1.8.3 Sendiráðsökutæki

[Forskráning sendiráðsökutækja:

Við forskráningu sendiráðsökutækis skal skila til Samgöngustofu umsókn um forskráningu ásamt þeim fylgigögnum sem talin eru fram á viðkomandi eyðublaði (US.101-105) eftir því sem við á. ] 1)

Yfirlýsing um sendiráðsökutæki: Óheimilt er að skrá ökutæki sem sendiráðsökutæki nema framvísað hafi verið yfirlýsingu sendiráðs (Notification to the Ministry of Foreign Affairs - Importation and Registration of Embassy Vehicles). Yfirlýsingin skal vera staðfest af viðkomandi sendiráði og utanríkisráðuneytinu.

Notkunarflokkurinn sendiráðsökutæki: Ef yfirlýsingu um sendiráðsökutæki er framvísað með umsókn um forskráningu á ökutæki skal það skráð í notkunarflokkinn "sendiráðsökutæki" við forskráningu. Ef yfirlýsingin kemur eftir að ökutækið er forskráð skal það einnig skráð í fyrrgreindan notkunarflokk. Sjá nánar um notkunarflokka ( 1.9.3 ).

Úthlutun og pöntun sendiráðsmerkja: Sendiráðsökutæki skulu bera sérstök sendiráðsmerki ( 3.10.2 ). Sendiráð skráir það skráningarnúmer er það hyggst nota á viðkomandi ökutæki á yfirlýsingu um sendiráðsökutæki. Ef sendiráð pantar ný skráningarmerki með umræddri áletrun skulu þau pöntuð á viðkomandi ökutæki í ökutækjaskrá. Ef sendiráð óskar eftir því að fá að nota skráningarmerki sem hafa verið í notkun er það heimilt enda séu þau ekki lengur í notkun á öðru ökutæki. Skrá verður umrædd sendiráðsmerki á nýja ökutækið.

Nýskráning: Óheimilt er að nýskrá ökutæki sem sendiráðsökutæki nema framvísað hafi verið yfirlýsingu um sendiráðsökutæki. Almennt skal ökutækið skráð sem sendiráðsökutæki meðan það er forskráð. Ef ökutæki hefur ekki verið skráð sem sendiráðsökutæki þegar kemur að nýskráningu skal framvísa yfirlýsingunni og er ökutækið skráð sem sendiráðsökutæki.

Afhending á sendiráðsmerki: Ekki má afhenda sendiráðsmerki á ökutæki nema það hafi verið skráð í notkunarflokkinn "sendiráðsökutæki" á grundvelli yfirlýsingar um sendiráðsökutæki.

Tollafgreiðsla: Óheimilt er að nýskrá sendiráðsökutæki án tollafgreiðslu nema með skriflegri heimild frá tollstjóra.

Opinber gjöld: Ekki eru greidd opinber gjöld af sendiráðsökutækjum og eru opinber gjöld ekki áætluð við nýskráningu þeirra.

B. Afskráning sendiráðsökutækja

Afskráningarbeiðni: Þegar sendiráðsökutæki er flutt úr landi er það afskráð. Framvísa skal afriti yfirlýsingar um afskráningu (Notification to the Ministry of Foreign Affairs - Removal of Embassy Vehicles from Registration). Yfirlýsingin skal vera staðfest af viðkomandi sendiráði og utanríkisráðuneytinu.

Skráning afskráningar: Ástæða afskráningar er skráð "Afskráð úr landi".

Sendiráðsmerki: Samhliða beiðni um afskráningu skal skila inn sendiráðsmerkjum eða óska eftir flutningi þeirra yfir á annað sendiráðsökutæki.

1) 30.08.2005


Var efnið hjálplegt? Nei