1.5 Endurskráning
Útg.nr: 06 Útg.dags: 04.03.2016
Ástæða afskráningar: Óheimilt er að endurskrá ökutæki sem hefur verið afskráð vegna úrvinnslu (fargað). Í öðrum tilvikum afskráningar er heimilt að endurskrá ökutæki.
Endurskráningarskoðun: Áður en heimilt er að endurskrá ökutæki sem afskráð hefur verið úr landi þarf að skila til Samgöngustofu erlendu skráningarskírteini (í frumriti), farmbréfi og umsókn. Áður en heimilt er að endurskrá ökutæki skal það standast endurskráningarskoðun á skoðunarstofu. Nánari reglur um endurskráningarskoðun er að finna í Skoðunarhandbók.
Skráningarstaður: Ökutæki sem hefur staðist endurskráningarskoðun á skoðunarstofu má endurskrá bæði hjá skoðunarstofu og hjá Samgöngustofu.
Aldur eiganda: Ef eigandi eða meðeigandi ökutækis er yngri en 18 ára þarf samþykki sýslumanns (yfirlögráðanda) fyrir skráningu ökutækisins. Ef endurskráningarbeiðni berst með tölvupósti er nægilegt að tilgreint sé í athugasemdum beiðninnar að samþykki sýslumanns liggi fyrir.
Tilkynnandi: Við endurskráningu skal skrá upplýsingar um tilkynnanda þ.e. þá skoðunarstofu sem óskar eftir skráningu.
Beiðni um endurskráningu: Framvísa ber endurskráningarbeiðni ( US.110) fyrir endurskráningu sem er undirrituð af skráðum eiganda ökutækisins. Ef endurskráningarbeiðni berst með tölvupósti er gengið úr skugga um réttar undirskriftir í eftirliti með skráningum. [Ef annar en skráður eigandi undirritar beiðni samkvæmt umboði skal umboð fylgja með. ]
[Umboð: Í umboði skal koma fram efni umboðs, fastanúmer ökutækis, nafn og kennitala umboðsmanns, undirritun umbjóðanda og tveir vitundarvottar. Umbjóðandi, umboðsmaður og vitundarvottar skulu vera orðnir 18 ára. ]
Eigendaskiptatilkynning: Ef ökutæki er endurskráð á annan en skráðan eiganda verður að framvísa og skrá eigendaskiptin fyrir endurskráningu (
US.140 ). Að lokinni skráningu eigendaskipta er heimilt að endurskrá ökutækið á hinn nýja eiganda.
[Séu höfð eigendaskipti á ökutæki sem afskráð hefur verið týnt, skal afhenda eigendaskiptatilkynningu á skoðunarstöð og fara samtímis í endurskráningu.
]
1
Meðeigandi eða umráðamaður: Ef óskað er skráningar meðeiganda eða umráðamanns skal framvísa beiðni um skráningu meðeiganda ( US.141) eða umráðamanns ( US.142).
Tryggingafélag: Á beiðni um endurskráningu skal tilgreina tryggingafélag ökutækis nema ökutæki sé eftirvagn eða tengitæki og er tryggingafélagið skráð í ökutækjaskrá við endurskráningu.
Tollafgreiðsla: Ekki þarf að ganga sérstaklega úr skugga um tollafgreiðslu við endurskráningu enda sé tryggt að ökutæki hafi áður verið nýskráð og afskráð hér á landi.
Gjöld sem þarf að greiða fyrir endurskráningu: Áður en heimilt er að endurskrá ökutæki skal greiða endurskráningargjald, umferðaröryggisgjald, áætluð bifreiðagjöld fyrir eftirstandandi tímabil og þungaskatt ef við á. Einnig skal greiða vörugjöld ef þau eru áhvílandi. Við endurskráningu að beiðni skoðunarstofu er heimilt er fara fram hjá bifreiðagjöldum og þungaskatti, enda skal skoðunarstofan móttaka umrædd gjöld fyrir skráningu og er gengið úr skugga um greiðslu gjaldanna í eftirliti með skráningum. Starfsmaður Samgöngustofu skal ávallt ganga úr skugga um að gjaldfallin vörugjöld séu greidd fyrir endurskráningu. Heimilt er að taka gilda kvittun frá tollstjóra/sýslumanni fyrir greiddum vörugjöldum og skal hún þá send á myndsendi til Samgöngustofu fyrir endurskráningu.
25% álag á þungaskatt: Við endurskráningu skal greiða 25% álag á þungaskatt af sendibifreiðum sem eru á vsk-merkjum, sendibifreiðum á stöð, hópbifreiðum I í atvinnurekstri og leigubifreiðum. Álagið leggst á við endurskráningu ef ökutæki uppfyllir framangreind skilyrði og ber Samgöngustofu, umboðum og skoðunarstofum að innheimta gjaldið við endurskráningu. Þar sem það getur verið erfitt í vissum tilvikum að fylgjast með skilyrðum um 25% álag er Samgöngustofu heimilt samkvæmt samkomulagi við RSK að líta fram hjá vangreiddu álagi í eftirliti með endurskráningum. Í slíkum tilvikum mun RSK fylgja eftir innheimtu gjaldsins. Samgöngustofa getur gengið úr skugga um að ógreidd gjöld séu 25% álagið með notkun sérstaks reikniforrits frá RSK
Ökutæki með ökumæli: Ef ökutæki er með ökumæli skal framkvæma álestur og greiða áfallinn þungaskatt við endurskráningu. Ef beiðni um endurskráningu berst með tölvupósti er fylgst með greiðslu á þungaskatti í eftirliti með skráningum.
Tjónabifreið: Óheimilt er að endurskrá bifreið sem er skráð tjónabifreið. Áður en heimilt er að endurskrá bifreiðina verður að fella niður tjónaskráninguna eða breyta henni í "viðgerð tjónabifreið". Ef beiðni um endurskráningu berst með tölvupósti er nægilegt að tilgreint sé í athugasemdum beiðninnar að vottorð um viðgerð liggi fyrir en nauðsynlegt er að tilgreina þá sem gefa út og undirrita vottorðin svo skráningaraðili geti gengið úr skugga um að vottorðin séu útgefin og undirrituð af réttum aðila. Ef tilgreint er vottorð um viðgerð frá viðurkenndu réttingaverkstæði ( US.358) skal ógilda athugasemdina "Tjónabifreið". Ef tilgreind eru skoðunarstaðfesting, hjólastöðu- og/eða burðarvirkisvottorð ( US.355) skal ógilda athugasemdina "Tjónabifreið" og skrá athugasemdina "Viðgerð tjónabifreið". Ef endurskráningaraðili breytir tjónaskráningu skal senda afrit af endurskráningarbeiðninni til umsjónaraðila tjónaskráninga á netfangið tjon@us.is.
Eigin þyngd: Ef eigin þyngd hefur ekki verið skráð, þ.e. skráð núll, er skylt að skrá þyngdina við endurskráningu. Skoðunarstofan skal tilgreina eigin þyngd í endurskráningarbeiðni og skráningaraðili skráir þyngdina í ökutækjaskrá við endurskráningu. Óheimilt er að endurskrá ökutæki nema eigin þyngd hafi verið skráð.
Breyting á eigin þyngd: Ef ökutæki hefur farið í breytingaskoðun fyrir endurskráningu og breyting hefur orðið á eigin þyngd frá því sem var áður skráð skal tilgreint sérstaklega í endurskráningarbeiðni að ökutækið hafi farið í breytingaskoðun og breyting hafi orðið á eigin þyngd. Endurskráningaraðili skráir hækkun á eigin þyngd í samræmi við beiðnina en lækkun á eigin þyngd má aldrei skrá nema með sérstöku samþykki Umferðarstofu. Ef beiðni berst um lækkun eigin þyngdar skal skrá ökutækið með óbreyttri þyngd en tilgreina í tölvupósti að senda þurfi sérstaka beiðni um lækkun eigin þyngdar til Samgöngustofu. Ef yfirlýsing um breytingaskoðun hefur borist og eigin þyngd verið breytt við endurskránigu skal senda afrit af skráningarbeiðni til umsjónaraðila breytingaskráninga á netfangið breyting@us.is.
Skattflokkaskráning við endurskráningu: Við endurskráningu dísel bifreiða er heimilt að skrá skattflokk 01 ef tilkynnt er um þann skattflokk í endurskráningarbeiðni.
Breytingalás: Ef ökutæki er skráð með breytingalás sem læsir nýskráningu er óheimilt að endurskrá það. Lásar sem læsa nýskráningu eru Nýskráningarlás (3), Heildarlás (6) og Skráning læst v/ vörugjalds (7).
Skattflokkur 70-79: Ef ökutæki er skráð í skattflokk á bilinu 70 - 79 er óheimilt að endurskrá það. Tollstjóri verður að aflétta skattflokki 70 áður en heimilt er að endurskrá ökutæki (sjá breytingalása).
Dagsetning endurskráningar: Endurskráningardagsetning skal vera sú dagsetning þegar endurskráning er framkvæmd af starfsmanni Umferðarstofu. Almennt er óheimilt að endurskrá ökutæki aftur í tímann.
Skráningarmerki: Áður en unnt er að endurskrá ökutæki verða skráningarmerki að hafa verið skráð móttekin hjá afhendingaraðila. Við endurskráningu eru skráningarmerki skráð afhent á ökutæki. Ef endurskráningarbeiðni berst með tölvupósti skal tilgreint í beiðninni hvaða merki voru afhent á ökutækið og þau merki skráð á ökutækið.
Vsk-merki: Aðeins er heimilt að afhenda vsk-merki á sendibifreið og vörubifreið I (með heildarþyngd undir 5000 kg) sem uppfyllir vsk-kröfur. Ef fram kemur í gerðarlýsingu að sendibifreið uppfylli vsk-kröfur er heimilt að afhenda vsk-merki á bifreiðina án frekari skoðunar. Ef það kemur hins vegar ekki fram í gerðarlýsingu að ökutæki uppfylli vsk-kröfur þarf að framkvæma breytingaskoðun á ökutækinu. Í beiðni skoðunarstofu um skráningu skal tilgreina að ökutæki standist vsk-kröfur. Ef fólksbifreið hefur verið breytt í sendibifreið fyrir skráningu skal skoðunarstofan jafnframt tilgreina að bifreiðin hafi farið í breytingaskoðun og sé sendibifreið sem uppfylli vsk-kröfur. Skráningaraðili skal þá breyta ökutækinu í sendibifreið og senda afrit af skráningarbeiðninni á umsjónaraðila breytingaskráninga á netfangið breyting@us.is.
Skoðunarmiðar: Við endurskráningu skal afhenda skoðunarmiða á skráningarmerki í samræmi við skoðunarreglur (sjá nánar kafla um afhendingu skráningarmerkja). Skoðunarstofur annast sjálfar afhendingu skoðunarmiða við endurskráningu.
[...] 2
Samanburður fyrir notkun: Þegar ökutæki hefur verið endurskráð og áður en það er tekið í notkun skal skoðunarstofa ganga úr skugga um að verksmiðjunúmer og skráningarmerki ökutækisins séu í samræmi við það sem skráð er í [ökutækjaskrá] 2 og réttur skoðunarmiði hafi verið límdur á skráningarmerki skoðunarskyldra ökutækja.
Höfnun endurskráningar: Ef ofangreind skilyrði eru ekki uppfyllt er endurskráningu hafnað. Ef endurskráningarbeiðni berst með tölvupósti skal senda tilkynningu um höfnun með tölvupósti til skráningarbeiðanda ásamt ástæðu höfnunar. Ef skráningarbeiðni hefur verið hafnað er ekkert frekar aðhafst í málinu nema ný beiðni um skráningu berist.
Niðurfelling á skráningu: Ef skoðunarstofa óskar eftir niðurfellingu á endurskráningu sem framkvæmd hefur verið að beiðni skoðunarstofu verður slík beiðni að berast sama dag og skráning var framkvæmd. Fyrir niðurfellinguna skal innheimta gjald samkvæmt gjaldskrá Samgöngustofu. Endurskráningargjald er ekki endurgreitt við niðurfellingu.
Leiðrétting á skráningu: Ef skoðunarstofa óskar eftir leiðréttingu á framkvæmdri endurskráningu verður slík beiðni að berast innan viku frá skráningardegi. Beiðni um leiðréttingu á skráðum eiganda/umráðamanni skal undirrituð af innflytjanda og skráðum eiganda. Fyrir leiðréttinguna skal innheimta gjald samkvæmt gjaldskrá Samgöngustofu. Endurskráningargjald er ekki endurgreitt við niðurfellingu.
1) 19.05.2010
2) 04.03.2016