Skráning ökutækja

Algengar spurningar

Hér að neðan má sjá algengar spurningar varðandi skráningu ökutækja, eigendaskipti og skráningarmerki auk svara við þeim

Skráning ökutækja

Hvaða gögnum þarf að framvísa við skráningu notaðra ökutækja?

Ef notað ökutæki er flutt inn frá Evrópska efnahagssvæðinu (EES), USA eða Kanada er almennt nægilegt að framvísa farmbréfi og erlendu skráningarskírteini þar sem fram koma allar nauðsynlegar upplýsingar um ökutækið. Fyrir ný ökutæki og notuð ökutæki frá öðrum löndum en talin eru upp hér að ofan verður að framvísa ítarlegum upplýsingum um gerð og búnað ökutækisins, sbr. viðkomandi upplýsingablað.

Þurfa skráningargögn að vera í frumriti eða nægja afrit?

Erlend skráningarskírteini og upprunavottorð þurfa að vera í frumriti, hvort sem um ný eða notuð ökutæki er að ræða. Sé frumriti skráningargagna, t.d. skráningarskírteinis ekki framvísað er skráningu hafnað. Farmbréf má hins vegar vera í afriti.

Er unnt að nota framlögð gögn með einu ökutæki vegna skráningar á öðru ökutæki, þ.e. vísa í önnur gögn?

Almennt varða framlögð gögn aðeins um eitt einstakt ökutæki og í þeim tilvikum má ekki nota gögnin fyrir annað ökutæki en gögnin varða. Ef gögn eru almenns eðlis og geta náð yfir fleiri ökutæki er heimilt að nota þau fyrir fleiri ökutæki. Ef ekki er um að ræða sama innflytjanda þarf samþykki þess er upphaflega lagði fram gögnin.

Hvaða reglur gilda um skráningu á aldri ökutækja?

Almennt er fyrsti skráningardagur látinn gilda sem aldursviðmiðun ökutækja. Þegar ökutæki er skráð nýtt hér á landi er það því nýskráningardagur hér á landi sem gildir sem fyrsti skráningardagur. Ef ökutæki er skráð notað hér á landi eru upplýsingar um fyrsta skráningardag ökutækis sóttar í erlent skráningarskírteini. Ef ekki eru til upplýsingar um fyrsta skráningardag notaðra ökutækja, eru skráðar upplýsingar um framleiðsludag ökutækisins.

Hvaða þyngd er skráð sem eigin þyngd ökutækis?

Frá og með 1.6.2022 er eigin þyngd ökutækja alltaf skráð með ökumanni (á þeim ökutækjum sem eru með ökumann). Þyngdartölur í reitnum raunþyngd ( e. „actual mass“) á skráningargögnum er það sem Samgöngustofa skráir í reitinn „eigin þyngd“ í ökutækjaskrá.
Ef ökutæki er flutt inn notað á skráningarskírteini frá Evrópu, þá skrást tölur úr reit „G“ á skráningarskírteininu sem „eigin þyngd“.
Þegar skilað er inn vigtarseðlum fyrir ökutæki sem hafa ökumann, er 75 kg. ökumanni bætt við. Þar sem ökumaður verður nú hluti af eigin þyngd ökutækis, er tekið tillit til þess við útreikninga á burðargetu.


Eigendaskráning

Hvað þarf aðili að vera gamall til þess að kaupa og selja ökutæki?

Samkvæmt lögræðislögum þarf aðili að vera orðinn 18 ára til þess að mega kaupa og selja ökutæki. Ef aðili er yngri þarf samþykki sýslumanns (yfirlögráðanda) fyrir kaupum og sölu.

Þarf leyfi frá sýslumanni ef meðeigandi er yngri en 18 ára?

Um meðeiganda gilda sömu reglur og um aðaleiganda og því þarf samþykki sýslumanns ef meðeigandi er ekki orðinn 18 ára.

Hvaða þýðingu hefur skráning meðeiganda og umráðamanns?

Þegar tveir aðilar eru skráðir eigendur að ökutæki er annar skráður eigandi en hinn skráður meðeigandi. Um meðeiganda gilda sömu reglur og um aðaleiganda þar sem allir eigendur teljast jafnir að lögum, nema annað komi sérstaklega fram. Eigendahlutfall er ekki skráð eftir prósentuhlutfalli heldur eftir röð. Aðilinn sem er skráður fyrst er sá sem fær tilkynningar og greiðsluseðla vegna ökutækisins, s.s. vegna bifreiðagjalda og trygginga. Meðeigandinn fær ekki slíkar tilkynningar en er þó jafn ábyrgur fyrir gjöldum.

Umráðamaður er sá aðili sem hefur umráð yfir ökutækinu en er ekki eigandi þess. Í flestum tilfellum er umráðamaður aðili sem gert hefur samning við fjármögnunarfyrirtæki og er þá umráðamaður ökutækisins í ákveðinn fjölda ára. Einnig er algengt að vinnuveitandi sé eigandi ökutækis og starfsmaður sé umráðamaður. Bifreiðagjöld leggjast alltaf á eiganda ökutækis en ekki á umráðamann. Ef fjármögnunarfyrirtæki er eigandi þá fær umráðamaður þó greiðsluseðil með bifreiðagjöldum, og eftir atvikum greiðsluseðil vegna trygginga, í samræmi við samning umráðamanns og fjármögnunarfyrirtækis.

Skipta undirritanir á tilkynningu miklu máli?

Eigendaskipti eru ekki skráð nema tilkynning sé undirrituð af öllum aðilum og undirritanir vottaðar af minnst einum votti. Ef undirritað er fyrir hönd aðila verður að framvísa umboði.

Þarf vott á tilkynninguna ef eigendaskiptin eru innan fjölskyldunnar?

Það þarf alltaf vott að undirritun aðila á eigendaskiptatilkynningu. Vottur staðfestir að réttir aðilar hafi undirritað tilkynninguna.

Skráningarmerki

Hvað þarf að gera til að taka út skráningarmerki sem voru klippt af ökutæki?

Meginreglan er sú að það þarf að bæta úr þeim annmarka sem varð til þess að merkin voru afklippt. Ef afklippt var vegna þess að ökutækið var óskoðað þarf að færa ökutæki til skoðunar áður en merkin eru afhent að nýju.

Hvað þarf að gera til að taka út skráningarmerki sem hafa verið lögð inn til geymslu af eiganda?

Meginreglan er sú að leggja þarf fram staðfestingu á tryggingu og greiða áhvílandi opinber gjöld.

Geta þeir sem kaupa bifreiðar með kaupleigu fengið einkamerki?

Já, reglum um einkamerki hefur verið breytt þannig að nú er heimilt að skrá umráðamann ökutækis sem rétthafa að einkamerki. Þeir sem fjármagna ökutæki með rekstrarleigu/einkaleigu eru almennt skráðir sem umráðamenn ökutækja.

Hversu langan tíma tekur að framleiða skráningarmerki?

Framleiðsla skráningarmerkja tekur þrjá daga, þ.e. merkin eru komin úr framleiðslu á þriðja degi frá pöntunardegi. Það er hins vegar hægt að flýta framleiðslu skráningarmerkja um einn dag, en fyrir það ber að greiða sérstakt flýtigjald. Sé flýtigjald greitt við forskráningu eru skráningarmerkin tekin af lager og eru því tilbúin um leið og fastanúmeri er úthlutað.

Hvar finn ég skráningarmerkin sem ég lagði inn/voru afklippt af lögreglu?

Ef merkin hafa verið lögð inn eru þau geymd á þeim stað þar sem þau voru lögð inn. Ef merkin voru afklippt af lögreglu getur verið um fleiri en einn stað að ræða. Upplýsingar um staðsetningu merkjanna fást þó alltaf hjá Samgöngustofu í síma 480-6000.

Hvað þarf ég að greiða í bifreiðagjöld?

Á vef Ríkisskattstjóra má finna reiknivél til að glöggva sig á upphæð bifreiðagjalda. Þar má einnig sjá nánari upplýsingar um útreikning gjaldanna og undanþágur. Hægt er að fletta upp grunnupplýsingum um ökutæki eftir skráningarnúmeri og fá upplýsingar um skráða losun koltvísýrings (CO2) sé hann þekktur. Ef engin tala birtist er skráð losun koltvísýrings (CO2) óþekkt. Í þeim tilfellum er bifreiðagjald ákvarðað útfrá eigin þyngd ökutækisins.


Var efnið hjálplegt? Nei