Rafrænir ökuritar
Ökuriti er tæki sem skráir aksturs- og hvíldartíma atvinnubílstjóra á stórum bílum
Með því er mögulegt að hafa eftirlit með að farið sé eftir settum reglum um aksturs- og hvíldartíma. Markmiðið með reglunum er að skapa betra starfsumhverfi fyrir atvinnubílstjóra og bæta öryggi á vegum úti.
Rafrænir ökuritar eru litlar tölvur sem komið er fyrir í ökutækjum. Hver bílstjóri þarf að hafa sitt eigið ökumannskort sem sett er í ökuritann við akstur. Þannig skráist hvenær hvaða bílstjóri ók hvaða bíl og hvort lögboðnar hvíldir hafi verið teknar. Auk þess á flutningsfyrirtæki sitt eigið kort til þess að auðkenna ökurita sem og til að sækja gögn af ökuritanum.
Innleiðing ökurita á Íslandi
Ástæður fyrir innleiðingu á rafrænum ökuritum hérlendis eru margar:
- Tilskipun Evrópubandalagsins til allra landa EB og EES kveður á um notkun ökurita.
- Aukið umferðaröryggi með minna álagi atvinnubílstjóra á stórum bílum.
- Auðveldara eftirlit sem eykur umferðaröryggi.
- Auðveldari gagnasöfnun fyrirtækja.
Fyrirtækjum er skylt að varðveita upplýsingar um akstur sinna ökutækja og ökumanna á þeirra snærum og einnig að veita þessar upplýsingar til eftirlitsmanna ef um það er beðið. Nánar má sjá um réttindi og skyldur ökumanna, fyrirtækja og ökuritaverkstæða í reglugerð nr. 605/2010 um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, notkun ökurita og eftirlit.
Ábyrgð fyrirtækja
Fyrirtæki þurfa að tileinka sér notkun rafrænna ökurita á ýmsan hátt og nær ábyrgð þeirra víða:
- Þjálfa þarf starfsmenn (ökumenn og aðra) í notkun á rafrænum ökuritum.
- Tryggja að reglum um aksturs- og hvíldartíma sé fylgt.
- Fela ökumönnum aðeins þau verkefni þar sem hægt er að fylgja reglum um aksturs- og hvíldartíma.
- Útvega sér fyrirtækiskort og sjá til þess að ökumenn þeirra hafi og noti sín ökumannskort.
- Hlaða gögnum úr ökuritum bíla og af ökumannskortum starfsmanna með reglulegu millibili, geyma þau tryggilega og afhenda eftirlitsmönnum ef um er beðið.
- Gæta þess að ökuritar séu skoðaðir reglulega (2ja ára reglubundin skoðun).
Ábyrgð ökumanna
Ökumenn þurfa einnig að tileinka sér notkun ökuritans:
- Verða sér úti um ökumannskort, geyma það tryggilega og nota það við akstur. Fræðslubækling um ökumannskortið má finna hér.
- Læra inn á rétta notkun ökuritans.
- Fylgja reglum um aksturs- og hvíldartíma að því gefnu að fyrirmæli stangist ekki á við lög og reglur.
Ökumannskortin eru á margan hátt sambærileg gömlu skífunum. Virkni ökumanns er skráð á kortið og geymir hvert kort upplýsingar, 28 daga í senn.
Lögboðið er að hlaða niður gögnum af ökuritakorti á ekki meira en 28 daga fresti og að hlaða niður gögnum af ökuritanum sjálfum á ekki meira en 90 daga fresti. Ökuritinn sjálfur geymir hraðaferil í 24 tíma. Ekki er hægt að fjarlægja kortið á meðan á akstri stendur og er lögboðið að ökumenn geymi kortið og hafi það í ökuritanum við akstur. Ökuritinn sjálfur geymir um eitt ár af akstursgögnum og því er akstur manna tvískráður.
Ökuritakortin
Fjórar tegundir korta ganga að ökuritanum:
- Ökumannskortið – hvítt, persónubundið og geymir aksturs- og hvíldartíma eigandans í 28 daga. Hvert kort gildir í fimm ár.
- Fyrirtækiskortið – gult, skylda hjá fyrirtækjum sem eiga eða reka ökutæki sem falla undir gildissviðið. Hvert kort gildir í fimm ár.
- Eftirlitskort – notað af eftirlitsaðilum, virkni sniðin að starfseminni.
- Verkstæðiskort – notað af verkstæðum, virkni sniðin að starfseminni.
Umsókn um ökuritakort
Sækja þarf um ökuritakort til Samgöngustofu. Umsóknin þarf að innihalda mynd af ökumanni ásamt undirskrift hans þar sem hvort tveggja er prentað á kortið. Að auki þarf að fylgja umsókn, ljósrit af báðum hliðum ökuskírteinis umsækjanda.
Umsókn um verkstæðiskort þarf að fylgja faggildingarvottorð og ljósrit af gildu vegabréfi eða ökuskírteini tæknistjóra. Kostnaður vegna ökuritakorts er kr. 18.091-, og er umsókn ekki afgreidd fyrr en greitt hefur verið fyrir hana.
Hægt er að nálgast umsókn um ökuritakort. Hana má fylla út í tölvu en svo ber að prenta út skjalið, skrifa undir það (handhafi korts) og líma passamynd ökumanns á skjalið í þeim tilvikum sem sótt er um ökumannskort. Ekki er hægt að sækja rafrænt um ökuritakort.