Aðgangur lögmanna

Lögmenn sem hafa gild lögmannsréttindi og eru skráðir á vefsíðu Lögmannafélags Íslands geta fengið kennitöluaðgang að ökutækjaskrá

Sótt er um kennitöluaðganginn hjá vinnsluaðilum en það eru þeir aðilar sem hafa heimild til sölu upplýsinga úr ökutækjaskrá.

Umsækjandi gerir samning við vinnsluaðilann um aðganginn og er einnig heimilt að gera sérstakan samning um að veita ólöglærðum starfsmönnum lögmannsins heimild til að nota kennitöluaðganginn í hans nafni.

Notkun á kennitöluaðganginum

Samkvæmt starfsreglum Samgöngustofu um upplýsingamiðlun úr ökutækjaskrá er heimilt að veita lögmönnum kennitöluaðgang eins og hér segir:

Heimilt er að miðla upplýsingum um eignastöðu aðila til lögmanns í innheimtustarfsemi sem hefur verið falið að innheimta kröfu á hendur þeim sem upplýsinga er óskað um og heimilt er að gera aðför til fullnustu þeirri kröfu, skv. 1. gr. aðfararlaga nr.90/1989. Á sama hátt er heimilt að miðla upplýsingum um eignastöðu aðila til lögmanns í skiptastarfsemi sem hefur verið skipaður skiptastjóri í þrotabúi eða dánarbúi þess sem upplýsinga er óskað um með úrskurði héraðsdóms. Áður en heimilt er að veita upplýsingarnar skal lögmaður undirrita yfirlýsingu um að upplýsinganna verði aðeins leitað og þær notaðar þegar slíkt er heimilt samkvæmt ofansögðu.

Undir þessa yfirlýsingu skrifar lögmaðurinn með undirritun samnings við vinnsluaðilann.

Eftirlit með kennitöluuppflettingum

Samgöngustofu er heimilt að framkvæma eftirlit með kennitöluuppflettingum lögmanna og loka fyrir aðgang lögmanns verði notandi uppvís að misnotkun. Eftirlitið er framkvæmt nokkrum sinnum á ári.

Við eftirlitið fer Samgöngustofa fram á eftirfarandi gögn:

  • Úrskurð héraðsdóms vegna skipunar lögmanns sem skiptastjóra í þrotabúi eða dánarbúi.
  • Gögn sem sýna fram á að lögmaðurinn hafi haft aðfararhæfa kröfu, sbr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, í höndum áður en uppfletting í ökutækjaskrá átti sér stað.

Skili lögmaður ekki inn þeim gögnum sem farið er fram á í eftirlitsbréfi verður lokað fyrir aðgang viðkomandi lögmanns að ökutækjaskrá. Við fyrsta brot verður lokað á lögmann í 3 mánuði, við annað brot verður lokað í 6 mánuði og við þriðja brot verður lokað á lögmanninn fyrir fullt og allt.

Farið verður með þau gögn er send verða Samgöngustofu vegna eftirlitsins sem trúnaðarmál og verður afritum fargað að eftirliti loknu.

Þjónusta við lögmenn sem hefur verið lokað aðgangi hjá

Þurfi lögmaður aðgang að kennitöluuppflettingu á meðan lokað er fyrir aðgang hans, getur hann óskað eftir uppflettingu hjá Samgöngustofu gegn greiðslu. Senda skal beiðni um uppflettingu ásamt gögnum sem heimila uppflettinguna, á netfangið samgongustofa@samgongustofa.is.


Var efnið hjálplegt? Nei