Viðurkennd réttingaverkstæði
Útg.nr: 03 Útg.dags: 22.2.2022
Heimild til útgáfu vottorða: Samgöngustofa heldur lista yfir þá aðila sem eru viðurkennd réttingaverkstæði, sjá US.358. Viðurkennt réttingaverkstæði hefur heimild til að senda inn vottorð um viðgerð á tjónabifreið sem er skilað inn í rafrænu viðmóti. Viðurkennt réttingaverkstæði skal uppfylla þau skilyrði sem lýst er hér að neðan.
Viðurkennt réttingaverkstæði: Viðurkennt réttingaverkstæði hefur verið samþykkt sem aðili sem getur gert við ökutæki samkvæmt fyrirmælum framleiðanda þannig að ökutæki sé í sama ástandi og það var fyrir tjón. Viðurkennt réttingaverkstæði getur því afmáð tjónaskráningu ökutækis með því að senda inn vottorð um viðgerð á tjónabifreið á vef Samgöngustofu í rafrænu viðmóti. Athugið að til þess þarf að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Ekki er hægt að senda inn vottorð fyrir ökutæki sem þegar er skráð sem viðgerð tjónabifreið í ökutækjaskrá.
Skilyrði viðurkenndra réttingaverkstæða: Viðurkennt réttingaverkstæði þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- Hafa starfsmann með gild réttindi til útgáfu á burðarvirkisvottorðum. Starfsmaðurinn þarf einnig að hafa hlotið úttekt á réttingabekk viðkomandi fyrirtækis.
- Hafa vottað gæðakerfi/gæðahandbók sem er úttekið af aðila sem samþykktur hefur verið af Samgöngustofu.
- Hafa starfsmann með gild réttindi til útgáfu á hjólstöðuvottorðum eða samning við fyrirtæki sem er með gild réttindi.
- Hafa tæknistjóra (og staðgengil tæknistjóra ef við á) sem skal vera menntaður í bifvélavirkjun, bifreiðasmíði, tæknifræði eða verkfræði.
Tilkynningar til Samgöngustofu: Aðilar sem Samgöngustofa hefur samþykkt til úttektar á gæðakerfi verkstæða, senda tilkynningu til Samgöngustofu á netfangið umferdarlistar@samgongustofa.is, þar sem eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram:
- Nafn verkstæðis
- Heimili
- Póstnúmer
- Sveitarfélag
- Tæknistjóri
- Netfang tæknistjóra
- Staðgengill tæknistjóra (ef einhver er)
- Dagsetning vottunar / endurnýjun vottunar
- Gildistími vottunar (dagsetning)
Tæknistjóri: Tæknistjóri er tæknilegur ábyrgðarmaður fyrirtækisins. Skilyrði er að tæknistjóri skuli vera menntaður í bifvélavirkjun, bifreiðasmíði, tæknifræði eða verkfræði. Tæknistjóri ber ábyrgð á því að viðgerðin á tjónabifreið sé unnin skv. fyrirmælum framleiðanda ökutækis og að unnið sé eftir gildandi gæðahandbók verkstæðisins.
Kröfur um verklag við viðgerð: Viðgerðin skal vera framkvæmd samkvæmt fyrirmælum framleiðanda viðkomandi bifreiðar.
Eftirlit með aðilum og verklagi: Samgöngustofa hefur eftirlit með viðurkenndum réttingaverkstæðum. Brot á ofangreindum skilyrðum/reglum um viðurkennd réttingaverkstæði getur leitt til niðurfellingar á heimild. Samgöngustofa tekur reglulega úrtök á viðurkenndum réttingaverkstæðum og verða aðilar sem hafa heimild til innsendingar á vottorðum um viðgerð á tjónabifreið að framvísa gögnum er varða viðgerð sé þess óskað.
Eyðublöð og umsóknir: Hægt er að nálgast umsóknir og eyðublöð vegna viðgerðar á tjónabifreið hér á vefnum.