Bílar og hjól

tilmæli til ökumanna bifreiða

Hér er farið yfir mikilvæg atriði sem gott er fyrir ökumenn bifreiða að hafa í huga:

Yfirleitt kemst hjólreiðamaður ekki eins hratt og sá sem ekur t.d. bifreið og því er mikilvægt að ökumenn horfi vel fram fyrir sig og séu þess viðbúnir að hægja för. Þó má ekki heldur vanmeta hraða hjólandi. Við sumar aðstæður geta hjól verið á miklum hraða.  

Hjólandi vegfarendur hafa fullan rétt á að vera á akbrautum. Ekki er þó mælt með því að hjólað sé á akbrautum með mikilli og hraðri umferð (ef annar valkostur er í boði).

Ökuhraði  
Bílstjóri ber mikla ábyrgð gagnavart öðrum vegfarendum og hann verður því að haga akstri og hraða þannig að öryggi allra vegfarenda sé sem best tryggt.  

Ekið framúr hjólandi  
Þegar ekið er framúr hjólandi þarf að víkja tímanlega út til hliðar til að bílstjórar fyrir aftan sjái hjólreiðamanninn. Gefa þarf nóg pláss, bil milli bíls og hjóls ætti að vera ekki minna en 1 meter. 

Beygt til hægri 
Þess skal gætt sérstaklega þegar beygt er til hægri á gatnamótum að á þverveginn getur verið umferð hjólreiðamanns og gangandi sem á forgang.

Áður en beygt er til hægri þarf ökumaður ennfremur að vera þess fullviss að hann sé ekki að beygja í veg fyrir hjólreiðamann sem hann gæti verið nýbúin að fara fram úr.  

Í hringtorgum   
Ökumenn þurfa að sýna hjólreiðamönnum sérstaka tillitsemi og aðgæslu í hringtorgum. Gæta skal þess að skapa hjólreiðamanninum pláss og draga úr hraða eins og þörf er á. Ef ekið er í ytri hring þarftu að gæta að forgangi hjólreiðamanns sem getur verið staðsettur í innri hringnum.  Það er hættulegt að taka framúr hjólandi í beygju á einu og sömu akreininni hvort sem það er í hringtorgi eða annarstaðar. 

Varúð við innkeyrslur 
Þegar bíl er ekið út úr innkeyrslu yfir gangstíg þarf að gæta bæði að umferð um gangstíginn og á akbrautinni. Það þarf í raun að aka í tveimur skrefum út. Fyrst þarf að stöðva við brún innkeyrslunnar og gangstígsins og athuga hvort nokkur umferð gangandi eða hjólandi sé á stígnum. Síðan þarf að stöðva við brún götunnar og líta eftir umferð áður en ekið er út á hana.  

Vetur   
Á veturna er mikilvægt að ökumenn sýni hjólreiðamönnum sérstaka aðgát og tillitsemi. Aðstæður geta verið erfiðar og þröngar og því skiptir almenn tillitsemi miklu máli. 

Símanotkun skerðir athygli verulega 
Mörg slys í umferðinni eru rakin til þess að ökumenn eru með skerta athygli sökum þess að þeir eru að tala í síma. Þetta á reyndar líka við þótt notaður sé handfrjáls búnaður. Mörg óhöpp og slys hafa orðið vegna þess að beygt er skyndilega í veg fyrir hjólreiðamann sem jafnvel er nýbúið að taka fram úr. Í mörgum tilvikum gerist þetta vegna þess að ökumaður var upptekinn við að tala í síma.  

MYNDBAND:
Bílstjórar og hjólandi


Var efnið hjálplegt? Nei