Hjólað á gangstígum

tilmæli til hjólreiðamanna

Hér er farið yfir mikilvæg atriði sem vert er að hafa í huga þegar hjólað er á gangstígum: 

Hægri umferð 
Almennt ættu allir vegfarendur á stígum og gangstéttum að miða við að í gildi sé hægri umferð og að taka eigi fram úr vinstra megin. Þar sem yfirborðsmerkingar aðgreina hluta stígsins fyrir gangandi annarsvegar og hjólandi hinsvegar borgar sig að virða þær merkingar.  

Láttu í þér heyrast 
Hjólreiðamaður þarf að setja sig í spor annarra vegfarenda eins og gangandi sem ekki búast við hröðum og skyndilegum framúrakstri hjólreiðamanns á stígnum. Það borgar sig að hægja á sér og gefa hljóðmerki tímalega áður en komið er að viðkomandi eða ef komið er að blindhorni eða beygju.   

Sýn fram á stíginn   
Hjólreiðamaður þarf að haga hraða miðað við aðstæður. Ef myrkur er eða ef hjólað er um blindhorn þarf að hægja á sér og miða hraðann við sýn fram á við. 

Þverun akbrauta 
Þegar hjólreiðamaður þverar akbraut er mikilvægt að hann hægi á sér og gæti vel að umferð um akbrautina. Ef honum er óhætt að fara yfir borgar sig að hjóla varlega yfir götuna eða leiða hjólið yfir. Þótt bílstjóri hægi á sér er ekki öruggt að hann hyggist stöðva og því þarf hjólreiðamaður að gæta sérstakrar varúðar við þessar aðstæður. Með augnsambandi og bendingum milli hjólreiðamanns og  bílstjóra má minnka líkur á misskilningi. Virða skal ljósastýringar á gatnamótum og gangbrautum og ekki fara yfir fyrr en grænt ljós logar. 

MYNDBAND:
Hjólað á gangstígum


Var efnið hjálplegt? Nei