Net- og sjónvarpsauglýsingar

Samgöngustofa (áður Umferðarstofa) hefur í gegnum tíðina látið framleiða net- og sjónvarpsauglýsingar sem ýta undir ábyrga hegðun í umferðinni 

Smellum saman

Samgöngustofu og auglýsingastofan Pipar fengu Snæbjörn Ragnarsson til þess að semja lag þar sem boðskapurinn um að spenna beltin komst sterkt til skila en þó þannig að lagið gæti staðið sjálfstætt. Tónlistarmyndbandið við lagið stendur svo sem auglýsingaherferð um beltanotkun. 

Nánar um herferðina:
Síðustu ár höfum við verið að sjá stöðnun í beltanotkun á Íslandi á sama tíma og þjóðirnar í kringum okkur hafa verið að bæta sig til muna. Erum við nú í 17. sæti Evrópuþjóða í beltanotkun og er alveg ljóst að við viljum ná betri árangri en það. Þetta undirstrikar að við þurfum sífellt að minna á notkun öryggisbelta og undirstrika mikilvægi þeirra.

Herferðin byggist fyrst og fremst á laginu Smellum saman og tónlistarmyndbandinu við það. Snæbjörn Ragnarsson samdi lagið en Króli og Rakel Björk fluttu lagið og léku aðalhlutverkið í myndbandinu. Áferðin á laginu og myndbandinu er ungt fólk að skemmta sér að sumarlagi, útilega og varðeldur. Er því reynt að nálgast fólk, ekki síst ungt fólk, með jákvæðum skilaboðum um að við erum öll í umferðinni saman og við erum samstíga í því að spenna beltin því þannig tryggjum við öryggi okkar sjálfra og fólksins í kringum okkur. Að sjálfsögðu er svo hin merkingin (og algengari) á  hugtakinu að smellum saman sú að ná vel saman og láta hlutina ganga upp.

Lagið, myndbandið og textann má finna á síðunni www.smellumsaman.is en hér að neðan má einnig sjá myndbandið.

Úr-Umferð(inni)

Herferð Samgöngustofu í þeim tilgangi að koma lyfjum og vímuefnum úr umferð(inni). Merki herferðarinnar er rauði þríhyrningurinn sem flestir þekkja af umbúðum lyfja sem geta haft áhrif á aksturshæfni fólks. 

Nánar um herferðina:
Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að fleiri ökumenn eru teknir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna heldur en fyrir ölvunarakstur. Það sem meira er, þetta hefur verið svona síðan árið 2013 og það sem af er þessu ári hafa 83% fleiri verið teknir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna heldur en áfengis skv. tölum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Undirbúningur þessarar herferðar hefur staðið yfir í um eitt og hálft ár en árið 2018 var versta ár sem við höfum séð hvað varðar lyfja- og vímuefnaakstur. Tölurnar höfðu hækkað ár frá ári en þegar ljóst var í hvað stefndi árið 2018 varð talsverð þjóðfélagsumræða um þetta „nýja“ vandamál. Akstur undir áhrifum lyfja og vímuefna er vandamál sem er hulið samfélaginu að miklu leyti og er það von okkar að herferðin veki mikla umræðu og hvetji fólk til að aka ekki undir áhrifum lyfja og vímuefna og að fólk tali við þá aðstandendur sína sem þurfa að taka skilaboðin til sín. 

Auglýsingar:
Morgungangan - Úr umferð(inni)
Fyrsti rúnturinn - Úr umferð(inni)
Labba í skólann - Úr umferð(inni) 
Ísbíltúr - Úr umferð(inni)

Purufa

2 sekúndur - beltaherferð

Samgöngustofa hefur í samstarfi við auglýsingastofuna Pipar-TBWA hrundið af stað herferð til þess að hvetja ökumenn til að spara sér ekki 2 sekúndur við það að spenna á sig öryggisbeltin. Herferðin heitir 2 sekúndur og varpar hún ljósi á fáránleika þess að nota ekki öryggisbeltin.

Myndir úr 2 sekúndu herferðinniRannsóknir sýna að rétt tæplega 10% Íslendinga nota ekki öryggisbelti eða um 35 þúsund manns þó það taki aðeins 2 sekúndur að spenna þau. Ökumaður sem notar ekki bílbelti er í um 8 sinnum meiri hættu á að lenda í banaslysi en sá sem notar beltið. Þetta sést á samanburði á beltanotkunartíðni annars vegar og tíðni beltanotkunar þeirra sem látast í umferðarslysum hins vegar. Í rannsóknum á banaslysum þar sem fólk hefur ekki notað belti hefur komið í ljós að í langflestum tilfellum hefði viðkomandi bjargast hefði hann notað beltin.


Í samanburði við önnur Evrópulönd eru Íslendingar í 17. sæti hvað varðar almenna notkun öryggisbelta. Það tekur aðeins 2 sekúndur að breyta því og komast í 1. sæti!

2 sekúndur - myndband Gunnar Nelson
2 sekúndur - myndband Flóni
2 sekúndur - myndband Annie Mist
2 sekúndur - myndband Anna Lára

www.2sek.is

Úrslit í keppni um hrað-spenntasta stjórnmálamanninn

Nú liggur það loks fyrir hvers vegna forsvarsmenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi sátu í bílsæti víðsvegar um höfuðborgina umkringdir kvikmyndavélum og tímavörðum. Hér má sjá myndband frá þessari stórskemmtilegu uppákomu en Bjarni (Sjálfstæðisflokkur), Sigmundur Davíð (Framsóknarflokkur), Katrín (Vinstri hreyfingin, grænt framboð), Guðmundur (Björt framtíð) og Helgi Hrafn (Píratar) kepptu í því hvert þeirra væri fljótast að spenna á sig bílbelti. Stysti tíminn var 1,36 og sá lengsti 2,8 sekúndur sem sýnir að það tekur enga stund að spenna á sig beltið en sú ákvörðun getur skipt sköpum. Allir sem spenna á sig bílbeltið eru hinir einu sönnu sigurvegarar.

Það getur borgað sig að vera í sigurliðinu. Þessum sekúndum er vel varið þegar þær geta bjargað lífi þínu? Spennum beltin - ALLTAF.

Bílbeltaáskorun

Englar - I think of Angels (2011)

Hér má sjá auglýsingu sem Umferðarstofa lét gera við lagið „I think of Angels“  eftir KK  - Kristján Kristjánsson tónlistarmann. Í auglýsingunni  kemur fram að á 10 árum létust 84 einstaklingar í umferðarslysum sem rekja má til þess að ekið var of hratt. Hugmyndasmiðurinn að baki auglýsingunni er Bjarney Hinriksdóttir, grafískur hönnuður hjá auglýsingastofunni Hvíta húsið en Sammi og Gunni hjá True North önnuðust leikstjórn.

Angels

2009 - Notum bílbeltin - alltaf

Það eru margir sem halda að það sé allt í lagi að sleppa því að setja á sig öryggisbelti ef ökuhraðinn er lítill og vegalengdin stutt. Auglýsingarnar „Notum bílbeltin - alltaf" gera raunhæfan samanburð á því sem gerist við árekstur án öryggisbeltis og afleiðingum þess að falla til jarðar úr mismikilli hæð og lenda á jörðinni á 7, 20, 30 og 55 km hraða án öryggisbúnaðar. Umferðarstofa lét framleiða auglýsingarnar í samstarfi við tryggingarfélagið VÍS. Auglýsingastofan Hvíta Húsið vann hugmyndavinnu og hönnun en Filmus sá um framleiðslu.

Notum bílbeltin alltaf (2)

Notum bílbelti alltaf - 30 km

Notum bílbelti alltaf - 55 km

2008 - Fyrirgefðu - ég sá þig ekki

Auglýsingaherferðin „Fyrirgefðu ég sá þig ekki" er til að vekja bílstjóra til vitundar um mikilvægi þess að þeir hafi fulla athygli við aksturinn og gái að minnsta kosti tvisvar á gatnamótum hvort nokkur hætta sé á því að þeir aki í veg fyrir bifhjól. Það er mun erfiðara að greina fjarlægð og hraða bifhjóla en stærri ökutækja og ein algeng orsök alvarlegra umferðarslysa er að bílstjórar aka í veg fyrir bifhjól. Auglýsingastofan Hvíta húsið vann hugmynd auglýsingarinnar en framleiðslufyrirtækið Republik sá um framleiðslu.

Fyrirgefðu - ég sá þig ekki

2007 - Hraðinn drepur - í alvörunni

Herferðinni er ætlað að vekja ökumenn til umhugsunar um ábyrgð sína í umferðinni þannig að þeir geri sér grein fyrir því að í raunveruleikanum er ekki hægt að hverfa frá misgjörðum sínum með því að ýta á „enter" eða velja „replay" til að byrja leikinn aftur fullfrískur og fjörugur. Auglýsingastofan Hvíta húsið annaðist hugmyndavinnu en gerð teiknimyndarinnar var í höndum „I love Dust" fyrirtækisins í Bretlandi.

Hraðinn drepur - í alvörunni

 

 

Bara einn

Ætli einhverjum finnist í lagi að kennari, flugumferðarstjóri, tannlæknir eða kranastjóri neyti áfengis við vinnu sína með alla þá ábyrgð sem því fylgir? Án efa finnst það fáum ef einhverjum. Þrátt fyrir það eru u.þ.b. 50 þúsund Íslendingar þeirrar skoðunar að það sé í lagi að keyra eftir að hafa neytt eins áfengs drykks. Í þessari auglýsingaherferð er verið að vekja ökumenn til umhugsunar um alvarleika þess að aka undir áhrifum áfengis – jafnvel þótt aðeins hafi verið dreypt á einu glasi. Það er undirstrikað að ábyrgð ökumanns er síður minni en flugumferðarstjórans og það ættu ökumenn að hafa í huga þegar þeir velta því fyrir sér hvort það sé í lagi að stjórna ökutæki eftir neyslu áfengis. Auglýsingin var unnin í samstarfi við Vínbúðina. Auglýsingastofan Hvíta húsið sá um hugmyndavinnuna en Sagafilm annaðist framleiðslu.

https://youtu.be/h0ADj88zx-0

 

 

 

 

 


Var efnið hjálplegt? Nei