Kennslu- og æfingaakstur

Kennsluakstur fer fram með löggiltum ökukennara en æfingaakstur fer fram með leiðbeinanda. Eftir að ökukennari hefur staðfest að ökunemi sé tilbúinn til að hefja æfingaakstur, getur leiðbeinandi sótt um á island.is. Hér að neðan má nálgast upplýsingar um hvoru tveggja.

Kennsluakstur með löggiltum ökukennara.

Um kennsluakstur með löggiltum ökukennara gildir eftirfarandi samkvæmt umferðarlögum:

67. grein umferðarlaga

Kennsluakstur.
Kennsluakstur á bifreið má því aðeins fara fram að hjá nemanda sitji ökukennari sem uppfyllir ákvæði 64. gr. sem þá telst stjórnandi bifreiðarinnar. Nemandi telst þó stjórnandi við prófakstur. Nú óskar maður sem hefur ökuskírteini eftir að æfa sig í akstri á ný í viðurkenndri kennslubifreið hjá ökukennara, og telst þá ökukennari stjórnandi bifreiðarinnar. Ákvæði 48.–50. og 52. gr. eiga þó ávallt einnig við um nemandann.

Ökukennari ber ábyrgð á að kennsluakstur fari fram á þeim stöðum og þannig að ekki stafi hætta af. Hann skal gæta þess að eigi stafi óþörf eða veruleg truflun af kennsluakstrinum.

Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um kennsluakstur á sérstökum lokuðum svæðum, m.a. öku-gerðum. Má þar ákveða að kennsluakstur fari fram án þess að ökukennari sitji hjá nemanda.

Kennsluakstur má ekki fara fram fyrr en að fenginni námsheimild lögreglustjóra. Skal nemandi þá fullnægja skilyrðum b-liðar 2. mgr. 58. gr. og má ekki vera svo ástatt um hann að 7. mgr. 58. gr. eigi við. Sá sem sviptur hefur verið ökurétti má eigi hefja akstursþjálfun fyrr en einum mánuði áður en sviptingartímabil rennur út. Slík akstursþjálfun má því aðeins fara fram að hjá nemanda sitji ökukennari, sbr. 1. mgr.

Gefa má út námsheimild áður en aldursskilyrðum skv. 58. gr. er fullnægt fyrir:
a. B-flokk 12 mánuðum fyrr,
b. AM-, A1-, A2-, A-, BE- og T-flokk þremur mánuðum fyrr,
c. C-, C1-, D- og D1-flokk sex mánuðum fyrr, enda hafi umsækjandi fullnaðarskírteini fyrir B-flokk.

Æfingaakstur á bifhjóli má aðeins fara fram undir leiðsögn og eftirliti löggilts ökukennara.

Svipta skal þann sem ekið hefur ökutæki án þess að hafa fengið til þess réttindi til að öðlast ökuskírteini í fjóra mánuði. Hafi viðkomandi ekki náð tilskildum aldri þegar brotið var framið skal miða sviptinguna við þann dag er hann nær tilskildum aldri, en að öðrum kosti gilda almennar reglur um upphaf sviptingartíma. Framlengja skal sviptingu réttar til að öðlast ökuskírteini um fjóra mánuði fyrir hvert skipti sem ekið er án ökuréttinda.

Æfingaakstur með leiðbeinanda.


68. gr. umferðarlaga

Ökunema sem hlotið hefur nauðsynlegan undirbúning er heimilt að æfa akstur bifreiðar sem er ekki yfir 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd með leiðbeinanda í stað ökukennara, enda hafi leiðbeinandinn fengið til þess leyfi lögreglustjóra. Engum má veita leyfi sem leiðbeinanda nema hann:

a. hafi náð 24 ára aldri,
b. hafi gild ökuréttindi til að stjórna þeim flokki ökutækja sem æfa á akstur með og hafi a.m.k. fimm ára reynslu af að aka þannig ökutæki og
c. hafi ekki á undangengnum tólf mánuðum verið sviptur ökuleyfi.

Leyfi skal gefið út á nafn nemanda og leiðbeinanda og til tiltekins tíma, mest 18 mánaða. Leyfið fellur sjálfkrafa úr gildi þegar nemandi hefur öðlast ökuréttindi. Heimilt er að afturkalla leyfi ef sérstaklega stendur á. Leiðbeinandi skal hafa leyfið meðferðis við æfingaakstur og sýna það þegar lögreglan krefst þess.

Bifreið sem notuð er til æfingaaksturs með leiðbeinanda skal sérstaklega auðkennd til æfingaaksturs. Óheimilt er að nota auðkennið við annan akstur.

Æfingaakstur skal fara fram með hliðsjón af þjálfun nemandans og leiðbeiningum sem Samgöngustofa gefur út. Um æfingaakstur með leiðbeinanda gilda að öðru leyti, eftir því sem við á, ákvæði 67. gr .
Leiðbeinanda er óheimilt að taka endurgjald fyrir starf sitt.

Umsókn um æfingarleyfi skal lögð inn hjá viðkomandi sýslumanni

Áður en umsókn er lögð inn
Til að umsókn ökunema sé tekin til skoðunar þarf ökunemi að uppfylla eftirfarandi:
Hafa hlotið fullnægjandi kennslu í ökuskóla og hjá ökukennara, sem staðfestist af ökukennara í ökunámsbók nemanda.

Beinskiptur eða sjálfskiptur bíll í æfingaakstri
Nemandi sem er að læra á beinskiptan bíl má fara í æfingaakstur með leiðbeinanda á sjálfskiptan bíl.


Var efnið hjálplegt? Nei