Stefnuljós

Meginhlutverk stefnuljósa er að leiðbeina öðrum í umferðinni

Þó er brýnt að þau séu ávallt notuð hvort sem aðrir vegfarendur eru í augsýn eða ekki.

Hvar og hvenær á að gefa stefnuljós?


  • Stefnuljós á að gera áður en beygt er á vegamótum. Á það einnig við á beygjuakreinum og beygjuljósum þar sem taka þarf tillit til annarra vegfarenda, hvort heldur er ungra vegfarenda, gangandi eða hjólandi, sem e.t.v. sjá ekki merkingu um beygju.
  • Stefnuljós á að gefa áður en skipt er um akrein. Öll akreinaskipti þarf að gefa til kynna með stefnuljósum, hvort sem ökumaður ætlar að færa sig inn á frárein, inn á akbraut af aðrein eða af einni akrein yfir á aðra. Þetta verður að gera enda þótt um litla breytingu á akstursstefnu sé að ræða.
  • Stefnuljós á að gefa áður en ekið er út úr hringtorgi og þegar ekið er fram hjá útkeyrslu í ytri hring. Engar sérreglur eru um stefnuljósanotkun í hringtorgi. Þó er almenna reglan sú að gefa skal stefnuljós til hægri áður en ekið er út úr hringtorgi og stefnuljós til vinstri inn í hringtorgið þegar ekið er framhjá útkeyrslu á ytri akrein.
  • Stefnuljós á að gefa áður en ekið er að og frá brún akreinar. Þegar ætlunin er að nema staðar við vegbrún er rétt að gefa stefnuljós áður en dregið er úr hraða og jafnvel tipla á hemlum til að gefa hemlaljós svo að þeir sem koma á eftir vari sig á hraðabreytingunni. Þetta er einkum æskilegt í hálku. Áður en ekið er af stað út í umferð frá vegkanti skal gefa það til kynna með stefnuljósum.
  • Nota skal stefnuljós til leiðbeiningar. Þegar ökumaður verður var við að annar vill komast framúr notar hann stefnuljós til að gefa honum til kynna að óhætt sé að hefja framúrakstur. Þegar komið er að einbreiðum vegi þar sem umferð er á móti, eins og við brýr og þrengingar, skal ökumaður varast að nota stefnuljós til að gefa til kynna að hann ætli að víkja. Slíkt gæti gefið þeim sem kemur á eftir misvísandi merki um að framúrakstur sé í lagi. Þar skal frekar blikka aðalljósum til að sýna að forgangur er gefinn þeim sem á móti koma eða setja stöðuljós á ef stoppað er

Bifhjól og reiðhjól

Um bifhjól og reiðhjól gilda í stórum dráttum sömu reglur og bíla þegar kemur að notkun stefnuljósa eða stefnumerkja. Stefnuljósker eiga að vera á bifhjólum og léttum bifhjólum en ekki reiðhjólum. Hjólreiðafólk og aðrir á farartækjum sem ekki hafa stefnuljósker verða engu að síður að gefa stefnumerki og þá með því að rétta út hönd.

Viðmiðunarreglur sem gott er að hafa í huga

  • Alltaf og alls staðar þarf að gefa stefnuljós þegar beygt er á vegamótum nema að það kunni að valda misskilningi.

  • Gefa skal stefnuljós tímanlega t.d. 5 sekúndum áður en beygt er. Styttri tími má líða ef stutt er á milli gatnamóta og lengri utan þéttbýlis.

  • Tryggja skal að stefnuljós fari af strax eftir beygju til að fyrirbyggja misskilning.

  • Stefnuljós gefur ökumanni ekki forgang og leysir hann ekki undan þeirri skyldu að sýna varúð.

  • Þegar bakkað er úr stæði skal gefa stefnuljós til merkis um í hvaða átt maður hyggst beygja.

Fræðslumyndband - Stefnuljós