Að velja réttan búnað

Flest börn nota þrjár tegundir af öryggisbúnaði um ævina áður en þau nota bílbelti (án búnaðar)

Ungbarnabílstóll

Fyrsti stóllinn er oft kallaður ungbarnabílstóll og er í flestum tilvikum gerður fyrir börn upp að 13 kílóum. Slíka stóla er hægt að nota sem burðarstóla. Í sumum tilvikum er hægt að kaupa sökkul (Base) sem festur er í bílinn með bílbelti eða ISOFIX festingum og er stólnum síðan smellt í sökkulinn. Einnig er hægt að fá stóla sem henta frá fæðingu þar til barnið er orðið 18 kíló, en þeir henta ekki til burðar og eru því hafðir fastir í bílnum.

Aldrei má setja barn undir eins árs í framvísandi barnabílstól, en mælt er með notkun bakvísandi bílstóla til þriggja ára aldurs.

Barnabílstóll

Þegar barn vex upp úr ungbarnabílstól er tímabært að flytja það í stól sem hentar börnum upp í 18 eða 25 kíló. Þeir stólar eru festir í bílinn með bílbelti eða ISOFIX festingum, en barnið sjálft er fest í stólinn með fimm punkta belti.

Barn á að snúa baki í akstursstefnu eins lengi og hægt er þar sem höfuð þess er hlutfallslega stórt og þungt og hálsliðir þess ekki fullþroskaðir. Með notkun bakvísandi barnabílstóla eru minni líkur á alvarlegum áverkum á mænu og heila lendi bíllinn í árekstri.

Bakvísandi og framvísandi barnabílstólar

Bílpúði með baki

Eftir að barn hefur náð 18 eða 25 kílóa þyngd er óhætt að setja það á bílpúða með baki. Athugið að sum merki framleiða bílpúða með baki frá 15 kg en þó er ekki ráðlegt að setja börn mjög ung á bílpúða með baki.

Ekki er mælt með notkun bílpúða án baks. Bæði veitir bakið hliðarárekstrarvörn og eins kemur það í veg fyrir að bílpúðinn renni undan barninu. Á bakinu eru auk þess lykkjur eða hök til að festa beltið í sem tryggir að það falli rétt að líkama barnsins. 

i-Size
Flestir bílstólar eru hannaðir fyrir ákveðna þyngd barns en bílstólar sem merktir eru i-Size miðað við hæð barns óháð þyngd og eru einhverjir þeirra eru fyrir börn allt að 150 cm á hæð. 


Var efnið hjálplegt? Nei