Ökukennararéttindi

Þeir sem óska eftir útgáfu ökukennararéttinda eða endurnýjunar eldri réttinda skulu snúa sér til sýslumanns í sínu umdæmi

Sýslumaður tekur ákvörðun um löggildingu ökukennara á grundvelli fyrirliggjandi gagna, sem frá og með sama tíma verður tilgreint með sérstakri innlendri tákntölu í dálk 12 á ökuskírteini viðkomandi, neðan við ökuréttindaflokkana. Aftan við viðeigandi tákntölu skal tilgreindur lokadagur réttindanna. Formlegur útgefandi réttindanna verður ríkislögreglustjóri en sýslumenn annast þetta verkefni í hans umboði.

Synjun um útgáfu eða ákvörðun um sviptingu eða afturköllun réttinda tekur sýslumaður í umboði ríkislögreglustjóra en ákvörðun sýslumanns er kæranleg til dómsmálaráðuneytisins.

Ökukennaranám

Námskrá fyrir ökukennaranám til almennra ökuréttinda var staðfest af samgönguráðherra í janúar 2005.

Í reglugerð um ökuskírteini nr. 830/2011 með áorðnum breytingum segir m.a.:

Veita má þeim löggildingu sem:

 • er 21 árs að aldri,
 • hefur ekið bifreið að staðaldri síðustu þrjú árin,
 • hefur staðist próf fyrir ökukennara að afloknu ökukennaranámi.

Umsókn um löggildingu skal fylgja prófskírteini.

Heimilt er að synja um löggildingu, eigi ákvæði 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga við. Synjun skal, krefjist ökukennari þess, borin undir dómstóla samkvæmt reglum 68. gr. almennra hegningarlaga.

Löggildingarflokkar ökukennara eru þrír:

 1. B- og T-flokkur
 2. AM-, A1-, A2- og A-flokkur,
 3. eftirtaldir flokkar:
  a. farþegaflutningar í atvinnuskyni fyrir B-flokk,
  b. C1- og C-flokkur, þar með talið til vöruflutninga í atvinnuskyni,
  c. D1- og D-flokkur, þar með talið til farþegaflutninga í atvinnuskyni,
  d. BE-, C1E-, CE-, D1E- og DE-flokkur.

Ökukennari skal hafa löggildingu fyrir B-flokk til að geta fengið löggildingu fyrir réttindaflokka skv. 2. og 3. tölulið og skal auk þess hafa a.m.k. þriggja ára reynslu af akstri bifreiðar/bifhjóls í þeim flokkum

Námskrár


Var efnið hjálplegt? Nei