3.10.2 Sendiráðsmerki
Útg.nr: 04 Útg.dags: 11.06.2010
Sendiráðsökutæki:
Ökutæki sem eru skráð í notkunarflokkinn sendiráðsökutæki skulu bera sérstök sendiráðsmerki.
Yfirlýsing um sendiráðsökutæki:
Óheimilt er að skrá ökutæki sem sendiráðsökutæki nema framvísað hafi verið yfirlýsingu sendiráðs (Notification to the Ministry of Foreign Affairs - Importation and Registration of Embassy Vehicles). Yfirlýsingin skal vera staðfest bæði af viðkomandi sendiráði og utanríkisráðuneytinu.
Sendiráðsmerki:
Sendiráðsmerki eru græn í grunninn en stafir og brúnir eru hvít. Öll sendiráðsmerki bera stafina CD. Að auki bera þau einn bókstaf sem stendur fyrir sendiráðsland og tvo tölustafi. Eftirtaldir bókstafir eru notaðir fyrir sendiráðslöndin: A = Bandaríkin, B = Bretland, C = Danmörk, D = Finnland, E = Frakkland, [F = Indland]1, G = Kína, H = Noregur, I = Pólland, J = Rússland, K = Svíþjóð, L = Tékkland, M=Kanada, N = Þýskaland, [O = Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn]2, P=Japan og [R= Sendinefnd Evrópusambandsins]3, S=Atlantshafsbandalagið og T=Spánn.
Úthlutun og pöntun sendiráðsmerkja:
Sendiráð skráir skráningarnúmerið sem það hyggst nota á viðkomandi ökutæki á yfirlýsingu um sendiráðsökutæki. Ef sendiráð pantar ný skráningarmerki með umræddri áletrun skulu þau pöntuð á viðkomandi ökutæki í ökutækjaskrá. Ef sendiráð óskar eftir því að fá að nota skráningarmerki sem hafa verið í notkun er það heimilt séu þau ekki lengur í notkun á öðru ökutæki. Umrædd sendiráðsmerki skulu síðan skráð á hið nýja ökutæki.
Afhending sendiráðsmerkja:
Óheimilt er að afhenda sendiráðsmerki á ökutæki nema gegn framvísun á yfirlýsingu um sendiráðsökutæki. Við nýskráningu er þó nægilegt að ökutæki hafi verið skráð í notkunarflokkinn "Sendiráðsökutæki" á forskrá.
Sendiráðsmerkjum skilað inn:
Ef sendiráðsökutæki er afskráð sem sendiráðsökutæki skal skila inn sendiráðsmerkjum. Merkjunum er fargað nema sérstaklega sé óskað eftir því að þau verði geymd til notkunar eða afhent á annað sendiráðsökutæki.
Notkunarflokkurinn sendiráðsökutæki:
Þegar sendiráðsmerki eru afhent á ökutæki breytist notkunarflokkur þess sjálfkrafa í "Sendiráðsökutæki". Þegar almenn merki eru afhent á ökutæki breytist notkunarflokkurinn sjálfkrafa í "Almenn notkun". Áður en heimilt er að afhenda eða taka sendiráðsmerki af ökutæki skal ganga úr skugga um að framvísað hafi verið viðeigandi yfirlýsingu um sendiráðsökutæki.
1. 16.03.2009
2. 24.09.2009
3. 11.06.2010