Endurmenntun

Bílstjóri sem ekur stórri bifreið í ökuréttindaflokki D1 og D til farþegaflutninga í atvinnuskyni og í flokki C1 og C til vöruflutninga í atvinnuskyni skal sækja 35 kennslustunda endurmenntun á 5 ára fresti.

Réttindin eru gefin til kynna með tákntölunni 95 og er lok gildistíma sett í sviga aftan við tákntöluna. Talan gildir í öllum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins og veitir bílstjóra aðgang að atvinnumarkaði bílstjóra í þessum ríkjum. Ríkjunum er einnig heimilt að nota sérstök atvinnuskírteini með mynd af rétthafa í stað eða ásamt tákntölunni. Skylda til endurmenntunar nær til allra sem halda réttindum til að aka bifreiðum í atvinnuskyni í þessum flokkum. 

Hverjir þurfa að sækja endurmenntun?
Þeir bílstjórar sem fengið hafa réttindi sín fyrir 10. september 2013 þurfa að klára endurmenntun fyrir 10. september 2018. Hinir og reyndar allir sem endurnýja ökuskírteinið sitt með þessum flokkum eftir þann tíma þurfa að hafa klárað endurmenntun.

Hverjir þurfa ekki að sækja endurmenntun?
Þeir bílstjórar sem aka aðeins í eigin þágu og eru ekki í flutningum gegn gjaldi, þurfa ekki að sækja endurmenntun frekar en þeir vilja. Þeir fá því ekki tákntöluna 95 og endurnýja ökuréttindi í flokkum C1, C, D1 og D án endurmenntunar sem gefur réttindi til að aka an gjaldtöku. Þeir bílstjórar geta alltaf endurvakið atvinnuréttindin með því að sækja endurmenntun og endurnýja ökuskírteinið með tákntölunni 95.

Hvað er námið langt?
Fjöldi kennslustunda í endurmenntun skal vera samtals 35 stundir í 7 kennslustunda lotum á síðustu fimm árum fyrir endurnýjun. Námið samanstendur því af fimm stuttum námskeiðum sem má dreifa á þetta tímabil en verður að vera lokið fyrir endurnýjun ökuskírteinis.

Hvað er kennt í endurmenntun?
Þrjú námskeið taka allir, síðan er val um námskeið eftir því hvort bílstjóri stundar aðallega farþegaflutninga eða vöruflutninga en hann má taka bæði. Að lokum er tekið sérhæft námskeið, ef með þarf, þar sem ýmislegt getur komið til greina sem tengist atvinnu bílstjórans. Á námskeiðum er reynt að virkja og miðla reynslu bílstjóra, kynna nýjungar og rifja upp fyrra nám.

A. Kjarni (sem allir taka):
1. Vistakstur – öryggi í akstri
Markmiðið er að bílstjórinn þekki hugmyndafræði vistaksturs og með hvaða hætti hann getur lágmarkað eldsneytiseyðslu og umhverfismengun og hámarkað öryggi sitt og annarra í umferðinni með réttu aksturslagi.
2. Lög og reglur
Markmiðið er að bílstjórinn þekki helstu atriði í lögum og reglum um vöru- og farþegaflutninga og um stór ökutæki sem atvinnutæki og geri sér grein fyrir ábyrgð bílstjóra á ástandi og notkun ökutækis á hverjum tíma.
3. Umferðaröryggi - bíltækni
Markmiðið er að bílstjórinn þekki vegakerfið og helstu hættur sem eru til staðar eða geta skapast í tengslum við ytri aðstæður, s.s. við mismunandi veðurskilyrði. Einnig að hann þekki helstu tegundir og orsakir umferðar- og vinnuslysa og þekki aðferðir við slysavarnir.

B. Valkjarni (velja um annað hvort eða bæði):
4. Farþegaflutningar
Markmiðið er að bílstjórinn þekki atriði er lúta sérstaklega að akstri hópbifreiða, farþegaflutningum, ábyrgð bílstjóra á öryggi farþega og almennt að þjónustuhlutverki bílstjóra, náttúruvernd, ferðamennsku, mjúkum akstri o.fl. Hann þekki ákvæði í lögum og reglum um flutning farþega og sérbúnað hópbifreiða.
og/eða
4. Vöruflutningar
Markmiðið er að bílstjórinn gangi af öryggi frá og festi mismunandi tegundir farms. Bílstjóri þekki reglur um, notkun farm- og fylgiskjala sem krafist er í flutningum bæði innanlands sem og á milli landa.

C. Val (eitt sérhæft námskeið ef þörf er á)
5. t.d. Fagmennska og mannlegi þátturinn
Markmiðið er að bílstjórinn skilji að þekking og færni er undirstaða fagmennsku. Bílstjórinn þekki þætti í daglegu lífi og starfsumhverfi sem hafa áhrif á öryggi hans, heilsufar, andlega og líkamlega líðan. Hann þekki einkenni þreytu og streitu og viðbrögð þar við. Hann skilji ferli skynjunar, hegðun manna í umferðinni og mikilvægi sálrænna þátta í umferðar- og vinnuslysum.

Námskrá Samgöngustofu fyrir endurmenntun bílstjóra í C1-, C-, D1- og D-flokki með réttindi til vöru- og farþegaflutninga í atvinnuskyni


Viðurkenndir námskeiðshaldarar:

AKT ehf.
Mörkinni 6, 108 Reykjavík
www.netokuskolinn.is

AKTU - ökuskóli ehf.
Sunnuhlíð 12 L, 603 Akureyri

Ekill ehf.
Goðanesi 8-10, 603 Akureyri
www.ekill.is

Framvegis, miðstöð símenntunar ehf.
Skeifunni 11 B, 108 Reykjavík
www.framvegis.is

Fræðslumiðstöð Vestfjarða
Suðurgötu 12, 400 Ísafirði
www.frmst.is

Hópbifreiðar Kynnisferða ehf.
Klettagarðar 12, 104 Reykjavík
www.re.is 

Hópbílar hf.
Melabraut 18, 220 Hafnarfirði
www.hopbilar.is

IÐAN - Fræðslusetur ehf.
Vatnagörðum 20, 106 Reykjavík
www.idan.is

Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs ehf.
Grænásbraut 910, 235 Keflavíkurflugvelli
www.keilir.net

Nýi ökuskólinn ehf.
Klettagörðum 11, 104 Reykjavík
www.meiraprof.is

Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi
Bjarnarbraut 8, 310 Borgarnesi
www.simenntun.is

Ökuskóli Austurlands sf.
Lagarfelli 11, 700 Egilsstöðum

Ökuskóli Vesturlands sf.
Bjarkargrund 47, 300 Akranesi

Ökuskólinn í Mjódd ehf.
Þarabakka 3, 109 Reykjavík
www.bilprof.is

Ökuskólinn Ökuland ehf.
Gagnheiði 70, 800 Selfossi
www.okuland.is


Var efnið hjálplegt? Nei