Öryggispúðar

Öryggispúðar þenjast út á örskotsstundu þegar þungt högg kemur á bílinn og verja ökumann og farþega

Eru þeir orðnir staðalbúnaður í nánast öllum nýjum bílum nú til dags og eru staðsettir í stýri bílsins og ofan við hanskahólfið. Sumir bílar eru auk þess búnir öryggispúðum í hliðum bílhurðanna.

Saman miða öryggisbeltin og öryggispúðarnir að því að draga úr áverkum ökumanns og farþega ef slys eða óhapp á sér stað. Rannsóknir sýna að öryggispúðinn, samfara notkun öryggisbelta, minnkar mjög líkurnar á höfuðmeiðslum, sérstaklega hjá ökumanni. Öryggispúðarnir koma þó alls ekki í staðinn fyrir beltin. Þvert á móti getur öryggispúðinn reynst lífshættulegur ef fólk er laust í framsætunum.

Börn og öryggispúðar

Öryggispúði getur verið lífshættulegur börnum. Við árekstur springur hann út af miklu afli og getur lent á andliti barns. Auk þess er beinabygging þeirra ekki nógu sterk til að þola höggið frá púðanum.

Börn innan við 150 cm að hæð mega ekki sitja í framsæti bifreiðar sem búin er öryggispúða nema að púðinn hafi verið gerður óvirkur.

Séu hliðaröryggispúðar til staðar þarf að sjá til þess að barnið halli ekki höfðinu upp að bílhurðinni.