Skoðun ökutækja
Hér er að finna upplýsingar um hvenær ber að færa ökutæki til skoðunar, hvar er hægt að láta skoða og önnur atriði tengd skoðun.
Skoðunarmánuður
Skoðunarskyld ökutæki skulu færð til reglubundinnar skoðunar, annað hvort sbr. síðasta tölustaf á skráningarmerki eða í maí og þá óháð síðasta tölustaf á skráningarmerki, samkvæmt eftirfarandi reglum:
- Bifreiðar og eftirvagnar, skráðar hér á landi, skal færa til reglubundinnar skoðunar í þeim mánuði sem síðasti tölustafur skráningarmerkisins gefur til kynna, sbr. til dæmis ef síðasti tölustafur er 1 þá skal skoðunarmánuðurinn vera janúar og ef hann er 0 þá skal skoðunarmánuðurinn vera október.
- Ökutæki í notkunarflokknum fornökutæki, bifreið í notkunarflokknum húsbifreið, létt bifhjól (L1e, L2e og L6e) í flokki II og bifhjól, eftirvagn í notkunarflokknum hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagn skulu færð til reglubundinnar skoðunar í maímánuði óháð síðasta tölustaf á skráningarmerki og eru þau skoðuð líkt og þau hafi tölustafinn 5 í endastaf skráningarmerkis.
- Hafi ökutæki einkamerki með tölustaf sem síðasta staf á skráningarmerki, ræðst skoðunarmánuður af honum. Bókstafur sem síðasti stafur á skráningarmerki jafngildir 5 sem síðasta tölustaf á skráningarmerki.
Ökutæki skal fært til reglubundinnar skoðunar í síðasta lagi fyrir lok annars mánaðar eftir að lögbundnum skoðunarmánuði lýkur, að öðrum kosti leggst vanrækslugjald á eiganda (umráðamann) ökutækis.
Tíðni reglubundinnar skoðunar
Hvenær skoða skal ökutæki fer eftir notkunar-/ökutækisflokki þess og fyrsta skráningardegi. Þær reglur sem gilda um tíðni reglubundinnar skoðunar eru eftirfarandi:
1. Eftirfarandi ökutæki skal færa til reglubundinnar skoðunar innan fjögurra ára eftir að ökutækið var fyrst skráð, að skráningarárinu frátöldu. Síðan á 24 mánaða fresti næstu tvö skipti og eftir það á 12 mánaða fresti:
- Fólksbifreið (M1),
- sendibifreið (N1),
- dráttarvél sem hönnuð er til aksturs yfir 40 km á klst.,
- rafknúið dráttartæki,
- létt bifhjól (L1e, L2e og L6e) í flokki II,
- bifhjól (L3e, L4e, L5e, L6e og L7e),
- eftirvagn II (O2) og eftirvagn dráttarvélar I (R1) og II (R2) sem hannaður er til aksturs yfir 40 km á klst.
2. Ökutæki í notkunarflokknum „ökutæki í ökutækjaleigu“ og ökutæki skv. a-lið sem notað er við ökukennslu skal færa til reglubundinnar skoðunar innan þriggja ára eftir að ökutækið var fyrst skráð, að skráningarárinu frátöldu. Síðan á 24 mánaða fresti næstu tvö skipti og eftir það á 12 mánaða fresti.
3. Fólks- eða sendibifreið í eftirfarandi notkunarflokkum skal færa til reglubundinnar skoðunar í síðasta lagi einu ári eftir fyrstu skráningu og þar á eftir á 12 mánaða fresti:
- Leigubifreið,
- skólabifreið,
- ökutæki sem flytja fatlaða og hreyfihamlaða í atvinnuskyni og
- ökutæki ætluð til neyðaraksturs.
4. Eftirtalin ökutæki skal færa til skoðunar í síðasta lagi einu ári eftir fyrstu skráningu ökutækisins og þar eftir á 12 mánaða fresti:
- Hópbifreið I og II (M2 og M3),
- vörubifreið I og II (N2 og N3) og
- eftirvagn III og IV (O3 og O4) og eftirvagn dráttarvélar III og IV (R3 og R4) sem hannaður er til aksturs yfir 40 km á klst.
5. Eftirvagn II (O2) skal skoðaður fjórum árum eftir að ökutækið var fyrst skráð, að skráningarárinu frátöldu og þar á eftir á 24 mánaða fresti, hið sama gildir um eftirvagn I (O1) í notkunarflokknum tjaldvagn, fellhýsi eða hjólhýsi.
6. Ökutæki í notkunarflokknum fornökutæki skal skoðað á 24 mánaða fresti. Skoðunarár miðast við árið sem ökutækið var fyrst skráð.
Skoðunarstofur
Hér má sjá lista yfir skoðunarfyrirtæki á Íslandi. Á heimasíðum þeirra má finna nánari upplýsingar um skoðunarstofur.
Endurskoðun
Til endurskoðunar skal almennt veita frest til loka næsta mánaðar. Sé ökutæki fært til endurskoðunar innan tilskilins frests skal endurskoðunin eingöngu fela í sér skoðun á þeim atriðum sem athugasemd var gerð við í fyrri skoðun. Ef tilskilinn frestur er liðinn skal ökutækið skoðað sem um aðalskoðun væri að ræða.
Fram til 1. janúar 2024 er heimilt að veita 30 daga frest til viðbótar áður útgefnum fresti vegna endurskoðunar að því tilskildu að áður útgefinn frestur sé ekki útrunninn. Slíkan frest er aðeins heimilt að veita ef ekki er unnt að útvega varahluti til viðgerða á ökutæki eða fá tíma fyrir ökutæki á verkstæði til viðgerðar til að bæta úr athugasemd eða athugasemdum sem leiddu til endurskoðunar ökutækisins. Skoðunarstofa veitir frestinn séu þessi skilyrði uppfyllt.
Álagning og innheimta vanrækslugjalds
Ökutæki skal fært til reglubundinnar skoðunar í síðasta lagi fyrir lok annars mánaðar eftir að lögbundnum skoðunarmánuði lýkur, að öðrum kosti leggst vanrækslugjald á eiganda (umráðamann) ökutækis. Ef umráðamaður er skráður fyrir ökutæki þá er það alltaf á hans ábyrgð að færa ökutækið til skoðunar
Ef ökutæki er ekki fært til endurskoðunar innan veitts frests leggst einnig vanrækslugjald á ökutækið.
Sé ökutæki fært til skoðunar og vanrækslugjaldið greitt innan mánaðar frá því að það var lagt á, skal það lækka um 50%. Sama gildir ef skráningarmerki eru afhent skoðunarstofu innan mánaðar frá því að gjaldið var lagt á eða ökutæki er skráð tímabundið úr umferð með miða. Sé ökutæki afskráð og móttekið til úrvinnslu innan tveggja mánaða frá álagninu gjaldsins skal fella álagninguna niður.
Hafi vanrækslugjald ekki verið greitt innan þriggja mánaða frá álagningu þess skal það innheimt. Fer um fullnustuaðgerðir vegna innheimtu gjaldsins eftir 6. og 7. mgr. 74. gr. umferðarlaga. Vanrækslugjald nýtur lögveðs í viðkomandi ökutæki sem helst við eigendaskipti og má gera fjárnám til tryggingar greiðslu þess hjá eiganda (umráðamanni) ökutækis án undangengins dóms eða sáttar.
Fjarlægð frá skoðunarstöð
Hafi eigandi ökutækis sem býr fjær en 80 km frá næstu skoðunarstofu ekki átt þess kost að færa ökutækið til skoðunar innan frests getur hann fengið viðbótarfrest í 2 mánuði með því að tilkynna sýslumanninum á Vestfjörðum um þá ósk sína. Tilkynningin þarf að hafa borist áður en frestur til að skoða ökutækið rennur út.
Skoðun erlendis
Ef ökutæki sem skráð er hér á landi er í notkun erlendis skal færa það til skoðunar hjá viðurkenndri skoðunarstöð innan EES. Eigandi ökutækisins skal sækja um innfærslu á erlendri skoðun með rafrænum hætti og láta fylgja erlendu skoðunarskýrsluna ásamt nauðsynlegum upplýsingum svo hægt sé að senda viðkomandi nýjan skoðunarmiða sem hann sjálfur límir á skráningarmerki ökutækisins.
Eftirlit með starfsemi skoðunarstofa og endurskoðunarverkstæða
Eftirlit með framkvæmd skoðunar skal fara fram samkvæmt 32. og 33. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja nr. 414/2021. Við eftirlit skal leitast við að skoðunarstofa og skoðunarmaður hafi skoðað ökutæki samkvæmt skoðunarhandbók og skal dæming og niðurstaða vera innan tiltekinna frávika. Sjá skal um framkvæmd eftirlits.