Burðarvirkis- og hjólastöðuvottorð
Upplýsingar um útgáfu burðarvirkis- og hjólastöðuvottorða
Skilgreiningar
Tjónaökutæki
Ökutæki sem orðið hefur fyrir tjóni sem getur haft áhrif á aksturseiginleika þess og akstursöryggi. Hafi slíkt tjón orðið á ökutæki skal skilgreina og skrá ökutækið sem tjónaökutæki og notkun þess bönnuð.
Tjónaökutæki I
Ökutæki sem lent hefur í óhappi og tilkynnt hefur verið af lögreglu eða Skattinum (áður tollstjóra) til Samgöngustofu. Hægt er að óska eftir endurmati innan 20 daga, sé það ekki gert breytist skráningin í tjónaökutæki II.
Tjónaökutæki II
Ökutæki sem lent hefur í óhappi og tilkynnt hefur verið af tryggingafélagi til Samgöngustofu. Ennfremur tjónaökutæki I þar sem frestur til endurmats er runninn út. Ekki má taka tjónaökutæki II í notkun á ný nema að fram fari viðgerð á því af viðurkenndu réttingaverkstæði.
Viðgert tjónaökutæki
Ökutæki sem hefur fyrir 1. ágúst 2017 verið viðgert af öðrum en viðurkenndu réttingaverkstæði.
Margar tjónaskráningar
Ef ökutæki sem er skráð viðgert tjónaökutæki þann 1. ágúst 2017, lendir aftur í tjóni þannig að það teljist sem tjónaökutæki II, skráist það með margar tjónaskráningar óháð viðgerðaraðila.
Endurmat tjónaökutækis
Hægt er að óska eftir endurmati á tjónaökutæki I innan 20 virkra daga frá skráningu í ökutækjaskrá. Endurmat skal fara fram áður en viðgerð hefst og skal vera studd gögnum, það er greinargerð, ljósmyndum og/eða mælingum. Endurmat getur leitt til niðurfellingar á tjónaskráningu eða að ökutæki teljist tjónaökutæki II. Faggiltar skoðunarstofur framkvæma endurmat. Gögn skulu send til Samgöngustofu sem skráir upplýsingarnar í ökutækjaskrá.
Viðurkennt réttingaverkstæði
Verkstæði sem er búið viðeigandi tækjabúnaði til viðgerða á ökutækjum eftir fyrirmælum framleiðanda og hafa heimild til að gefa út vottorð um viðgerð á tjónaökutæki. Sjá nánar kafla um viðurkennd réttingaverkstæði.
Samþykktur úttektaraðili
Aðili sem hefur verið samþykktur af Samgöngustofu til þess að framkvæma úttektir á réttingaverkstæðum sem vilja vera viðurkennd af Samgöngustofu.
Burðarvirkisvottorð
Staðfesting mælingarmanns á að burðarvirki ökutækis sé innan marka framleiðanda þess.
Hjólastöðuvottorð
Staðfesting mælingarmanns á að hjólastaða ökutækis sé innan þeirra marka sem framleiðandi þess setur og að stilling þess hafi verið framkvæmd samkvæmt fyrirmælum framleiðanda þess eða framleiðanda þess ökutækis sem ásar voru notaðir úr.
Útgáfa burðarvirkisvottorða
Krafa er gerð um að burðarvirkisvottorð og öll gögn sem við koma mælingu séu skjöluð við viðgerð á tjónaökutæki. Samgöngustofa getur óskað eftir burðarvirkisvottorði við breytingu á tjónaskráningu ökutækja og við eftirlitsaðgerðir. Einnig getur verið þörf á að framvísa burðarvirkisvottorði vegna breytinga á burðarvirki ökutækis.
Ávallt skal gefa út burðarvirkisvottorð við viðgerð á tjónaökutæki.
Heimild til útgáfu vottorða:
Samgöngustofa heldur lista yfir þá aðila sem hún hefur viðurkennt til útgáfu á vottorðum um burðarvirki.
Iðan fræðslusetur sér um utanumhald á námskeiðum og úttektum mælingamanna á viðeigandi mælitæki. Þegar mælingarmaður hefur sótt viðurkennt námskeið í burðarvirkismælingum hjá Iðunni fræðslusetri þarf hann að standast úttekt á þau mælitæki sem verkstæðið notar hjá aðila sem er viðurkenndur af Samgöngustofu. Að því loknu sendir Iðan fræðslusetur tilkynningu þess efnis til Samgöngustofu sem skráir mælingamann á lista yfir aðila sem hafa heimild til útgáfu á burðarvirkisvottorðum.
Til þess að viðhalda heimild skal mælingarmaður sækja endurmenntun á fimm ára fresti.
Til þess að öðlast heimild til útgáfu á burðarvirkisvottorðum skal mælingarmaður sækja námskeið og standast úttekt á starfsstöð.
Kröfur um aðstöðu:
Verkstæði sem gefur út burðarvirkisvottorð skal búið mælitæki og aðstöðu til burðarvirkismælinga. Mælitæki skal haldið í fullkomnu lagi og kvarðað og stillt samkvæmt fyrirmælum framleiðanda þess.
Ábyrgðarmaður verkstæðis:
Ábyrgðarmaður verkstæðis skal vera sveinn eða meistari í bifvélavirkjun eða bifreiðasmíði. Ábyrgðarmaður ber ábyrgð á mælingum sem framkvæmdar eru af mælingarmönnum verkstæðisins og búnaði sem notaður er. Ábyrgðarmaður verður að hafa setið námskeið í reglum um burðarvirki og ábyrgð útgefanda á síðustu 5 árum. Ábyrgðarmaður skal tilkynna ef skráður mælingarmaður hættir störfum og ef nýr hefur störf, einnig ef breytingar verða á tækjabúnaði.
Kröfur til mælingarmanna:
Mælingarmaður skal vera bifvélavirki eða bílasmiður í föstu starfi hjá því verkstæði er fær heimild til útgáfu vottorða. Mælingarmaður skal hafa sótt viðurkennt námskeið í burðarvirkismælingum hjá Iðunni fræðslusetri. Til þess að viðhalda heimild þarf að sækja endurmenntun á fimm ára fresti. Hann skal hafa staðist úttekt á þau mælitæki sem verkstæðið notar hjá aðila sem er viðurkenndur af Samgöngustofu.
Kröfur um verklag við mælingu:
Burðarvirkismæling skal vera framkvæmd samkvæmt fyrirmælum framleiðanda viðkomandi bifreiðar. Einnig skal meta hvort viðgerð hafi verið framkvæmd samkvæmt fyrirmælum framleiðanda, svo sem að skipt hafi verið um þá hluti sem ekki má rétta og samsetningar hluta séu rétt framkvæmdar.
Útgáfa vottorða og vistun gagna:
Ekki skal gefa út vottorð nema mæling á ökutæki sé innan marka og skal burðarvirkisvottorð vera staðfesting á því að burðarvirki sé innan marka. Útgáfuaðili skal geyma öll gögn um burðavirkismælingu, mæliblöð fyrir og eftir viðgerð og upplýsingar sem notaðar voru við mælingu í 5 ár og ber að afhenda þau óski Samgöngustofa eftir því. Á mæliblöðum skal tilgreina dagsetningu verks, upphaf og lok mælingar. Halda skal skrá yfir viðhald og kvörðun tækja.
Sé um tjónaökutæki að ræða og tjón ökutækis sé þess eðlis að augljóst er að burðarvirki þess hafi ekki skekkst, sé innan marka framleiðanda og hægt sé að staðfesta það með gögnum út frá hjólastöðumælingu, myndum og ítarlegri greinagerð mælingarmanns er heimilt að gefa út burðarvirkisvottorð á þeim forsendum. Útgáfuaðili skal geyma þau gögn í 5 ár og ber að afhenda þau óski Samgöngustofa eftir því. Athugið að það er aðeins heimilt að gefa út burðarvirkisvottorð á þessum forsendum í undantekningartilvikum þegar ökutæki hefur ranglega verið skráð tjónaökutæki.
Útgáfa hjólastöðuvottorða
Krafa er gerð um að hjólastöðuvottorð og öll gögn sem við koma mælingu séu skjöluð við viðgerð á tjónaökutæki. Samgöngustofa getur óskað eftir hjólastöðuvottorði við breytingu á tjónaskráningu ökutækja og við eftirlitsaðgerðir. Einnig getur verið gerð krafa um framvísun á hjólastöðuvottorði við skoðun ökutækis ef dæmt hefur verið á hjólastillingu í almennri skoðun og við sérskoðun eða vegna breytinga á ökutæki.
Ávallt skal gefa út hjólastöðuvottorð við viðgerð á tjónaökutæki.
Heimild til útgáfu vottorða:
Samgöngustofa heldur lista yfir þá aðila sem hún hefur viðurkennt til útgáfu á vottorðum um hjólastöðu.
Iðan fræðslusetur sér um utanumhald á námskeiðum og úttektum mælingamanna á viðeigandi mælitæki. Þegar mælingarmaður hefur sótt viðurkennt námskeið í reglum um hjólastillingar hjá Iðunni fræðslusetri þarf hann að standast úttekt á þau mælitæki sem verkstæðið notar hjá aðila sem er viðurkenndur af Samgöngustofu. Að því loknu sendir Iðan fræðslusetur tilkynningu þess efnis til Samgöngustofu sem skráir mælingamann á lista yfir aðila sem hafa heimild til útgáfu á hjólastöðuvottorðum.
Til þess að viðhalda heimild skal mælingarmaður sækja endurmenntun á fimm ára fresti.
Til þess að öðlast heimild til útgáfu á hjólastöðuvottorðum skal mælingarmaður sækja námskeið og standast úttekt á starfsstöð.
Kröfur um aðstöðu:
Verkstæði sem gefur út hjólastöðuvottorð skal búið hjólastillitæki og aðstöðu til hjólastillinga. Hjólastillitæki skal haldið í fullkomnu lagi og kvarðað og stillt samkvæmt fyrirmælum framleiðanda þess.
Ábyrgðarmaður verkstæðis:
Ábyrgðarmaður verkstæðis skal vera sveinn eða meistari í bifvélavirkjun eða bifreiðasmíði. Ábyrgðarmaður ber ábyrgð á mælingum sem framkvæmdar eru af mælingarmönnum verkstæðisins og búnaði sem notaður er. Ábyrgðaraðili verður að hafa setið námskeið í reglum um hjólastillingar á ábyrgð útgefanda á síðustu 5 árum. Ábyrgðarmaður skal tilkynna ef skráður mælingarmaður hættir störfum og ef nýr hefur störf, einnig ef breytingar verða á tækjabúnaði.
Kröfur til mælingarmanna:
Mælingarmaður skal vera bifvélavirki eða bílasmiður í föstu starfi hjá því verkstæði er fær heimild til útgáfu vottorða. Mælingarmaður skal hafa sótt viðurkennt námskeið í hjólastillingum hjá Iðunni fræðslusetri. Til þess að viðhalda heimild þarf að sækja endurmenntun á fimm ára fresti. Hann skal hafa staðist úttekt á þau hjólastillitæki sem verkstæðið notar hjá aðila sem viðurkenndur er af Samgöngustofu.
Kröfur um verklag við mælingu:
Hjólastilling skal vera framkvæmd samkvæmt fyrirmælum framleiðanda viðkomandi bifreiðar. Ef ás bifreiðar er tekinn úr annarri bifreið skal miða við gildi sem eru gefin fyrir þá bifreið sem viðkomandi ás kemur úr. Við stillingu skal yfirfara stýrisbúnað, ganga úr skugga um að ekki séu slit eða skemmd í búnaðinum og að allir hlutir séu í lagi. Ef um sérsmíðaða hluti er að ræða skal liggja fyrir vottorð frá óháðum aðila viðurkenndum af Samgöngustofu. Stilla skal bæði fram- og afturhjól bifreiðar.
Útgáfa vottorða og vistun gagna:
Ekki skal gefa út vottorð nema stilling sé innan marka og skal hjólastöðuvottorð vera staðfesting á því að stilling sé innan marka framleiðanda. Útgáfuaðili skal geyma gögn um hjólastöðu og upplýsingar sem notaðar voru við stillingu í 5 ár og ber að afhenda þau óski Samgöngustofa eftir því. Mæliblöð fyrir og eftir hjólastillingu, hvort sem um er að ræða handskrifuð mæliblöð eða gögn úr tölvu hjólastillingatækis skulu vera dagsett með upphafi og lok verks. Halda skal skrá yfir viðhald og kvörðun stillitækja.
Tilkynning um mælingarmann
Iðan fræðslusetur sér um utanumhald á námskeiðum og úttektum mælingamanna á viðeigandi mælitæki. Þegar mælingarmaður hefur sótt viðurkennt námskeið í burðarvirkismælingum/hjólastöðumælingum hjá Iðunni fræðslusetri þarf hann að standast úttekt á þau mælitæki sem verkstæðið notar hjá aðila sem er viðurkenndur af Samgöngustofu. Að því loknu sendir Iðan fræðslusetur tilkynningu þess efnis til Samgöngustofu.
Þar skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar:
- Tilefni umsóknar – heimild til útgáfu burðarvirkisvottorðs og/eða hjólastöðuvottorðs
- Nafn
- Kennitala
- Heimilisfang, póstnúmer og staður
- Sími
- Netfang
- Gerð mælitækis
- Ábyrgðarmaður starfsstöðvar
- Upplýsingar um starfsstöð mælingarmanns:
- Nafn
- Kennitala
- Dagsetning hvenær námskeið fór fram
- Dagsetning úttektar á mælingartæki
- Upplýsingar um mælingarmann/mælingarmenn
Þegar tilkynning berst frá Iðunni skráir Samgöngustofa mælingarmann á lista yfir aðila sem hafa heimild til útgáfu á burðarvirkis- og/eða hjólastöðuvottorðum. Vanti upplýsingar er skráningu hafnað.
Eftirlit
Samgöngustofa hefur eftirlit með þeim sem hafa heimild til útgáfu á burðarvirkis- og hjólastöðuvottorðum. Brot á reglum um útgáfu vottorða getur leitt til niðurfellingar á heimild. Aðilar sem hafa heimild til útgáfu vottorða verða að taka þátt í samanburðarskoðunum sé þess óskað. Eftirlit með aðilum fellur einnig inn í verklag fyrir eftirlit með viðurkenndum réttingaverkstæðum.