1.9.9.2 Mat tjónabifreiða
Útg.nr: 1 Útg.dags: 31.05.2005
Tjónabifreið: Tjónabifreið er bifreið sem hefur orðið fyrir tjóni sem getur haft áhrif á aksturseiginleika hennar og akstursöryggi skv. 2. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
Burðarvirki bifreiðar: Til burðarvirkis bifreiðar heyrir sjálfberandi yfirbygging, grind þar sem það á við, öryggisbúr farþega og burðar- og öryggisbitar.
Ef eitthvað af neðangreindum atriðum á við um bifreið má ætla að hún sé tjónabifreið:
- Ás eða hjól hefur gengið til og sýnileg merki eru um að hjóla- eða stýrisbúnaður hafi bognað eða færst úr stað.
- Sýnileg merki eru um að burðarvirki yfirbyggingar eða sjálfstæð grind hafi bognað. Sérstaklega skal athuga festingar fyrir fjaðrabúnað og stýrisbúnað. Kýttur grindarendi myndar oftast skekkju á hjóla- og stýrisbúnaði.
- Sýnileg merki eru um snúning á yfirbyggingu. Sérstaklega skal athuga göt fyrir framrúðu og hurðir.
- Þverbrot í þaki er öruggt merki um skekkju í burðarvirki (brotið er oft sýnilegt ofan við aftari framhurðarstaf).
- Ef um hliðartjón er að ræða skal athuga hurðarbil á þeirri hlið sem óskemmd er. Ef bil er gleiðara í miðju en að framan eða aftan er burðarvirkið bogið um langás.
Skoðunarmenn tjónaskoðunardeildar tryggingafélaga og faggiltra skoðunarstofa geta endurmetið tjónamat lögreglu og tollvarða.