlit er varðar flug, siglingar, umferð og öryggiseftirlit með samgöngumannvirkjum og leiðsögu.
Samgöngustofa er stjórnsýslustofnun samgöngumála í samræmi við lög frá 30. nóvember 2012. Stofnunin heyrir undir innviðaráðuneytið.
Hlutverk Samgöngustofu er að stuðla að samgönguöryggi í lofti, láði og legi.
Öll verkefni sem áður heyrðu undir Flugmálastjórn Íslands og Umferðarstofu færðust til Samgöngustofu við sameiningu, svo og stjórnsýslu- og eftirlitsverkefni Siglingastofnunar Íslands auk leyfisveitinga og umferðareftirlits sem áður voru á hendi Vegagerðarinnar. Samhliða færðust framkvæmda- og rekstrarverkefni Siglingastofnunar til Vegagerðarinnar.
Athuga ber að öll gögn sem merkt eru Flugmálastjórn Íslands, Siglingastofnun Íslands eða Umferðarstofu munu halda gildi sínu áfram og útgefin starfsleyfi gilda út skilgreindan gildistíma sinn.
Gildi Samgöngustofu eru jákvæðni, fagmennska, traust og virðing.