Börn í bíl

Börn á aldrinum 0-14 ára eru 9% allra sem slasast í umferðinni og er barn farþegi í bíl í meirihluta þessara slysa

Öryggisbúnaðurinn þarf bæði að passa barni og bíl

Þegar valinn er öryggisbúnaður er mikilvægt að gefa sér góðan tíma, skoða heimasíður og kynna sér úrval verslana. Búnaðurinn þarf bæði að passa barninu og bílnum.

Öruggara er að hafa barn yngra en þriggja ára í bakvísandi barnabílstól þar sem höfuð þess er hlutfallslega stórt og þungt og hálsliðir þess ekki fullþroskaðir. Með því að nota bakvísandi barnabílstól eru minni líkur á alvarlegum áverkum á mænu og heila.

Hægt er að fá upplýsingar á heimasíðum framleiðenda um hvort búnaðurinn passi í tiltekinn bíl eða í bæklingi sem fylgir honum.

Ekki sama hvernig öryggisbúnaður er festur

Þegar öryggisbúnaður er festur í bíl er nauðsynlegt að það sé gert á réttan hátt.

Þótt barn sé í öryggisbúnaði getur það slasast alvarlega eða látið lífið ef búnaðurinn er ekki rétt festur. Því er mikilvægt að lesa vandlega allar leiðbeiningar sem fylgja bílnum og barnabílstólnum.

Þegar stóll er keyptur er einnig hægt að biðja sölumenn verslunarinnar um aðstoð við að festa stólinn í bílinn. Auk þess þarf að gæta þess að bílbelti má ekki vera snúið og þarf að falla vel að líkama barnsins. Aldrei má setja belti fyrir aftan bak eða undir handlegg.

Eftirfarandi atriði ber að hafa í huga:

  • Börn eru smávaxin og hafa ekki jafngóða yfirsýn og fullorðnir.

  • Börn eiga erfitt með að meta fjarlægð, hraða og stærð bíla og úr hvaða átt hljóð berast.

  • Börn skilja oft ekki þau orð og orðatiltæki sem notuð eru um umferð og gera sér ekki grein fyrir þeim atriðum sem mikilvægust eru.

  • Börn eiga erfitt með að setja sig í spor annarra og átta sig á hvað ökumenn ætla að gera.

  • Börn fá oft skyndihugdettur sem þau framkvæma á stundinni og byggjast viðbrögð þeirra fremur á fljótfærni en skynsemi.

  • Börn sjá einungis smáatriði í umferðinni en ekki aðstæður eða umhverfi í heild.

  • Börn eiga oft erfitt með að einbeita sér að fleiru en einu atriði í einu.Var efnið hjálplegt? Nei