1.9.9.1 Skráning tjónabifreiðar
Útg.nr: 9 Útg.dags: 02.03.2022
Tjónaökutæki:
Ökutæki sem orðið hefur fyrir tjóni sem getur haft áhrif á aksturseiginleika þess og akstursöryggi. Hafi slíkt tjón orðið á ökutæki skal skilgreina og skrá ökutækið sem tjónaökutæki og notkun þess bönnuð. Ekki má taka slíkt ökutæki í notkun á ný nema að fram fari viðgerð á því af viðurkenndu réttingaverkstæði. Áður en að skráningarmerki ökutækis eru afhent að nýju er gerð krafa um að ökutækið sé fært til endurtekinnar aðalskoðunar á skoðunarstöð að viðgerð lokinni.Burðarvirki:
Til burðarvirkis ökutækja heyrir sjálfberandi yfirbygging og grind eftir því sem við á. Einnig öryggisbúr farþega sem og burðar- og öryggisbitar yfirbyggingar. Hafi burðarvirki ökutækis skemmst telst það tjónaökutæki.Framrúða:
Framrúða ökutækis telst til burðarvirkis, sé hún límd. Aðrar límdar rúður sem eru hluti af burðarvirki ökutækis eiga einnig við. Við skipti á límdum framrúðum skal fara eftir fyrirmælum framleiðanda. Hafi rammi í kringum framrúðu ökutækis skemmst skal skrá ökutækið sem tjónaökutæki og notkun þess bönnuð þar til viðgerð fer fram á viðurkenndu verkstæði. Einangraðar skemmdir á límdum rúðum sem ekki eru hluti af stærra tjóni, t.d. stjarna eða sprunga eftir steinkast, skal meðhöndla eftir útlistingu skoðunarhandbókar ökutækja og telst ökutækið þá ekki vera tjónaökutæki.Hjólabúnaður:
Til hjólabúnaðar ökutækja teljast m.a. ásar, festingar, fjaðrabúnaður og hjól. Hafi festingar hjólabúnaðar ökutækis, sem teljast til burðarvirkis, gengið til og sýnileg merki eru um að hjóla- eða stýrisbúnaður hafi bognað eða færst úr stað, telst það tjónaökutæki.Öryggisbúnaður:
Til öryggisbúnaðar ökutækja teljast m.a. öryggisbelti, líknarbelgir/loftpúðar sem og annar virkur öryggisbúnaður svo sem myndavéla- og nándarbúnaður. Hafi líknarbelgir/loftpúðar ökutækis sprungið út, telst það tjónaökutæki. Ökutæki telst einnig tjónaökutæki ef öryggisbeltastrekkjarar hafa verið virkjaðir og/eða teygst hefur á öryggisbelti.Tilkynningar um tjónaökutæki:
Samgöngustofa annast skráningu á tjónaökutækjum samkvæmt tilkynningu frá lögreglu, tollstjóra, tryggingafélögum eða eiganda ökutækis.Tjónaökutæki I:
Ökutæki sem lent hefur í óhappi og tilkynnt hefur verið af lögreglu eða tollstjóra til Samgöngustofu.Tjónaökutæki II:
Ökutæki sem lent hefur í óhappi og tilkynnt hefur verið af tryggingafélagi til Samgöngustofu. Ennfremur tjónaökutæki I þar sem frestur til endurmats er runninn út.Viðgert tjónaökutæki:
Ökutæki sem hefur fyrir 1. ágúst 2017 verið viðgert af öðrum en viðurkenndu réttingaverkstæði.Margar tjónaskráningar:
Ef ökutæki sem er skráð viðgert tjónaökutæki þann 1. ágúst 2017, lendir aftur í tjóni þannig að það teljist sem tjónaökutæki II, skráist það með margar tjónaskráningar óháð viðgerðaraðila.Endurmat á tjónaökutæki:
Hægt er að óska eftir endurmati á tjónaökutæki I innan 20 virkra daga frá skráningu í ökutækjaskrá. Endurmat skal fara fram áður en viðgerð hefst og skal vera studd gögnum, það er greinargerð, ljósmyndum og/eða mælingum. Endurmat getur leitt til niðurfellingar á tjónaskráningu eða að ökutæki teljist tjónaökutæki II. Faggiltar skoðunarstöðvar framkvæma endurmat og skila inn tilkynningu þess efnis. Gögn skulu send til Samgöngustofu sem skráir upplýsingarnar í ökutækjaskrá. Leggi skoðunarstöð til niðurfellingu á tjónaskráningu þarf Samgöngustofa að samþykja gögn því til stuðnings.Viðurkennt réttingaverkstæði:
Verkstæði sem er búið viðeigandi tækjabúnaði til viðgerða á ökutækjum eftir fyrirmælum framleiðanda og hafa heimild til að gefa út vottorð um viðgerð á tjónaökutæki. Aðeins ökutæki sem gert hefur verið við á viðurkenndu réttingaverkstæði geta fengið tjónaskráningu niðurfellda.Viðurkennd réttingaverkstæði þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
1. Hafa vottað gæðastjórnunarkerfi.
2. Hafa aðgang að leiðbeiningum frá framleiðanda um hvernig viðgerð á ökutæki skal fara fram.
3. Hafa starfsmann með gild réttindi til útgáfu á burðarvirkisvottorðum. Starfsmaðurinn þarf einnig að hafa hlotið úttekt á réttingabekk viðkomandi fyrirtækis.
4. Hafa starfsmann með gild réttindi til útgáfu á hjólstöðuvottorðum, eða samning við fyrirtæki sem er með gild réttindi til útgáfu á hjólstöðuvottorði.
5. Hafa tæknistjóra sem skal vera menntaður í bifvélavirkjun, bifreiðasmíði, tæknifræði eða verkfræði.
Breyting á tjónaskráningu:
Þegar fullnægjandi vottorð berst frá viðurkenndu réttingaverkstæði um viðgerð á tjónaökutæki skal Samgöngustofa fella niður tjónaskráninguna í ökutækjaskrá en skráningin helst engu að síður í ferilskrá ökutækis. Vottorði er skilað inn í gegnum rafrænt viðmót sem má finna undir eyðublöð hér á síðunni. Aðeins tæknistjóri eða staðgengill hans hefur heimild til þess að skila inn vottorðinu. Sé vottorðið ekki talið fullnægjandi er því hafnað.Með því að skila inn vottorðinu staðfestir tæknistjóri verkstæðis eða staðgengill hans eftirfarandi:
- Viðgerð á ökutæki fór fram á réttingaverkstæði sem Samgöngustofa hefur viðurkennt til viðgerða á tjónaökutækjum
- Viðgerð var skjöluð, þar á meðal hjólastöðu- og burðarvirkisvottorð
- Aðeins voru notaðir viðurkenndir varahlutir við viðgerðina
- Viðgerð var framkvæmd eftir leiðbeiningum frá framleiðanda
Eftirlit:
Samgöngustofa hefur eftirlit með viðurkenndum réttingaverkstæðum. Brot á reglum um tjónaökutæki og viðurkennd réttingaverkstæði geta leitt til niðurfellingar á heimild til að gefa út vottorð um viðgerð á tjónaökutæki.Samgöngustofa birtir á vef sínum lista yfir viðurkennd réttingaverkstæði.
Afhending skráningarmerkja:
Sé vottorð um viðgerð tjónaökutækis fullnægjandi eru skráningarmerki send á tiltekna skoðunarstöð. Til þess að fá skráningarmerki afhend þarf að færa ökutæki til endurtekinnar aðalskoðunar á skoðunarstöð að viðgerð lokinni. Ekki er hægt að færa ökutæki til skoðunar fyrr en búið er að fella niður tjónaskráningu ökutækis í ökutækjaskrá.
Viðurkennd réttingaverkstæði geta nýtt sér skammtímaskráningarmerki til þess að færa ökutæki á milli verkstæðis og skoðunarstöðvar að því gefnu að búið sé að samþykja vottorð um viðgerð á tjónaökutæki. Hægt er að nálgast skammtímaskráningarmerki á skoðunarstöðvum.