Spurt og svarað

Spurningar og svör er varða rekstrarleyfi til farþega- og farmflutninga má finna hér að neðan.

Hverjir þurfa rekstrarleyfi til farþegaflutninga?

Einstaklingar og lögaðilar sem stunda farþegaflutninga í atvinnuskyni þurfa til þess rekstrarleyfi til farþegaflutninga. Sjá nánar hér.

Hvað er rekstrarleyfi til farmflutninga?

Einstaklingar og lögaðilar sem stunda farmflutninga í atvinnuskyni á vélknúnum ökutækjum eða samtengdum ökutækjum sem eru með leyfða heildarþyngd 3.5 tonn eða meira og leyfilegan hámarkshraða ökutækja 45 km á klst. eða meiri þurfa til þess rekstrarleyfi til farmflutninga. Sjá nánar hér.

Hvenær og hvar er námskeið fyrir rekstarleyfishafa?

Ökuskólinn í Mjódd heldur námskeið með reglulegu millibili (u.þ.b. mars og október ár hvert) sem er auglýst hverju sinni á vef ökuskólans.

Er hægt að fá undanþágu frá námskeiði?

Heimilt er að veita undanþágu frá námskeiði eða einstökum hlutum þess ef umsækjandi getur sýnt fram á að hafa lokið prófi í einhverri þeirra greina sem um getur í námskrá. Einnig er hægt að óska eftir undanþágu frá námskeiði ef sýnt er fram á a.m.k. tíu ára starfsreynslu í rekstri fyrirtækis. Hvert tilfelli er metið fyrir sig og sendist beiðni um undanþágu með umsókn.

Hvað er átt við með jákvæðri eiginfjárstöðu varðandi rekstrarleyfi?

Eitt skilyrði þess að fá almennt rekstrarleyfi felur í sér að umsækjandi geti sýnt fram á jákvæða eiginfjárstöðu. Fullnægjandi fjárhagsstaða merkir að hafa aðgang að nægilegu fjármagni til að stofna fyrirtæki og tryggja öruggan rekstur þess. Umsækjandi verður að hafa eigið fé og sjóði sem jafngilda a.m.k. kr. 1.150.000 fyrir fyrsta ökutæki og kr. 640.000 á hvert ökutæki umfram það.

Hvað er ferðaþjónustuleyfi?

Ferðaþjónustuleyfi á við þegar sótt er um leyfi til farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrir venjulega (óbreytta) fólksbifreið sem er skráð fyrir átta farþega eða færri. Hver ferð þarf þá að vera fjórar klst. eða lengur. Þegar sótt er um ferðaþjónustuleyfi þarf umsækjandi að hafa leyfi ferðasala dagsferða eða ferðaskrifstofuleyfi frá Ferðamálastofu.

Hvað er leyfi fyrir sérútbúnar bifreiðar?

Leyfi fyrir sérútbúnar bifreiðar á við þegar sótt er um leyfi til farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrir breytta fólksbifreið skráð fyrir átta farþega eða færri. Breytt fólksbifreið felur í sér að þessu leyti að dekkjastærð bifreiðar nái að minnsta kosti 780 mm í þvermál og sé skilgreind sem torfærubifreið í ökutækjaskrá.

Hver er afgreiðslutími umsókna um almenn rekstrarleyfi?

Afgreiðslutími umsókna um almenn rekstrarleyfi er allt frá fimm virkum dögum upp í tíu virka daga frá því öll gögn hafa borist. Athuga skal að mesta aðsóknin er á vormánuðum og því getur afgreiðslutími lengst eftir atvikum.

Hver sér um eftirlit með rekstrarleyfishöfum?

Umferðareftirlit lögreglu var flutt frá Samgöngustofu þann 1. janúar 2016 til þriggja lögregluembætta; Lögreglustjórans á Vesturlandi , Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og Lögreglustjórans á Suðurlandi.

Umferðareftirlitið hefur eftirlit með stærð, heildarþyngd og ásþunga ökutækja, hleðslu, frágangi og merkingu farms, ökumælum, ökuritum, olíugjaldi og kílómetragjaldi, leyfisskyldri starfsemi sem varðar fólksflutninga og farmflutninga á landi og fleira. Öllum fyrirspurnum sem snúa að starfsmarkmiðum umferðareftirlits ber því að beina til lögreglunnar.Var efnið hjálplegt? Nei