Hjólað á akbraut

tilmæli til hjólandi

Hér er farið yfir mikilvæg atriði sem vert er að hafa í huga þegar hjólað er á akbraut:

Staða á akbraut  
Þegar hjólað er á akbraut skal hjóla hægra megin á akrein þeirri sem lengst er til hægri. Við þessar aðstæður er hjólreiðamaður í víkjandi stöðu og önnur umferð á auðvelt með að aka framúr. Hann þarf þó að varast hurðir á kyrrstæðum bílum, umferð barna, niðurföll og annað við brún vegar. 

Ef hjólreiðamaður telur hinsvegar að hætta geti skapast af framúrakstri annarra ökutækja getur hann þurft að tryggja öryggi sitt með því að hjóla sem næst miðri akrein en hann skal samt vera hægra megin við miðju í ríkjandi stöðu. Þetta á helst við þar sem farið er um þröngar götur, framhjá kyrrstæðum bílum, við gatnamót, í hringtorgum og í beygjum.

Leitast skal þó við að vera yfirleitt í  víkjandi stöðu svo komist sé hjá óþarfa töfum á umferð. 

Breytt um stefnu eða stöðvað 
Hjólreiðamenn skulu leitast við að gefa stefnumerki með því að rétta út hendi áður en þeir beygja eða áður en þeir breyta um stöðu á akrein. Í raun þurfa þeir að gefa stefnumerki þar sem ökumenn bíla þurfa að gefa stefnuljós. Það á  einnig að gefa stöðvunarmerki með því að beina hægri hönd upp þegar stöðva skal eða hægja þarf för. Áður en merki er gefið ætti að líta aftur og gæta að umferð.

Framúrakstur á hjóli við gatnamót 
Ef hjólað er framúr hægra megin skapar það hættu á að bílstjóri beygi til hægri á gatnamótum í veg fyrri hjólið. Það borgar sig því frekar að bíða í röð  líkt og önnur ökutæki. Það er mjög hættulegt að hjóla hægra megin fram úr stóru ökutæki.

Hringtorg 
Í hringtorgi með einni akrein borgar sig að hjólreiðamaður sé sem næst miðju akreinarinnar í ríkjandi stöðu áður en hann kemur að hringtorginu og fari þannig í gegnum hringtorgið og út úr því þar til óhætt er að færa sig til hægri.

Hringtorg með tveim akreinum eru flóknari og þar getur reynst varasamt að hjóla, sérstaklega í mikilli umferð. Við þessar aðstæður getur verið heppilegast að ná sama hraða og önnur umferð.  Hjólreiðamaður færir sig tímanlega sem næst miðju akreinarinnar og hjólar í umferðarstraumnum á þeirri akrein sem hann velur í hringtorginu.  Hjólreiðamaður á að vera í ytri hring ætli hann út á fyrstu útkeyrslu. Best er að vera í ytri hring ef fara á út á annarri útkeyrslu úr torginu en ef farið er lengra getur borgað  sig að vera í innri hring.  

MYNDBAND: 
Hjólað á akbrautum


Var efnið hjálplegt? Nei