Ný skoðunarhandbók
Ný skoðunarhandbók ökutækja tekur gildi 1. mars 2023. Bókin er byggð á reglugerð um skoðun ökutækja nr. 414/2021 og á tilskipun Evrópusambandsins nr. 2014/45, með síðari breytingum. Handbókin leysir þá af hólmi núverandi skoðunarhandbók sem tók gildi 1. maí 2017. Nýja handbókin er að langstærstu leyti sambærileg þeirri eldri hvað varðar skoðunaratriði, skoðunaraðferðir, tækjabúnað og dæmingar. Þó má finna áherslubreytingar, ný skoðunaratriði og alveg nýja uppsetningu.
Á árinu 2022 voru skoðaðar hátt í 183 þúsund aðalskoðanir. Rétt um helmingi skoðana lauk með niðurstöðunni án athugasemda og um fimmtungur ökutækja fékk niðurstöðuna endurskoðun. Alls hafa verið um 160 skoðunaratriði í skoðunarhandbókinni og var í flestum þeirra möguleiki á að dæma á endurskoðun en einnig í mörgum þeirra líka lagfæringu og í einstökum tilvikum akstursbann. Alls mynduðu þessar samsetningar um 270 mögulegar dæmingar. Við tölfræðilega úrvinnslu skoðunargagna síðasta árs sést að 30 þeirra mynduðu um 80% dæminganna og því rétt að horfa til þeirra sérstaklega við þessa samantekt.
Þegar horft er til þessara 30 dæmingaratriða og þau borin saman við dæmingarnar eins og þær verða á sömu atriði í nýrri skoðunarhandbók sjást almennt tiltölulega litlar breytingar. Þó er rétt að vekja athygli á eftirtöldum breytingum:
- Viðmið um virkni stöðuhemla á öllum ökutækjum hert þannig að það sem áður var lagfæring verður nú endurskoðun.
- Óvirkir stöðuhemlar á stærri ökutækjum (bílum og vögnum) valda því nú að notkun þeirra verður bönnuð en var áður endurskoðun.
- Eitthvað er um strangari dæmingar á ljósabúnað, fá þá endurskoðun í stað lagfæringar áður. Á þetta við um flest ljósker (háljós, stöðuljós, hliðarljós, breiddarljós og þokuljós). Tiltölulega auðvelt er fyrir umráðamenn ökutækja að ganga úr skugga um að ljós virki áður en farið er í skoðun. Við þessa breytingu á handbókinni er því ástæða til að hvetja umráðamenn til að gera það.
- Algjörlega óvirk hemlaljósker (engin hemlaljós virka) verður nú akstursbann (var endurskoðun áður).
- Eitthvað er um hertar dæmingar á hjólbarða, alvarlegar skemmdir eða sprungur valda nú notkunarbanni en var endurskoðun áður, og mikið slit á hjólbörðum stærri ökutækja er alltaf endurskoðun (en gat verið lagfæring í einhverjum tilvikum áður).
- Óvirkir ljósapólar í raftengi fyrir eftirvagn verða nú alltaf endurskoðun (sumar bilanir voru áður bara lagfæring). Sérstaklega er vakin athygli á að bilaður hemlaljósapóll í raftengi eftirvagnsins veldur því nú að notkun eftirvagnsins verður bönnuð (var endurskoðun áður).
Ný atriði sem koma inn
Í nýrri skoðunarhandbók verða hátt í 170 skoðunaratriði. Nokkur atriði koma ný inn eða eru verulega breytt frá fyrri handbók og taka gildi um næstu áramót eða síðar. Þau eru þessi:- Öryggispúðar: Frá 1. janúar 2024 verður gerð athugasemd við það ef gaumljós öryggispúða gefur til kynna einhverskonar bilun í kerfinu. Þetta á við um allar bifreiðir sem búin eru öryggispúða frá framleiðanda.
- Öryggispúðakerfi (SRS): SRS stendur fyrir Supplemental Restraint System, eða öryggispúða-kerfi. Frá 1. janúar 2024 verður gerð athugasemd við það ef gaumljós SRS-kerfis gefur til kynna einhverskonar bilun í kerfinu. Þetta á við um allar bifreiðir sem búin eru öryggispúða-kerfi (SRS).
- Rafræn skrikvörn (ESC): ESC stendur fyrir Electronic Stability Control, eða rafræn skrikvörn. Hún hefur það hlutverk að aðstoða ökumann við að stýra ökutækinu við erfiðar aksturs-aðstæður eða á mikilli ferð. Kerfið reiðir sig á virkni annarra kerfa eins og ABS þannig að bilanir í undirliggjandi kerfum framkalla bilun í þessu kerfi. Frá 1. janúar 2024 verður gerð athugasemd við það þegar gaumljós ESC-kerfis (eða aðrar sambærilegar upplýsingar í mælaborði) gefur til kynna bilun í kerfinu.
- Neyðarkall (eCall): eCall stendur fyrir sjálfvirkt neyðarkall sem er búnaður sem hefur sam-band við neyðarlínu þegar slys á sér stað og gefur upp staðsetningu, fjölda farþega, fjölda virkjaðra öryggispúða, hraða og fleiri upplýsingar. Frá 1. janúar 2024 verður gerð athugasemd við ýmiskonar frávik í virkni eCall kerfis gerðarviðurkenndra fólks- og sendibíla sem skráðir hafa verið síðustu ár.
- Akstursmælir: Nú eru mögulega gerðar ráðstafanir ef í ljós kemur að óeðlileg breyting hafi orðið á stöðu akstursmælis til lækkunar. Markmiðið er að spyrna við sviksamlegum breyt-ingum á stöðu akstursmælis, enda eru þær jafnan gerðar með hagnaðarsjónarmið í huga.
Raflestur af vélknúnum ökutækjum
Í nýju skoðunarhandbókinni er að auki tilkynnt um komandi raflestur af vélknúnum ökutækjum (t.d. með OBD tölvutengingu). Þá verður aflestrartölva tengd við ökutækið sem leitar eftir frávikum úr tölvukerfi ökutækisins. Unnið er að leiðbeiningum varðandi raflesturinn og skilgreiningu á umfangi ökutækja en búist er við að skoðun með raflestri hefjist á næsta ári og nái til bifreiða sem skráðar hafa verið fyrstu skráningu á síðustu tíu árum. Um er að ræða raflestur á eftirfarandi atriðum:- Raflestur gefur til kynna bilun í læsivörn hemlakerfis (ABS), bilun veldur endurskoðun.
- Raflestur gefur til kynna bilun í rafrænu hemlakerfi (EBS), bilun veldur endurskoðun.
- Raflestur gefur til kynna bilun í rafknúnum aflstýrisbúnaðar (EPS), bilun veldur endurskoðun.
- Raflestur gefur til kynna bilun í hæðarstillingu aðalljósa, bilun veldur endurskoðun.
- Raflestur gefur til kynna bilun í aðalljósabúnaði, bilun veldur endurskoðun.
- Raflestur gefur til kynna bilun í hallastillingarbúnaði aðalljósa, bilun veldur endurskoðun.
- Raflestur gefur til kynna bilun í hemlaljóskerum, bilun veldur endurskoðun.
- Raflestur gefur til kynna að stýrieiningu hreyfils hafi verið breytt sem hefur áhrif á öryggi og/eða umhverfi, óleyfileg breyting veldur endurskoðun.
- Raflestur gefur til kynna bilun í öryggisbeltaslakara, bilun veldur akstursbanni.
- Raflestur gefur til kynna bilun í öryggisbeltastrekkjara, bilun veldur akstursbanni.
- Raflestur gefur til kynna bilun í öryggispúða, bilun veldur akstursbanni.
- Raflestur gefur til kynna bilun í öryggispúðakerfi (SRS), bilun veldur akstursbanni.
- Raflestur gefur til kynna bilun í rafrænum stöðuleikabúnaði (ESC), bilun veldur endurskoðun.
- Raflestur gefur til kynna bilun í sjálfvirku neyðarkalli (eCall), bilun þýðir lagfæring.
- Raflestur gefur til kynna alvarlega bilun í mengunarvarnarbúnaði, bilun veldur endurskoðun.
Bættar upplýsingar fyrir skoðunarmenn
Í nýrri handbók verða betri upplýsingar fyrir skoðunarmenn af ýmsu tagi sem auka munu möguleika þeirra til að standa faglega að skoðun einstakra hluta ökutækisins. Sem dæmi má nefna:- Upplýsingar um ljósabúnað ökutækja verða aðgengilegri og Samgöngustofa mun leggja sérstaka áherslu á vandaða skoðun þeirra, sérstaklega á stærri ökutækjum.
- Sérstök skráningarskoðunarhandbók er nú hluti af handbókinni.
- Verklag fyrir ADR-skoðanir og leyfisskoðanir hefur verið uppfært og þessar skoðanir nú orðnar hluti af skoðunarflóru handbókarinnar.
- Verklag fyrir tjónaendurmat skoðunarstofanna hefur verið uppfært og orðið hluti af skoðunarhandbók.
- Reglur um flutninga á hreyfihömluðum og flutning skólabarna verður uppfært á næstunni.
- Í handbókinni verða öryggistilkynningar um áríðandi atriði sem hægt er að koma til skoðunarstofa í gegnum skoðunarhandbókina.
- Handbók fyrir skoðun bifhjóla er hluti af handbókinni.
- Skýrari leiðbeiningar eru komnar fyrir skoðun ökutækja í tengslum við notkunarflokkabreytingar, s.s. við að breyta í húsbifreið, rallbifreið og ökukennslu.
- Samanteknar reglur um akstur að lokinni skoðun ef notkun er bönnuð, og upplýsingaskyldu.
Breytt verklag vegna breytinga á ökutækjum
Verklagi skoðunarstofanna við meðhöndlun breytinga á ökutækja hefur verið breytt. Breyting þarf nú að vera bæði leyfileg og helst fullfrágengin til að hljóta samþykki skoðunarstofu. Að öðrum kosti ber skoðunarstofunni að hafna skoðun og vísa ökutækinu frá. Tvær leiðir eru þá fyrir umráðamann ökutækisins, annað hvort að klára breytinguna eða láta hana ganga til baka. Rétt er líka að nefna að skoðunarstofa fær nú heimild til að hafna því að taka ökutæki til skoðunar af fleiri ástæðum, m.a. ef það er metið svo að ökutækið sé hættulegt fólki eða geti valdið skaða á húsnæði, farmur þess er metinn hættulegur, skráningarmerki vanti (eða eru heimatilbúin) eða verksmiðjunúmer afmáð, ógreinilegt, rangt eða falsað. Skoðunarstofu ber að tilkynna Samgöngustofu um allar hafnanir á skoðun.Nokkrar áherslubreytingar í nýju útgáfu handbókarinnar
Í nýrri útgáfu handbókarinnar eru nokkrar áherslubreytingar, m.a. þessar:- Skoðunarvottorð getur nú verið á rafrænu formi og ekki verður gerð krafa um að geyma það í ökutækinu.
- Því beint til skoðunarstofanna að upplýsa viðskiptavini á skoðunarvottorði um hvaða skoðunarreglum var beitt og um ferli kvartana hjá skoðunarstofunni.
- Áréttaðar eru skyldur skoðunarmanna um að kynna niðurstöðu skoðunar vel fyrir eiganda (umráðamanni), sérstaklega þegar athugasemdir hafa verið gerðar við ástand ökutækisins.
- Lögð er áhersla á ákvæði reglugerðar um skoðun ökutækja um boðun lögreglu í skoðun, að boði lögregla ökutæki til skoðunar vegna vanbúnaðar (ástands) skuli herða dæmingu skoðunaratriðis úr 2 í 3. Þetta þýðir að ökutæki sem boðað hefur verið til skoðunar af þessari ástæðu fær niðurstöðuna akstursbann ef skoðunaratriði hlýtur dæmingu 2.
- Í síðustu reglugerð um skoðun ökutækja var farið að gera meiri kröfur til skoðunarmanna og tæknilegra stjórnenda hvað varðar grunnnámskeið og endurmenntun. Skrifuð hefur verið námskrá og viðurkenndar þjálfunarstöðvar fá heimild til að þjálfa upp skoðunarmenn og tæknistjóra.
- Eftirlit með skoðunarstofum verður betur skilgreint með nýrri skoðunarhandbók.