Spurt og svarað

Helstu spurningar og svör varðandi leigubifreiðaakstur. Svörin taka mið af lögum nr. 120/2022 sem tóku gildi 1. apríl 2023 og reglugerð um leigubifreiðaakstur nr. 324/2023.

Eru leyfi sem voru gefin út fyrir 1. apríl enn í gildi?

Einstaklingar sem eru nú þegar með útgefin leyfi halda réttindum sínum eins og um leyfi samkvæmt nýjum lögum væri að ræða. Þegar atvinnuskírteini rennur út þarf að sækja um endurnýjun samkvæmt nýjum lögum.

Er hámarksaldur?

Nei, í nýjum lögum er enginn hámarksaldur.

Eru takmörkunarsvæði?

Nei, engin takmörkunarsvæði eru í nýjum lögum.

Er fjöldi leyfa takmarkaður?

Nei, allir sem uppfylla skilyrði geta fengið leyfi.

Þarf leiguakstur að vera aðalatvinna?

Nei, í nýjum lögum er ekki gerð krafa um lágmarks nýtingu leyfis.

Þarf að tilkynna veikindi til Samgöngustofu?

Nei, það þarf ekki að tilkynna veikindi eða aðra fjarveru frá leigubifreiðaakstri. Rekstrarleyfishafi skal þó alltaf tryggja að skráð sé í gagnagrunn Samgöngustofu hver keyrir bílinn ef annar en hann sjálfur.

Þarf að vera sérstök ástæða fyrir að annar en rekstrarleyfishafi keyri bílinn?

Nei, það þarf ekki að vera tilgreind sérstök ástæða eins og áður s.s. orlof eða veikindi. Rekstrarleyfishafi skal þó alltaf tryggja að skráð sé í gagnagrunn Samgöngustofu hver keyrir bílinn ef annar en hann sjálfur.

Er hægt að leggja leyfi inn tímabundið?

Nei, í nýjum lögum er hvergi minnst á innlögn leyfa.

Ef leyfishafi er nú þegar með innlagt leyfi?

Leyfishafar með innlögð leyfi halda sínum réttindum og geta tekið út leyfið í samræmi við lög nr. 134/2001.

Er hægt að sækja um eðalvagnaleyfi?

Nei, ekki verða gefin út sérstök leyfi til eðalvagnaþjónustu. Þeir sem hyggjast bjóða upp á sambærilega þjónustu geta sótt um rekstrarleyfi til leiguaksturs og kosið að keyra samkvæmt fyrirframumsömdu verði. Leigubifreið sem keyrir samkvæmt fyrirframumsömdu verði er auðkenndu með leyfismiða í framrúðu bifreiðar.

Hver sér um skráningu í gagnagrunn Samgöngustofu?

Rekstrarleyfishafi ber ábyrgð á að skrá upplýsingar í gagnagrunn. Rekstrarleyfishafi getur framselt þessa ábyrgð með samningi til leigubifreiðastöðvar.

Er stöðvarskylda?

Já, samkvæmt nýjum lögum skal rekstrarleyfishafi hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð. Þó getur rekstrarleyfishafi sem rekur eina bifreið verið sín eigin stöð.

Mega farveitur starfa samkvæmt nýjum lögum?

Farveitur teljast vera aðili sem hefur milligöngu um þjónustu leigubifreiða og þurfa þ.a.l. að sækja um starfsleyfi leigubifreiðastöðvar.

Hvernig eru leigubifreiðar merktar/auðkenndar?

  • Leigubifreið sem keyrir samkvæmt gjaldmæli skal auðkennd með þakljósi.
  • Leigubifreið sem keyrir samkvæmt fyrirframumsömdu verði er auðkennd með leyfismiða í framrúðu bifreiðar.
  • Leigubifreið sem ekur frá stöð skal merkt stöðinni neðarlega fyrir miðju í framrúðu. Einnig með stöðvarnúmeri, á áberandi hátt, ofarlega vinstra megin í afturrúðu bifreiðar.
  • Við leiguakstur skal leyfisskírteini ávallt vera sýnilegt.

Þarf leigubifreið að hafa gjaldmæli?

Löggildir gjaldmælar skulu vera í öllum leigubifreiðum. Þrátt fyrir það er heimild að keyra án gjaldmælis þegar ferð er seld fyrir fyrirframumsamið verð.

Hver heldur námskeið?

Ökuskólinn í Mjódd býður upp á námskeið fyrir leyfishafa vegna leigubifreiðaaksturs. 

Er hægt að fá undanþágu frá námskeiði?

Heimilt er að veita undanþágu frá námskeiði eða einstökum hlutum þess er varða rekstur, bókhald eða skattskil. Aðeins skal veita undanþágu ef umsækjandi eða eftir atvikum fyrirsvarsmaður hans býr yfir og getur sýnt fram á að hafa áður lokið prófi á viðkomandi sviði eða að hafa í störfum sínum til hið minnsta þriggja ára öðlast sambærilega þekkingu.

Getur leyfishafi rekið fleiri en eina bifreið?

Já, rekstrarleyfishafi getur rekið eina eða fleiri leigubifreið undir leyfinu. Tilkynna þarf allar bifreiðar til Samgöngustofu sem skráir í gagnagrunn samkvæmt því.


Frekari spurningar?

Hægt er að senda fyrirspurnir á leyfisveitingar@samgongustofa.is ef einhverjar frekari spurningar vakna.


Var efnið hjálplegt? Nei