3.10.4 Reynslumerki

Útg.nr: 04           Útg.dags: 01.01.2012

Heimil notkun reynslumerkja: Heimilt er að nota reynslumerki til að flytja óskráð ökutæki á milli staða í tengslum við skráningu, til reynsluaksturs og við kynningarstarfsemi hér á landi:

a. Flutningur vegna skráningar: Heimilt er að nota reynslumerki til að flytja óskráð ökutæki á milli staða vegna skráningar. Þetta á við um flutning frá skipshlið að tollporti, frá tollporti að geymslustað innflytjanda, milli geymslustaða, til og frá verkstæði og til skoðunarstöðvar.

b. Reynsluakstur: Með reynsluakstri er átt við stuttar reynsluferðir í eðlilegri fjarlægð frá umboði/bílasölu. Akstur utan opnunartíma umboðs/bílasölu eða utan sýningartíma er óheimill. Óheimilt er að geyma ökutæki við íbúðarhús að næturlagi. Lán á ökutækjum sem fellur utan reynsluaksturs er óheimilt. Óheimilt er að lána ökutæki yfir nótt.

c. Kynningarstarfsemi: Með kynningarstarfsemi er átt við sýningar á ökutækjum, sýningarferðir starfsmanna umboðs/bílasölu, auglýsingagerð og blaðamannalán.

d. Tímabundnar reglur um notkun reynslumerkja vegna COVID-19 í gildi til 1. maí 2021:
Rekstrarleyfishafa og umráðamanni hópbifreiða er heimilt að nota reynslumerki til viðhalds og upphitunar ökutækja þrátt fyrir að þau séu nýskráð og skráð úr umferð. Sýna þarf fram á staðfestingu frá tryggingafélagi um gilda ábyrgðartryggingu reynslumerkja. Á slíkri staðfestingu skal koma fram að umrædd ökutæki séu tryggð á ákveðnu reynslumerki í framangreindum tilgangi. Þessar tímabundnu reglur eru settar vegna afleiðinga COVID-19 faraldursins og ná eingöngu til notkunar reynslumerkja vegna viðhalds og upphitunar ökutækja og er skilyrði að ökutækjunum verði ekið án farms og/eða farþega í eins stuttan tíma og mögulegt er. 

Sótt er um reynslumerki hjá Samgöngustofu þar sem þau eru afhent gegn framvísun tryggingastaðfestingar. Heimild til aksturs ásamt tryggingastaðfestingu skal vera til staðar í ökutæki við notkun.

Ekki er heimilt að nota reynslumerki á tjónabifreiðar.

Langtímaleiga: Umboð með fulltrúa, löggiltir bílasalar, skipafélög, bifreiðaverkstæði og ryðvarnarstöðvar geta leigt reynslumerki til eins árs í senn. Samgöngustofa sér um langtímaleigu reynslumerkja. Aðili leggur inn umsókn (US.163) til Samgöngustofu sem síðan gefur út heimild til notkunar reynslumerkis sem staðfestir leiguna.

Númer reynslumerkja: Reynslumerki bera númer á bilinu RN-001 til RN-499. Samgöngustofa leigir þau út.

Gjald fyrir leigu: Greiða skal gjald fyrir leigu samkvæmt gjaldskrá Samgöngustofu. Gjaldið miðast við almanaksárið (1. janúar - 31. desember). Ef leiga hefst á miðju ári skal greiða fyrir almanaksárið í heild.

Trygging reynslumerkis: Leigutaki skal sýna fram á gilda ábyrgðartryggingu reynslumerkis.

Heimild til notkunar reynslumerkis: Við leigu á reynslumerkjum skal afhenda leigutaka heimild til notkunar reynslumerkis. Í heimild skal tilgreina rétthafa, leigustað, leigutíma og reglur um notkun reynslumerkis. Heimildina skal ávallt geyma í ökutæki sem ber reynslumerki.

Gildistími: Langtímaleigð reynslumerki eru leigð til eins árs í senn eða út almanaksárið.

Gildismiði reynslumerkis: Á flöt fyrir aftan bókstafi á reynslumerki skal setja gildismiða er sýnir leyfilegan notkunartíma merkisins, þ.e. það ár sem heimilt er að nota reynslumerkið. Gildismiði reynslumerkis skal vera eins og skoðunarmiði á hefðbundnu skráningarmerki (sjá 3.7) með þeim frávikum að seinni tveir tölustafir ártalsins sem miðinn sýnir skulu vera svartir á hvítum grunni og ártalið á neðri hluta miðans skal vera á lituðum grunni sem ræðst af grunnlit skoðunarmiða hvers árs. Endurnýja þarf gildismiða reynslumerkis fyrir lok hvers árs.

Ásetning reynslumerkja: Bifreið skal ávallt bera tvö reynslumerki, að framan og að aftan, en önnur ökutæki, s.s. dráttarvélar, bifhjól og eftirvagnar, skulu bera reynslumerki að aftan. Heimilt er að setja fremra merkið í framrúðu bifreiðar og skal það staðsett þannig að það sjáist greinilega inn um framrúðuna. Aftara merkið skal fest á áberandi stað aftan á bifreiðina og er heimilt að nota bráðabirgðafestingar t.d. segulfestingar.

Misnotkun: Til misnotkunar telst skortur á heimild til notkunar reynslumerkis í ökutæki (US. 164), ef notkun reynslumerkja er í andstöðu við reglur um heimila notkun, ef merki er skráð á lista yfir eftirlýst reynslumerki og loks ef reynslumerki bera ekki réttan gildismiða. Lögregla skal fjarlægja reynslumerki ef um misnotkun er að ræða. Í síðasta lagi næsta virka dag eftir afklippingu skal lögregla afhenda Umferðarstofu merkin og tilkynna um ástæðu afklippingar.

Afturköllun: Ef leigutaki misnotar reynslumerki afturkallar það réttinn til reynslumerkis, viðkomandi leigutaki fær ekki leigð ný langtíma reynslumerki.

Eftirlýst reynslumerki: Ef reynslumerki er ekki skilað inn á réttum tíma og leigutími er ekki framlengdur eða ef reynslumerki hefur glatast fer það á lista yfir eftirlýst reynslumerki (US.354).

Glötuð reynslumerki: Ef reynslumerki glatast skal tilkynna um það til Samgöngustofu þar sem merki er skráð á lista yfir eftirlýst reynslumerki. Panta skal ný merki á kostnað leigutaka í stað þess glataða. Ef merki finnst skal það tilkynnt Samgöngustofu og því skilað.

Framlenging leigutíma: Leigutími reynslumerkja í langtímaleigu miðast við almanaksárið. Boð um endurnýjun á leigu til eins árs í senn eru send út með hæfilegum fyrirvara í desember ár hvert. Til þess að framlengja leigutíma verður leigutaki að greiða gjald fyrir næsta tímabil og framvísa staðfestingu á ábyrgðartryggingu reynslumerkis. Að þessum skilyrðum uppfylltum er gefin út ný heimild til notkunar reynslumerkis og nýr gildismiði afhentur. Ef leigutaki endurnýjar ekki leigu skal hann skila reynslumerki inn til Samgöngustofu. Ef merki er ekki skilað inn er lögregla beðin um að fjarlægja merkið og er það skráð á lista yfir eftirlýst reynslumerki (US.354).

Farþegar og farmur: Óheimilt er að flytja farþega og farm í ökutæki sem ber reynslumerki, að undanskildum eftirfarandi tilfellum: Starfsmönnum umboðs/bílasölu og aðstandendum ökumanns er heimilt að sitja í ökutækinu við reynsluakstur, starfsmönnum umboðs/bílasölu við kynningarstarfsemi og starfsmanni verkstæðis við flutning þess til og frá verkstæði.

Blaðamannalán: Með blaðamannaláni er átt við þegar umboð lánar blaðamanni ökutæki á reynslumerkjum til kynningar vegna starfs hans á vegum fjölmiðla við umfjöllun um ökutæki á almennum vettvangi. Blaðamaðurinn skal hafa sérstaka heimild frá Samgöngustofu til að nota ökutæki með reynslumerki með þessum hætti og skal heimildin gefin út á nafn hans og viðkomandi reynslumerkis, og skal gilda í 3 samfellda daga í senn. [Blaðamaður skal að jafnaði áður en heimild er veitt, framvísa blaðamannaskírteini eða með öðrum hætti sýna fram á starfstengsl sín við tiltekinn fjölmiðil. ] 1)  Heimildin skal ávallt vera meðferðis við akstur og sýnileg í ökutækinu þegar það er ekki í notkun. Notkun blaðamanns á ökutæki sem ber reynslumerki skal einskorðast við það sem nauðsynlegt er vegna umfjöllunar í fjölmiðli. Ökutæki á blaðamannaláni er heimilt að standa við íbúðarhús að næturlagi á meðan á leigutímanum stendur, enda sé heimildarbréf sýnilegt í ökutækinu. Blaðamanni er óheimilt að flytja farþega og farm, nema farþegar séu starfsmenn umboðs/bílasölu.

1) 28.12.2012


Var efnið hjálplegt? Nei