Æfingaakstur

Í umferðarlögum er fjallað um æfingaakstur og er þar bæði átt við æfingaakstur (kennsluakstur) með löggiltum ökukennara og æfingaakstur með leiðbeinanda

Kennsluakstur með löggiltum ökukennara

Um kennsluakstur með löggiltum ökukennara gildir eftirfarandi samkvæmt umferðarlögum:

57. grein umferðarlaga

Æfingaakstur á bifreið má því aðeins fara fram, að við hlið nemanda sitji löggiltur ökukennari, sem þá telst stjórnandi bifreiðarinnar. Nemandi telst þó stjórnandi við prófakstur. Nú óskar maður, sem hefur ökuskírteini, að æfa sig í akstri á ný í viðurkenndri kennslubifreið hjá löggiltum ökukennara, og telst þá ökukennari stjórnandi bifreiðarinnar. Ákvæði 44. - 47. gr.a. eiga þó ávallt einnig við um nemandann. (veikindi, áfengisáhrif o.fl.).

Æfingaakstur á bifhjóli má aðeins fara fram undir leiðsögn og eftirliti löggilts ökukennara.

Ökukennari ber ábyrgð á að æfingaakstur fari fram á þeim stöðum og þannig að eigi stafi hætta af. Hann skal og gæta þess, að eigi stafi óþörf eða veruleg truflun af æfingaakstrinum.

Æfingaakstur má eigi fara fram fyrr en tólf mánuðum áður en nemandi hefur aldur til að fá ökuskírteini útgefið. Sá, sem sviptur hefur verið ökurétti, má eigi æfa sig í akstri fyrr en einum mánuði áður en sviptingartímabil rennur út.

Ráðherra getur sett reglur um æfingaakstur á sérstökum lokuðum æfingasvæðum. Má þar ákveða að sá æfingaakstur fari fram án þess að löggiltur ökukennari sitji við hlið nemanda.

Ráðherra getur sett reglur um æfingaakstur án löggilts ökukennara, þar á meðal um lágmarksþjálfun nemanda, enda hafi leiðbeinandinn náð 24 ára aldri, hafi gild réttindi til að stjórna þeim flokki ökutækja og hafi a.m.k. fimm ára reynslu af að aka þannig ökutæki. Ákvæði 1. - 5. mgr. eiga við um akstur þennan eftir því sem við á.

Æfingaakstur með leiðbeinanda

Um æfingaakstur með leiðbeinanda gildir eftirfarandi samkvæmt reglugerð:     

Æfingaakstur með leiðbeinanda - 12. gr.

Að fengnu leyfi sýslumanns má umsækjandi um ökuskírteini í ökunámi til réttinda fyrir B-flokk æfa akstur með leiðbeinanda á bifreið í B-flokki enda liggi fyrir staðfesting ökukennara og ökuskóla á því að umsækjandinn hafi nægilega þekkingu og þjálfun til slíks æfingaaksturs. Æfingaakstur með leiðbeinanda kemur ekki í stað æfingaaksturs með ökukennara heldur sem viðbótaræfing. Í æfingaakstri telst leiðbeinandi vera stjórnandi bifreiðar.

Skilyrði leyfis er að leiðbeinandi sé orðinn 24 ára, hafi í a.m.k. fimm ár haft gilt ökuskírteini fyrir B-flokk og hafi ekki á síðustu tólf mánuðum verið án ökuskírteinis vegna sviptingar ökuréttar eða verið refsað fyrir vítaverða aksturshætti. Leyfið má gefa út til allt að 15 mánaða. Sýslumaður getur afturkallað leyfið, fylgi leiðbeinandi ekki reglum um æfingaakstur eða fullnægi ekki lengur skilyrðum leyfis.

Leiðbeinandi skal hafa leyfið meðferðis við æfingaakstur. Honum er óheimilt að taka endurgjald fyrir að leiðbeina umsækjanda.

Umsókn um æfingaleyfi

Umsókn um æfingaleyfi er í ökunámsbók.

Á stór Reykjavíkursvæðinu er umsókn lögð inn hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu:

Annars staðar á landinu á umsóknir lagðar inn hjá skrifstofu viðkomandi sýslumanns.

Áður en umsókn er lögð inn

Til að umsókn ökunema sé tekin til skoðunar þarf ökunemi að uppfylla eftirfarandi:

  • Hafa hlotið fullnægjandi kennslu í ökuskóla og hjá ökukennara, sem staðfestist af ökukennara á umsóknareyðublaðinu.

Beinskiptur eða sjálfskiptur bíll í æfingaakstri

Nemandi sem er að læra á beinskiptan bíl má fara í æfingaakstur með leiðbeinanda á sjálfskiptan bíl.


Var efnið hjálplegt? Nei