Leiðbeiningar

við gerð umferðaröryggisáætlana fyrir sveitarfélög

Undanfarin ár hafa sveitarfélög verið sérstaklega hvött til að gera áætlun um umferðaröryggi. Hér má finna leiðbeiningar um gerð umferðaröryggisáætlana fyrir sveitarfélög.

Umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga miða að því að:

 • Auka vitund um umferðaröryggismál meðal forráðamanna sveitarfélaga og almennings. 
 • Greina stöðuna, finna slysstaði, setja sér markmið og gera aðgerðaráætlun.
 • Leggja grunn að samræmdum og markvissum vinnubrögðum sveitarfélaga og að þannig sé stuðlað að skilvirkari forgangsröðun verkefna í umferðaröryggismálum. 

Leiðbeiningarnar voru unnar í samstarfi við Samgöngustofu, Vegagerðina og Samband íslenskra sveitarfélaga. Sveitarfélög eru hvött til að læra af reynslu hvers annars - hér má sjá umferðaröryggisáætlanir þeirra sveitarfélaga sem gefið hafa út sínar áætlanir. 

Stefna stjórnvalda

Umferðaröryggisáætlun er hluti af samgönguáætlun og er hlutverk hennar að auka umferðaröryggi á Íslandi, fækka umferðarslysum og bæta umferðarmenningu.

Umferðaröryggisáætlun er stefnumarkandi áætlun og er sett til fimmtán ára. Í þeirri áætlun er að finna töluleg markmið sem og áherslur og stefnu í umferðaröryggismálum. Gildandi umferðaröryggisáætlun er frá 2020-2034 og má finna hér.

Aðgerðaráætlun er sett til fimm ára. Í þeirri áætlun er að finna lýsingu á þeim verkefnum sem farið verður í til þess að ná markmiðum og halda þeirri stefnu sem sett er í fimmtán ára áætluninni. Gildandi aðgerðaáætlun er frá 2020-2024.

Í umferðaröryggisáætlun er annars vegar að finna markmið um fækkun slysa og hins vegar markmið um bætta hegðun. Markmiðum um fækkun slysa er svo skipt í yfirmarkmið og undirmarkmið.

Yfirmarkmiðin eru tvö:

 • Að Ísland verði í hópi fimm bestu Evrópuþjóða hvað varðar fjölda látinna í umferðinni á hverja 100.000 íbúa.
 • Að látnum og alvarlega slösuðum fækki að jafnaði um 5% á ári til ársins 2034.

Árlegur samfélagslegur kostnaður af umferðarslysum er af stærðargráðunni 40-60 milljarðar króna og er því til mikils að vinna að auka umferðaröryggi með öllum tiltækum ráðum. Flest slysin verða vegna mannlegra mistaka og er það því á ábyrgð okkar allra að hegðun okkar í umferðinni sé í samræmi við reglur og aðstæður hverju sinni til þess að allir komist heilir heim.

Banaslys og alvarleg slys í umferðinni eru óásættanleg. Mannslíf og heilsa skulu vera í öndvegi og öryggi framar í forgangsröðun en ferðatími, þægindi eða önnur markmið framkvæmda og aðgerða í umferðarmálum. Við skipulag, hönnun og gerð umferðarmannvirkja skal taka mið af því að mannleg mistök eru óhjákvæmileg. Stjórnvöld og stofnanir skulu eiga í góðu samstarfi við alla vegfarendahópa til að ná sátt um aðgerðir sem auka öryggi allra vegfarenda.

Markmið

Umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga miða að því að auka vitund um umferðaröryggismál meðal forráðamanna sveitarfélaga og almennings. Í því felst að greina stöðuna, finna slysstaði, setja sér markmið og gera aðgerðaráætlun. Undanfarin ár hafa sveitarfélög verið sérstaklega hvött til að gera áætlun um umferðaröryggi. 

Markmið með leiðbeiningunum um umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga er að til sé grunnur að samræmdum og markvissum vinnubrögðum sveitarfélaga og að þannig sé stuðlað að skilvirkari forgangsröðun verkefna í umferðaröryggismálum. Sveitarfélög geta nýtt sér leiðbeiningarnar sem nokkurskonar ramma við vinnslu eigin umferðaröryggisáætlunar og er hugsaður sem grunnur að samræmdum og markvissum vinnubrögðum sveitarfélaga og að þannig sé stuðlað að skilvirkari forgangsröðun verkefna í umferðaröryggismálum í samstarfi við Samgöngustofu, Vegagerðina og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Forsendur og undirbúningur

Forsendur

Það er hlutverk sveitarstjórnar að ákveða hvort ráðist er í gerð heildstæðrar umferðaröryggisáætlunar fyrir sveitarfélagið. Mikilvægt er að leggja skýrar línur um það hversu metnaðarfull áætlunin skal vera. Það er betra að áætlunin sé raunsæ heldur en svo metnaðarfull að fyrirhugaðar aðgerðir líti aldrei dagsins ljós.

Í litlum sveitarfélögum er hugsanlega best að takmarka umfang áætlunarinnar. Mat á núverandi stöðu og markmiðasetning ætti þó að minnsta kosti alltaf að fara fram. Þegar því er lokið má vinna tillögur að verkefnum og mat á þeim.

Í framhaldi af ákvörðun um að hefja þá vinnu þarf sveitarstjórn meðal annars að taka afstöðu til eftirfarandi spurninga:

 • Hvaða aðferðir er mögulegt að nota?
 • Hvaða mannauður, fjármagn og gögn eru til ráðstöfunar?
 • Hvernig er samráðshópur áætlunarinnar samsettur?

Fyrstu skref

 • Skilgreina verkefnisstjórn.
 • Tryggja samstarf við Vegagerðina og lögreglu og kanna samstarf við nágrannasveitarfélög.
 • Mynda framtíðarsýn um umferðaröryggismál sveitarfélagsins. Ná samkomulagi um raunsæ og metnaðarfull markmið sem eru í samræmi við stærð sveitarfélagsins.
 • Stofna samráðshóp. Fá viðeigandi hagsmunaaðila með í starfið frá byrjun.
 • Áætla tíma og kostnað.
 • Viðhalda yfirsýn.

Þegar sveitarfélög vinna saman að verkefnum er tengjast umferðaröryggi geta þau nýtt sér og lært hvert af annars reynslu. Á vef Samgöngustofu má sjá umferðaröryggisáætlanir þeirra sveitarfélaga sem lokið hafa vinnu sinni. Samgöngustofa getur útvegað slysagögn og aðstoðað við úrvinnslu þeirra, sveitarfélögunum að kostnaðarlausu. Slysagögn gefa vísbendingar um fjölda slysa, orsakir þeirra og hugsanlegar leiðir til úrbóta. Einnig getur Vegagerðin veitt ráðleggingar um lausnir á umferðaröryggismálum.

Gott er að hefja gerð umferðaröryggisáætlunar með því að kveikja áhuga og senda skýr skilaboð um þá vinnu sem framundan er í umferðaröryggismálum í sveitarfélaginu. Það er t.d. hægt að gera með því að halda þemadag fyrir sveitarstjórn og/eða umferðarnefnd (skipulags- og byggingarnefnd) sveitar­félagsins. Tilgangur þemadags er að kynna almenn atriði um umferðaröryggi, fjalla um tilgang umferðaröryggisáætlunar, skapa umræður um stöðu þessara mála í sveitarfélaginu og auka almenna þekkingu á málaflokknum.

Verkefnastjórn

Æskilegt er að sveitarstjórn skipi í upphafi verkefnisstjóra sem stýrir og ber ábyrgð á mótun umferðaröryggisáætlunar, kynningu og framfylgd hennar. Verkefnisstjórinn skal tryggja að sú þekking og reynsla sem fæst í gegnum ferlið skili sér inn í stjórnsýsluna. Auk þess er það hlutverk verkefnisstjórans að hvetja samstarfsfólk, stjórnendur og sveitarstjórnar til að styðja við og efla störf í þágu umferðaröryggis.

Samráðshópur

Áætlun sem unnin er í samvinnu við íbúa og hagsmunaaðila í sveitarfélaginu er mjög líkleg til að skila góðum árangri. Því er æskilegt að bjóða áhugasömum hagsmunaaðilum sæti í samráðshóp sem endurspeglar samfélagið. Þessi hópur ætti ekki að vera of stór en það er kostur ef hann skipa fulltrúar allra helstu hagsmunaaðila og svæða innan sveitarfélagsins. Samráðshóparnir geta mögulega verið fleiri en einn ef um er að ræða stórt sveitarfélag, t.d. hópur fyrir hvern þéttbýliskjarna innan sveitarfélagsins eða stærri hverfi innan þéttbýlis.

Dæmi um hagsmunaaðila:
Vegagerðin, Samgöngustofa, lögregla, skipulagsnefnd sveitarfélags, heilbrigðisstofnanir, menntastofnanir og foreldrafélög, atvinnubílstjórar á svæðinu, ökukennarar, Landsbjörg, fulltrúar allra aldurshópa (ungmennaráð, eldri borgarar), fulltrúar allra vegfarendahópa í umferðinni (gangandi, hlaupandi, hjólandi, akandi, ríðandi o.fl.). 

Þessi upptalning er ekki tæmandi, hvert sveitarfélag þarf að meta hvaða samtök, stofnanir og hagsmunaaðilar geta stuðlað að bættu umferðaröryggi og eiga erindi í samráðshópinn.

Hópurinn gæti fundað 3-4 sinnum meðan á undirbúningsvinnunni stendur t.d. áður en rannsóknar-vinna hefst sem og fyrir og eftir að tillaga að áætluninni hefur verið send til kynningar. Fundi má halda hjá mismunandi hagsmunaaðilum til skiptis. Það gefur möguleika á að skoða og ræða vandamál allra aðila.

Það er hlutverk sveitarstjórnarmanna að samþykkja markmið umferðaröryggisáætlunar og endanlega forgangsröðun verkefna. Samráðshópurinn getur tekið þátt í umræðum og komið með tillögur og athugasemdir en vissulega geta sveitarstjórnarmenn hafnað tillögum samráðshópsins.

Sveitarfélagið ætti að setja fram hver tilgangurinn er með framlagi samráðshópsins og það þyrfti einnig að leggja línur að vinnu hans og áhrifum. Þátttakendurnir þurfa að vita hvaða hlutverk þeir hafa í ferlinu, að hvaða málum þeir eiga að vinna og hvernig tillögur þeirra og álit eru nýtt.

Það er ekki hugmyndin að samráðshópurinn komi í stað sveitarstjórnar. Lykilatriði er að nýta þekkingu hópsins á ástandi umferðaröryggismála innan sveitarfélagsins. 

Verkefni samráðshópsins gætu verið eftirfarandi:

 • Ræða og meta vandamál á stöðum sem komið hafa fram við kortlagningu slysa.
 • Fara yfir lista yfir umferðaröryggisvandamál á öllum svæðum innan sveitarfélagsins.
 • Taka þátt í undirbúningsvinnu vegna spurningalista eða athugana á skólaleiðum.
 • Ræða niðurstöður spurningalista eða athugana á skólaleiðum.
 • Ræða verkefni og forgangsröðun þeirra.
 • Koma með athugasemdir við drög að umferðaröryggisáætlun eða hluta hennar.

Utanaðkomandi ráðgjöf

Það hafa ekki öll sveitarfélög sérfræðinga í umferðaröryggismálum í sínum röðum. Ef þörf er á getur sveitarfélagið keypt ráðgjöf strax við undirbúning umferðaröryggisáætlunar. Þá er mikilvægt að verkefnisstjóri sveitarfélagsins stjórni samt sem áður verkefninu og beri ábyrgð á áætlunarferlinu. Þegar undirbúningi er lokið er æskilegt að leita ráðgjafar sérfræðinga í umferðaröryggismálum við stöðumat og greiningarvinnu, útfærslu aðgerða og forgangsröðun þeirra. Ýmsar verkfræðistofur hafa sérhæft sig í slíkri ráðgjöf og vinnu.

Verkáætlun

Gott er að útbúa verk- og tímaáætlun fyrir undirbúning umferðaröryggisáætlunar. Í áætluninni skal koma fram hvenær hvert stig fer fram, hvaða vinnu skal vinna innan hvers stigs og hverjir skulu taka þátt í hverju stigi. Takmarka skal fjölda þátttakenda á hverju stigi. Mikilvægt er að glata ekki yfirsýninni og forðast að bregðast væntingum fólks.

Stöðumat og greiningarvinna

Stöðumat og gagnasöfnun

Ítarlegt stöðumat og greiningarvinna er nauðsynleg til að geta aukið umferðaröryggi innan sveitarfélaga. Mat á umferðaröryggi skapar grundvöll fyrir því að geta skilgreint staði þar sem mörg slys hafa orðið og staði sem vegfarendur upplifa sem varasama.

Stöðumat felst m.a. í söfnun og úrvinnslu fyrirliggjandi slysagagna. Upplýsingarnar sem safnað er saman mynda þann grunn sem notaður er til að meta orsakir þeirra vandamála sem greinast og koma með tillögur að úrbótum.

Mikilvægt er að ganga skipulega til verks við mat á stöðu öryggis í sveitarfélaginu. Hversu skipulega það er gert veltur á fyrirliggjandi upplýsingum en það er mikilvægt að sveitarfélagið öðlist nægilega yfirsýn yfir slysatölur, þekktar orsakir og hvar hættulegir eða varasamir staðir eru. Verði matið of yfirborðskennt er hætta á að einblínt verði á röng svæði. Það er því mikilvægt að vanda til verks frá byrjun.

Mikilvægt er að upplýsingar úr stöðumati séu settar fram á skilmerkilegan hátt fyrir sveitarstjórn og íbúa sveitarfélagsins. Kynna skal tölfræði og aðrar upplýsingar á þann hátt að innihald þeirra og boðskapur sé skýr. Oft getur verið hentugt að skipta niðurstöðunum upp, annars vegar í almennan kafla um allt sveitarfélagið og hins vegar í nokkra minni kafla fyrir einstök svæði innan þess. Mælt er með því að gert verði eitt heildar­kort sem sýnir slys og varasama staði eða hindranir.

Beina athygli að staðbundnum vandamálum

 • Fá yfirsýn yfir hvaða vandamál eru algeng í sveitarfélaginu.
 • Athuga hvaða vandamál þarfnast úrlausnar að mati íbúa og sveitarstjórnarmanna.

Gagnasöfnun

Á slysakorti Samgöngustofu má finna ítarlegar upplýsingar um umferðarslys sem hafa orðið á Íslandi frá 1. janúar 2007 til og með ársins 2020. Hægt er að velja ákveðna tegund slysa og alvarleika, þ.e. hvort um sé að ræða óhapp án meiðsla, slys með litlum meiðslum, alvarlegt slys eða banaslys. Þá er hægt að birta upplýsingar um viðeigandi slys/óhapp, sjá teiknaða afstöðumynd af því hvað gerðist ásamt því að fá upplýsingar um tíma, staðsetningu, ökutæki og slasaða einstaklinga. Þá er hægt að flytja gögn yfir í töflureikni og fá þannig upplýsingar um slys í ákveðnu hverfi, sveitarfélagi eða jafnvel sýslu.

 • Skoða gögn sem skipta máli fyrir sveitarfélagið. 
 • Greina slysatölur undanfarinna ára.
 • Greina gatnakerfi sveitarfélagsins, núverandi hraðatakmarkandi aðgerðir og kortleggja gönguleiðir.
 • Nýta athuganir á skólaleiðum, spurningalista, viðtöl eða aðrar aðferðir til að skoða varasama staði og hindranir í gatnakerfinu.
 • Telja umferð og mæla hraða þar sem þörf er á.
 • Útbúa lista yfir möguleg úrræði.
 • Úrvinnsla gagna og framsetning þeirra
 • Sýna slysin á yfirlitsmynd og greina svartbletti ef einhverjir eru.
 • Fara í vettvangsferðir.
 • Sýna núverandi hraðatakmarkandi aðgerðir á yfirlitsmynd og merkja götukafla og staði þar sem bæta má öryggi vegfarenda.
 • Gera auðskiljanlega og skipulagða kynningu fyrir sveitarfélagið, e.t.v. fyrir einstök svæði innan þess.

Úrvinnsla gagna og framsetning þeirra

 • Sýna slysin á yfirlitsmynd og greina svartbletti ef einhverjir eru.
 • Fara í vettvangsferðir.
 • Sýna núverandi hraðatakmarkandi aðgerðir á yfirlitsmynd og merkja götukafla og staði þar sem bæta má öryggi vegfarenda.
 • Gera auðskiljanlega og skipulagða kynningu fyrir sveitarfélagið, e.t.v. fyrir einstök svæði innan þess.

Kortlagning slysa

Á slysakorti Samgöngustofu má finna ítarlegar upplýsingar um umferðarslys sem hafa orðið á Íslandi frá 1. janúar 2007 til og með ársins 2020. Hægt er að velja ákveðna tegund slysa og alvarleika, þ.e. hvort um sé að ræða óhapp án meiðsla, slys með litlum meiðslum, alvarlegt slys eða banaslys. Þá er hægt að birta upplýsingar um viðeigandi slys/óhapp, sjá teiknaða afstöðumynd af því hvað gerðist ásamt því að fá upplýsingar um tíma, staðsetningu, ökutæki og slasaða einstaklinga. Þá er hægt að flytja gögn yfir í töflureikni og fá þannig upplýsingar um slys í ákveðnu hverfi, sveitarfélagi eða jafnvel sýslu.

Þegar greiningu á fjölda, tegund, þróun og orsökum slysa í sveitarfélaginu er lokið má kalla fram kort sem sýnir staðsetningu slysa gefur góða yfirsýn og er forsenda þess að geta fundið sérstaklega hættulega staði í umferðinni, hina svokölluðu svartbletti. Tímabil kortlagningar þarf að vera minnst 3-5 ár til að geta gefið trúverðuga mynd af hættulegustu stöðunum.

Hér má sjá hvaða gögn er hægt að kalla fram. Hér má sjá allar tegundir umferðarslysa í Vestmannaeyjum frá 2015-2020:

Mynd-a

Hér er búið að taka frá óhöpp án meiðsla og haka í Hitakort. Hitamyndin sýnir "hita" á svæði eftir þéttleika þeirra punkta sem birtir eru. Einnig vega slysin meira eftir því hversu alvarleg þau eru. Hitasvæðin eru alltaf afstæð m.v. þéttleika annarra punkta sem birtast á skjánum hverju sinni. Þar sem þéttleiki slysa er almennt meiri í þéttbýli en í dreifbýli þá dofnar yfir hitasvæðum í dreifbýli ef þéttbýli sést á skjánum:

Mynd-b

Hér er búið að velja einungis að skoða þar sem ekið er á óvarinn vegfaranda:

Mynd-c

Úttekt á gatnakerfi 

Slysagögn segja ekki alla söguna um stöðu umferðaröryggismála í sveitarfélagi. Eins og fram hefur komið eru slys vanskráð í opinberum gögnum og eins eru til varasamir staðir þar sem ekki hafa orðið slys en aðstæður eru með þeim hætti að slys geta orðið í framtíðinni. Mikilvægur hluti af stöðumati er því fagleg umferðaröryggisúttekt og mat á æskilegum aðgerðum. Ef sveitarfélög hafa ekki sérfræðinga í umferðaröryggi í sínum röðum geta þau fengið ráðgjöf sérfræðinga í málaflokknum.

Ráðgjafar vinna úttekt á gatnakerfi sveitarfélagsins og gönguleiðum þar sem t.d. núverandi hraðatakmarkandi aðgerðir eru kortlagðar og ábendingar um hvar hægt er að bæta öryggi vegfarenda með frekari aðgerðum eru settar fram.

Kortlagning á varasömum stöðum 

Kortlagningin ætti að taka mið af upplifun vegfarenda á varasömum stöðum og hindrunum í gatnakerfinu. Hún er mikilvægur grundvöllur fyrir skipulagningu sveitarfélagsins. Athuganir af þessu tagi geta leitt til aukinnar viðurkenningar og almenns skilnings á vinnu sveitarfélagsins í þágu öryggis og þannig aukið líkurnar á því að vegfarendur tileinki sér öruggari hegðun í umferðinni.

Auk faglegrar úttektar umferðarsérfræðinga á gatnakerfi og gönguleiðum eru einkum þrjár aðferðir sem hægt er að nota til að greina varasama staði og hindranir í gatnakerfinu:

 • Athuganir á skólaleiðum.
 • Spurningalistum dreift í hús.
 • Viðtöl við lykilaðila.

Athuganir á skólaleiðum gefa svar við því á hvaða hátt nemar upplifa umferðar­öryggi. Börn eiga auðveldara með að láta í ljós skoðun sína en fullorðnir og tala þau gjarnan hispurslaust um upplifun sína í umferðinni. Í nokkrum sveitarfélögum hérlendis hafa skólaleiðir verið greindar með heimsóknum í 3., 6. og 9. bekk grunnskóla. Börn í þessum árgöngum hafa þá fengið afhent kort af sínu hverfi og þau verið beðin um að merkja inn á kortin þá leið sem þau ganga í skólann. Í leiðinni eru börnin beðin um að segja frá því hvar þau upplifa hættur í umferðinni. Athuganir af þessu tagi hafa nýst þessum sveitarfélögum við staðsetningu gangbrauta og hraðatakmarkandi aðgerða.

Spurningalistar sem dreift er í hús gefa öllum íbúum tækifæri til að koma sínum ábendingum á framfæri. Þá hefur það reynst ágætlega að gefa íbúum tækifæri til að tjá sig á heimasíðu sveitarfélaga þó slíkt nái e.t.v. ekki til allra íbúa. Dreifing spurningalista er góð aðferð til að fá íbúa með sér í lið og fá frekari vitneskju um staðbundnar aðstæður í umferðinni. Svarhlutfall eykst ef eingöngu er spurt um staðbundnar aðstæður. Með hjálp mynda og teikninga eru íbúar líklegri til að tjá sig og benda á gatnamót, vegi/götur og gönguleiðir sem þeir telja varasamar. Með spurningalista opnast einnig möguleiki á því að fá innsýn í ferðavenjur íbúa, t.d. ferðamáta­val og hvaða aðgerðir íbúum finnst mikilvægastar m.t.t. umferðaröryggis.

Viðtöl við lykilaðila getur reynst vel, t.d. að tala við stjórnendur menntastofnana, íbúasamtök, verslunarsamtök, samtök fatlaðra eða aðra hlutaðeigandi.

Óháð því hvaða aðferð er notuð er nauðsynlegt að nota þær tiltölulega staðbundið. Íbúum finnst t.d. mun auðveldara að svara spurningum um það svæði sem þeir búa á heldur en um svæði í nágrenninu. 

Hér ofar er fjallað um slysakort Samgöngustofu en þar  má finna ítarlegar upplýsingar um umferðarslys sem hafa orðið á Íslandi frá 1. janúar 2007 til og með ársins 2020 (sjá stöðumat og gagnasöfnun hér ofar).

Vettvangsferð um sveitarfélagið 

Skipuleggja ætti vettvangsferð þar sem embættismenn sveitarfélagsins, ráðgjafar sveitarfélagsins í umferðaröryggismálum og fulltrúar frá lögreglu, Vegagerðinni og mögulega íbúasamtökum mynda sér skoðanir varðandi eðli og umfang vandamálanna og reyna að finna lausnir í sameiningu. Í ferðinni skal skoða helstu staði þar sem slys hafa orðið eða eru taldir varasamir af umferðar¬sérfræðingum eða vegfarendum samkvæmt stöðumatinu.
Vettvangsferðin leiðir oft til þess að nauðsynlegt reynist að athuga fleiri þætti t.d. með hraða-mælingum eða umferðartalningum. Mjög er mælt með því að nýta hraðamælingar sem verkfæri í umferðaröryggisvinnunni. Hraðamælingar og talningar nýtast við greiningu á slysastöðum og einnig til þess að rökstyðja grun íbúa um umferðamagn eða umferðarhraða.

 • Gerið lista yfir svartbletti og jafnframt þá staði sem hafa verið tilgreindir sem varasamir. Skipuleggið ferðina á þann hátt að hægt sé að skoða alla staðina á einum degi.
 • Takið fulltrúa frá íbúasamtökum, lögreglu og Vegagerðinni ásamt ráðgjafa í umferðaröryggismálum sveitarfélagsins með í ferðina.
 • Takið með gott kort til að teikna á og skrifa athugasemdir. Allir staðirnir þurfa að koma greinilega fram á kortinu. Takið myndir af stöðunum.
 • Takið með gögn yfir slys í þeim tilgangi að meta hugsanleg vandamál. Gerið stutt stöðumat fyrir hvern stað.

Hraðamælingar

Hraði er í grundvallaratriðum mældur á tvo ólíka vegu: Hraðamælingar lögreglu og sjálfvirkar hraðamælingar og umferðartalningar með umferðargreinum.

Með nútíma tækni er hægt að skrá sjálfvirkt hraða, lengd og tímasetningu ökutækja. Þar með er hægt að vinna margskonar tölfræðilega útreikninga, t.d. fyrir meðalhraða og dreifingu umferðar yfir tímabil (sólarhring, vikudaga, árstíð). Þegar lögreglan mælir hraða er það vanalega gert í þeim tilgangi að mæla hraða yfir leyfilegu hámarki. Einnig er mögulegt að skrá handvirkt mælingar frá radarmælum lögreglu og sveitarfélög hafa í sumum tilfellum fengið þá lánaða til markvissra hraðamælinga og söfnunar tölfræðilegra gagna um hraða. Vegagerðin getur aðstoðað við úrvinnslu slíkra gagna.

Segja má að sjálfvirkar hraðamælingar séu næstum orðnar nauðsynlegar við mat á umferðaröryggi. Eigi sveitarfélag ekki búnað til slíkra mælinga er hugsanlegt að sveitarfélög í nágrenninu eða Vegagerðin hafi yfir honum að ráða. Þá er einnig mögulegt að ráðgjafar í umferðarmálum eigi slíkan búnað og geti tekið að sér mælingar og úrvinnslu gagna.

Íbúafundur

Umferðaröryggi snýst að miklu leyti um hegðun íbúanna í umferðinni. Það er því mikilvægt þegar unnið er að bættu umferðaröryggi að litið sé á íbúana sem mikilvægan markhóp. Þegar íbúarnir fá að vera þátttakendur í ferlinu er nauðsynlegt að hlusta á skoðanir þeirra. Þátttaka þeirra leiðir til meiri vinnu en seinna í ferlinu koma í ljós kostir þess að leyfa þeim að taka þátt því almenn þekking allra aðila og utanaðkomandi stuðningur verður meiri. Til að áhugi íbúanna viðhaldist þurfa þeir að finna að framlag þeirra hafi þýðingu fyrir afstöðu sveitarfélagsins.

Þess vegna má á þessum tímapunkti, þegar stöðumati er lokið, halda íbúafund þar sem staða umferðaröryggismála er kynnt, farið er yfir næstu skref og íbúum er boðið að taka þátt í umræðum. 


Var efnið hjálplegt? Nei