Hjólað á stígum
tilmæli til hjólreiðafólks
Mikilvæg atriði sem vert er að hafa í huga þegar hjólað er á stígum:
Hægri umferð
Allir vegfarendur á stígum og gangstéttum ættu að miða við að í gildi sé hægri umferð og að taka eigi fram úr vinstra megin. Þar sem yfirborðsmerkingar aðgreina hluta stígsins fyrir gangandi annars vegar og hjólandi hins vegar borgar sig að virða þær merkingar.
Láttu í þér heyrast
Hjólreiðamaður skal setja sig í spor annarra vegfarenda eins og gangandi sem ekki búast við hröðum og skyndilegum framúrakstri hjólreiðamanns á stígnum. Hjólreiðamaður skal hægja á sér og gefa hljóðmerki tímanlega áður en komið er að gangandi vegfarendum eða ef komið er að blindhorni eða beygju.
Hjólastígar
Ef hjólastígur er samhliða gangstétt eða göngustíg skal að jafnaði notast við hjólastíga. Ef hjólað er á gangstétt eða göngustíg skal það gert á hraða sem er ekki meiri en eðlilegur gönguhraði.
Sýn fram á stíginn
Hjólreiðamaður þarf að haga hraða miðað við aðstæður. Ef myrkur er eða ef hjólað er um blindhorn þarf að hægja á sér og miða hraðann við sýn fram á við.
Þverun akbrauta
Hjólreiðamenn eiga að sýna sérstaka aðgát við vegamót og þar sem akbraut og stígar skerast. Ökumaður sem ætlar að beygja þvert á hjólarein skal veita umferð hjólreiðamanna á reininni forgang.