Spurt og svarað
Spurningar og svör varðandi ökutækjaleigur.
Hverjir þurfa starfsleyfi til reksturs ökutækjaleigu?
Leyfin eru veitt til þeirra aðila sem hyggjast leigja út skráningarskyld ökutæki í atvinnuskyni án ökumanns.
Getur einstaklingur verið með ökutækjaleigu?
Einstaklingar og lögaðilar geta sótt um starfsleyfi til reksturs ökutækjaleigu.
Hvað er einkaleiga?
Einkaleiga er starfsemi sem rekin er í atvinnuskyni þar sem einstaklingar geta boðið til leigu, að jafnaði til skemmri tíma, skráningarskylt ökutæki í persónulegri eigu með milligöngu leigumiðlunar.
Hvað kostar starfsleyfi til reksturs ökutækjaleigu?
Starfsleyfi til reksturs ökutækjaleigu fer eftir gjaldskrá Samgöngustofu og er 120.000 kr.
Hvað kostar starfsleyfi til reksturs einkaleigu?
Starfsleyfi til reksturs einkaleigu fer eftir gjaldskrá Samgöngustofu og er 80.000 kr.
Hvernig á að breyta notkunarflokki ökutækja úr almennri notkun í ökutækjaleigu og öfugt?
- Almenn notkun: Ef breyta á notkunarflokki ökutækis í notkunarflokk sem hefur rýmri skoðunartíðni þarf ökutækið áður að gangast undir reglubundna skoðun, hafi hún ekki þegar verið framkvæmd á almanaksárinu, óháð skoðunarmánuði viðkomandi ökutækis. Skoðunarmánuður ökutækis breytist ekki vegna þessa nema annað sé tekið fram í reglugerð þessari.
- Ökutækjaleiga: Heimilt er að skrá ökutæki úr notkunarflokknum almenn notkun í ökutækjaleigu án sérstakrar skoðunar á skoðunarstofu. Beiðni um skráningu á notkunarflokki ökutækis er að finna hér sem hægt er að skila inn til skráningar hjá Samgöngustofu eða á viðurkennda skoðunarstöð.
Þurfa ökutæki að vera skráð í notkunarflokkinn ökutækjaleiga sem leigð eru út í gegnum einkaleigu?
Öll ökutæki í útleigu þurfa að vera skráð í notkunarflokkinn ökutækjaleiga, hvort sem um er að ræða bifreið í útleigu hjá einkaleigu eða ökutækjaleigu.
Hver er afgreiðslutími umsókna um starfsleyfi til reksturs ökutækjaleigu?
Afgreiðsla umsókna um starfsleyfi til reksturs ökutækjaleigu er að minnsta kosti 30 dagar þar sem viðkomandi sveitarfélag þarf að veita jákvæða umsögn vegna staðsetningar ökutækjaleigu innan 30 daga. Beiðni um umsögn er send þegar öll gögn vegna umsóknar um starfsleyfi ökutækjaleigu hafa borist til Samgöngustofu.
Hver er gildistími starfsleyfa til reksturs ökutækjaleigu/einkaleigu?
Starfsleyfi til reksturs ökutækjaleigu/einkaleigu eru ótímabundin svo lengi sem engar breytingar hafa orðið á starfseminni. Allar breytingar er snúa að starfsemi viðkomandi leigu þarf að tilkynna til Samgöngustofu.
Hver er afgreiðslutími umsókna um starfsleyfi til reksturs einkaleigu?
Afgreiðsla starfsleyfis einkaleigu eru 5-10 virkir dagar.