Algengar spurningar

Hér má sjá svör við algengum spurningum sem koma inn til Samgöngustofu um börn í bíl. 

Sendið einnig spurningar á fraedsla@samgongustofa.is 

Er hættulegt fyrir barnið að sitja of lengi í ungbarnastól?

Ekkert bendir til þess að barnið skaðist af því að sitja í ungbarnastólnum. Best er að hlusta á barnið og laga aksturstímann að óskum þess. Fyrir barnið er öruggasti ferðamátinn í ungbarnastól sem er rétt festur og snýr baki í akstursstefnu.

Hvenær er barn vaxið upp úr barnabílstól?

Oftar en ekki vill það brenna við að foreldrar séu að flýta sér að færa barnið yfir í næsta stól fyrir ofan þann búnað sem barnið er í. Barn er vaxið upp úr barnabílstól þegar höfuð þess nær upp fyrir stólbakið. Það að fæturnir séu komnir fram fyrir eins og í bakvísandi stólum er ekki mælikvarði á hvenær barnið er orðið of stórt fyrir stólinn.

Er í lagi að kaupa eða fá lánaðan notaðan barnabílstól?

Að mörgu þarf að hyggja þegar barnabílstóll er fenginn að láni eða keyptur notaður. Hægt er að fá öryggisbúnað (bílstól) leigðan hér á landi til að mynda hjá tryggingafélögum. Mikilvægt er að athuga aldur búnaðarins en endingartími flestra barnabílstóla er 10 ár og ungbarnastóla fimm ár (eða notaður af þremur börnum). Ef stóll er fenginn að láni hjá vinum eða ættingjum er áríðandi að kanna hvort stóllinn hefur orðið fyrir hnjaski t.d. í árekstri eða lent í öðru óhappi (t.d. fall úr nokkurri hæð líkt og getur gerst þegar stóll er fluttur með flugi). Öryggisbúnaður getur verið ónýtur þótt það sjáist ekki á honum. Samgöngustofa mælir ekki með því að notaður sé barnabílstóll sem keyptur er af ókunnugum.

Hver er endingartími barnabílstóla?

Endingartími ungbarnastóla er fimm ár. Einnig er miðað við fjölda barna sem nota stólinn en ekki er mælt með að nota stól sem hefur verið notaður af tveimur börnum. Ungbarnastólar hafa skemmri endingartíma m.a. vegna þess að þeir eru meira á þeytingi og eru meira notaðir utan bílsins þannig að þeir verða fyrir meira hnjaski. Aðrir stólar endast í 10 ár. Alltaf á að skipta um öryggisbúnað sem lent hefur í árekstri (ef um var ræða lítið nudd er ekki þörf á að skipta honum út). Þá á einnig á að skipta út stól með sprungum og þess háttar skemmdum óháð aldri hans. Ekki mega heldur vera skemmdir á beltum og festingum. Á nýjum viðurkenndum vörum á framleiðsludagurinn að sjást annað hvort greyptur í, stimplaður á eða prentaður á límmiða.

Eru til sérstakir barnabílstólar fyrir börn með sérþarfir?

Já, það eru til barnabílstólar fyrir börn með sérþarfir en þá þarf yfirleitt að sérpanta.

Hver er sektin ef barnabílstóll (öryggisbúnaður) er ekki notaður?

Ökumaður ber ábyrgð á að öryggisbúnaður sé notaður í bílnum. Ef sérstakur öryggisbúnaður fyrir barn er ekki notaður er sektin 30 þúsund en ef þess er ekki gætt að farþegi yngri en 15 ára noti neinn öryggisbúnað er sektin 30 þúsund.

Tekur Samgöngustofa að sér að skoða notaða barnabílstóla?

Nei, Samgöngustofa tekur ekki út barnabílstóla heldur bendir fólki á að endingartími flestra stóla sé um 10 ár frá þeim degi sem hann er tekinn í notkun. Hins vegar er miðað við að ungbarnabílstólar endist skemur, eða fimm ár. Ekki er mælt með að fleiri en tvö börn noti sama ungbarnastól. Ef stóll verður fyrir höggi ber að skipta honum út. Samgöngustofa mælir ekki með því að notaður sé stóll sem keyptur er af ókunnugum þar sem ekki er hægt að kanna með vissu sögu stólsins, sbr. aldur hans og hvort hann hefur lent í tjóni.

Má flytja til Íslands bandaríska og kanadíska barnabílstóla?

Í ökutækjum má einungis nota öryggis- og verndarbúnað (barnabílstóla) fyrir börn sem uppfyllir kröfur samkvæmt reglum ECE númer 44.04 (eða síðari aðlögun þeirra) eða ECE reglum númer 129 (I-size). Búnaðurinn þarf að uppfylla sömu kröfur til að hann megi flytja inn, markaðssetja eða selja. Merkingar um hvaða kröfur búnaðurinn uppfyllir má finna á öryggisbúnaðinum. Bandarískir og kanadískir barnabílstólar uppfylla ekki þessi skilyrði og eru því ekki sambærilegir evrópsku barnabílstólunum. Flestallir barnabílstólar sem eru framleiddir á Norðurlöndunum, Bretlandi og reyndar víðar í Evrópu uppfylla þessar kröfur.   


Var efnið hjálplegt? Nei