Eftirvagnar
Hér að neðan má nálgast helstu upplýsingar er varðar eftirvagna (t.d. hjólhýsi, fellihýsi, tjaldvagnar og kerrur ). Athugið að ökumenn sem tóku almenn ökuréttindi fyrir 15. ágúst 1997 fengu sjálfkrafa bæði B og BE réttindi. Þeir sem tóku prófið eftir 15. ágúst 1997 eru eingöngu með B réttindi og þurfa því að sækja fjóra verklega tíma hjá ökukennara og taka verklegt próf til að öðlast BE réttindi.
Fræðslumynd um eftirvagna (ísl, ens, pól)
Ökumaður - réttindi
- Á bakhlið ökuskírteinis má sjá ökuréttindaflokka, útgáfudag og lokadag hvers flokks fyrir sig.
- Athugið að ökumenn sem tóku almenn ökuréttindi fyrir 15. ágúst 1997 fengu sjálfkrafa bæði B og BE réttindi. Þeir sem tóku prófið eftir 15. ágúst 1997 eru eingöngu með B réttindi og þurfa því að sækja fjóra verklega tíma hjá ökukennara og taka verklegt próf til að öðlast BE réttindi.
Hvernig fæ ég BE réttindi?
Til þess að fá BE réttindi þarftu að:
- Sækja um BE réttindi hjá sýslumanni (Umsókn um ökuskírteini - nýr flokkur ).
- Taka fjóra verklega ökutíma hjá ökukennara sem tekur að sér kennslu fyrir BE réttindi.
- Taka verklegt ökupróf hjá Frumherja.
Bíllinn
- Í skráningarskírteini bíls kemur fram hversu þungan eftirvagn viðkomandi bíll má draga. Ekki má draga þyngri eftirvagn en þar er tiltekið. Skráningarskírteini bíls má finna Mínu svæði.
- Eftirvagn sem dreginn er af bíl, hvort sem það er tjaldvagn, fellihýsi, kerra eða hjólhýsi, breytir aksturseiginleikum bílsins. Hann verður þyngri, óstöðugri og vill rása til á veginum.
- Ökumaður sem er á bíl með ABS hemlum og með eftirvagn sem ekki hefur þá hemla þarf að gæta þess að ef er nauðhemlað, þá er hætta á því að vagninn fari ekki sömu leið og bíllinn og getur eftirvagninn jafnvel lagst fram með bílnum.
- Ef eftirvagn er breiðari en ökutækið og hindrar baksýni þarf að framlengja hliðarspegla bílsins báðum megin þannig að ökumaður sjái beggja vegna, aftur með ökutæki og eftirvagni.
Tengibúnaður
- Tengibúnaður bílsins skal skráður í skráningarskírteini. Skráningarskírteini ökutækis má finna Mínu svæði.
- Ef bíll er afhentur frá umboði með tengibúnaði á umboðið að sjá um að skrá hann. Ef tengibúnaðurinn er settur eftir það getur viðurkenndur aðili sem sér um verkið séð um skráninguna. Í öðrum tilfellum þarf fólk að fara með ökutækið á skoðunarstöð, láta taka út tengibúnaðinn og skrá hann.
- Á tengibúnaði bifreiða skal vera merking um framleiðanda og mestu leyfðu heildarþyngd sem tengja má við tengibúnaðinn. Heimilt er að leyfa tengibúnað sem er án merkinga, sem festur hefur verið við bifreið fyrir 01.07.91, en sá tengibúnaður skal samt sem áður að öðru leyti vera háður samþykki skoðunarstofu.
- Nánari upplýsingar má finna í stoðriti skoðunarhandbók ökutækja hvað varðar tengibúnað, merkingar o.fl.
Búnaður eftirvagns
- Skráningarskírteini eftirvagns má finna Mínu svæði en þar má finna upplýsingar og tækniatriði ökutækisins.
- Eftirvagnar sem eru með heildarþyngd yfir 750 kg eiga að vera búnir hemlum.
- Tengibúnaður á að vera traustur, af viðurkenndri gerð og skráður í skráningarskírteini. Öryggiskeðju eða öryggisvír skal alltaf nota.
- Allir eftirvagnar eiga að vera með ljós sem eru hliðstæð aftur- og hliðarljósum bílsins.
- Athugið vel stöðuljós, hemlaljós, stefnuljós, þokuljós, númeraljós og glitaugu áður en lagt er af stað.
Skoðun eftirvagna
- Skoðunarskylda eftirvagna er mismunandi eftir notkunarflokkum en notkunarflokkur er skráður í skráningarskírteini ökutækis. Eigendur ökutækja geta t.d. séð það á Mínu svæði á vef Samgöngustofu.
- Hægt er að lesa nákvæmar upplýsingar um skoðun ökutækja í reglugerð 414/2021.
Flokkur Skilgreining Eftirvagn I (O1) Leyfð heildarþyngd 750 kg eða minna. Eftirvagn II (O2) Leyfð heildarþyngd meiri en 750 kg og mest 3.500 kg. Eftirvagn III (O3) Leyfð heildarþyngd meiri en 3.500 kg og mest 10.000 kg. Eftirvagn IV (O4) Leyfð heildarþyngd meiri en 10.000 kg. - Hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagn sem falla undir flokk eftirvagna I (01) og eftirvagna II (02) skal láta skoða fjórum árum eftir að ökutækið var fyrst skráð, að skráningarárinu frátöldu og þar á eftir á 24 mánaða fresti. Þá skal færa það til reglubundinnar skoðunar í maímánuði á skoðunarári, óháð síðasta tölustaf á skráningarmerki og eru þau skoðuð líkt og þau hafi tölustafinn 5 í endastaf skráningarmerkis. Hafi skoðun ekki farið fram fyrir 1. ágúst leggst vanrækslugjald á þá ferðavagna sem skráðir eru í umferð.
- Eftirvagn II (O2) skal skoðaður fjórum árum eftir að ökutækið var fyrst skráð, að skráningarárinu frátöldu og þar á eftir á 24 mánaða fresti.
- Eftirvagn II (O2) og eftirvagn dráttarvélar I (R1) og II (R2) sem hannaður er til aksturs yfir 40 km á klst. skal færa til reglubundinnar skoðunar innan fjögurra ára eftir að ökutækið var fyrst skráð, að skráningarárinu frátöldu. Síðan á 24 mánaða fresti næstu tvö skipti og eftir það á 12 mánaða fresti.
- Eftirvagn III og IV (O3 og O4) og eftirvagn dráttarvélar III og IV (R3 og R4) sem hannaður er til aksturs yfir 40 km á klst. skal færa til skoðunar í síðasta lagi einu ári eftir fyrstu skráningu ökutækisins og þar eftir á 12 mánaða fresti.
Frekari upplýsingar um skoðun ökutækja má finna hér.
Tryggingar
Þegar ökutæki dregur eftirvagn eða annað tæki er fest við það, telst það vera ein heild og eigandi (umráðamaður) ökutækisins er ekki skaðabótaskyldur ef tjón verður á eftirvagninum eða tækinu, sjá nánar í lögum um ökutækjatryggingar nr. 30/2019 sem tóku gildi 1. janúar 2020.
Eigandi (umráðamaður) ökutækis sem notað er til dráttar er skaðabótaskyldur ef tjón hlýst af þegar það dregur annað ökutæki.
Athugið að til að tryggja eftirvagninn sjálfan þarf að kaskótryggja hann en kaskótrygging ökutækis nær aldrei yfir eftirvagninn sjálfan. Vinsamlegast leitið til tryggingafélaga varðandi sértryggingar fyrir eftirvagna.
Ökuhraði
Samkvæmt umferðarlögum nr. 77/2019 sem tóku gildi þann 1. janúar 2020 er ekki lægri hámarkshraði fyrir ökutæki með eftirvagna eins og áður var. Ökumenn skulu aldrei aka yfir uppgefinn hámarkshraða. Uppgefinn hámarkshraði er alltaf miðaður við bestu mögulegu aðstæður.
Ökuhraði skiptir miklu máli þegar umferðaröryggi er annars vegar. Eftir því sem hraðinn eykst þeim mun lengri verður hemlunarvegalengdin, þar með aukast líkur á að ökumaður nái ekki að stöðva í tæka tíð ef eitthvað óvænt kemur upp á - ekki síst þegar ekið er með eftirvagn.
Að því sögðu þarf þó að hafa í huga að eftirvagn sem dreginn er af bíl, hvort sem það er tjaldvagn, fellihýsi, kerra eða hjólhýsi, breytir aksturseiginleikum bílsins. Hann verður þyngri, óstöðugri og vill rása til á veginum.
Varúðarviðmið vegna vinds
- Vindur getur tekið í og við verstu aðstæður getur eftirvagninn fokið út af veginum ásamt bílnum. Fyrir húsbíla, hjólhýsi, fellihýsi og aðra tengivagna ber að fara sérstaklega varlega ef að stöðugur vindur er 15-19 m/sek en 15-25 m/sek. í vindhviðum.
- Fylgist vel með upplýsingum um veður og færð á vedur.is

Stöðugur vindur | |
15-19 m/sek | Viðvörunarstig 1-2 fyrir húsbíla, hjólhýsi, fellihýsi og aðra tengivagna |
20-23 m/sek | Viðvörunarstig 1 fyrir önnur ökutæki |
24-27 m/sek | Viðvörunarstig 2 fyrir önnur ökutæki |
>28 m/sek | Viðvörunarstig 3 fyrir önnur ökutæki |
Vindhviður | |
15-25 m/sek | Viðvörunarstig 1-3 fyrir húsbíla, hjólhýsi, fellihýsi og aðra tengivagna |
26-29 m/sek | Viðvörunarstig 1 fyrir önnur ökutæki |
30-35 m/sek | Viðvörunarstig 2 fyrir önnur ökutæki |
>30 m/sek | Viðvörunarstig 3 fyrir önnur ökutæki |