Fara beint í efnið

Eftirvagnar

Réttindi

  • Á bakhlið ökuskírteinis má sjá ökuréttindaflokka sem og útgáfudag og lokadag hvers flokks fyrir sig.

  • Ökumenn sem tóku almenn ökuréttindi fyrir 15. ágúst 1997 fengu sjálfkrafa bæði B og BE réttindi. Þeir sem tóku prófið eftir 15. ágúst 1997 fengu eingöngu B réttindi.

  • Þeir sem eingöngu hafa B réttindi geta öðlast BE réttindi með því að sækja um BE réttindi hjá sýslumanni, taka fjóra verklega tíma hjá ökukennara og taka verklegt próf í kjölfarið.

Leyfð heildarþyngd eftir réttindum

B réttindi

  • Leyfð heildarþyngd bíls og eftirvagns mest 3500 kíló

  • Sé eftirvagn 750 kíló eða minna af leyfðri heildarþyngd, má samanlögð heildarþyngd eftirvagns og bíls mest fara upp í 4250 kíló.

BE réttindi

  • Leyfð heildarþyngd bíls mest 3500 kíló

  • Leyfð heildarþyngd eftirvagns mest 3500 kíló

  • Leyfð samanlögð heildarþyngd bíls og eftirvagns mest 7000 kíló

Eftirvagnar - réttindi

Bíllinn

  • Í skráningarskírteini bíls kemur fram hversu þungan eftirvagn bíllinn má draga. Skráningarskírteinið má finna á Mínu svæði.

  • Eftirvagn sem dreginn er af bíl, hvort sem það er tjaldvagn, fellihýsi, kerra eða hjólhýsi, breytir aksturseiginleikum bílsins. Hann verður þyngri, óstöðugri og vill rása til á veginum.

  • Ökumaður sem er á bíl með ABS hemlum og með eftirvagn sem ekki hefur þá hemla þarf að gæta þess að ef er nauðhemlað, þá er hætta á því að vagninn fari ekki sömu leið og bíllinn og getur eftirvagninn jafnvel lagst fram með bílnum.

  • Ef eftirvagn er breiðari en ökutækið og hindrar baksýni þarf að framlengja hliðarspegla bílsins báðum megin þannig að ökumaður sjái beggja vegna, aftur með ökutæki og eftirvagni.

  • Tengibúnaður bílsins skal skráður í skráningarskírteini. Skráningarskírteini ökutækis má finna á Mínu svæði.

Búnaður eftirvagnsins

  • Skráningarskírteini eftirvagns má finna á Mínu svæði en þar má finna upplýsingar og tækniatriði ökutækisins.

  • Eftirvagnar með heildarþyngd yfir 750 kíló eiga að vera búnir hemlum.

  • Tengibúnaður á að vera traustur, af viðurkenndri gerð og skráður í skráningarskírteini. Öryggiskeðju eða öryggisvír skal alltaf nota.

  • Allir eftirvagnar eiga að vera með ljós sem eru hliðstæð aftur- og hliðarljósum bílsins.

  • Athugið vel stöðuljós, hemlaljós, stefnuljós, þokuljós, númeraljós og glitaugu áður en lagt er af stað.

Skoðun eftirvagna

  • Skoðunarskylda og skoðunartíðni eftirvagna er háð ökutækisflokki og notkunarflokki. Hvort tveggja má sjá í skráningarskírteini sem finna má á Mínu svæði.

  • Skoðunarmánuður ferðavagna (hjólhýsa, fellihýsa og tjaldvagna) er í maí óháð skráningarnúmeri. Þannig hafa eigendur maí, júní og júlí til að láta skoða ferðavagninn en 1. ágúst fellur vanrækslugjald á ökutækið.

  • Skoðunarmánuður annarra eftirvagna miðast við endastaf skráningarnúmers eins og gildir um önnur ökutæki. Þannig eru eftirvagnar með 1 í endastaf með janúar sem skoðunarmánuð, 2 í endastaf þýðir að skoðunarmánuður er febrúar, og svo framvegis. Ökutæki með 0 í endastaf skal mæta til skoðunar í október.

  • Eftirvagnar (kerrur), 750 kíló eða minna að leyfðri heildarþyngd, eru ekki skoðunarskyldar nema um sé að ræða hjólhýsi, fellihýsi eða tjaldvagn.

  • Skoðunartíðni eftirvagna er sem hér segir:

    • Ferðavagnar skulu sæta fyrstu skoðun fjórum árum eftir skráningu og á tveggja ára fresti eftir það.

    • Eftirvagnar í flokki II (O2, leyfð heildarþyngd frá 750 kíló að 3.500 kíló) skulu sæta fyrstu skoðun fjórum árum eftir skráningu, á tveggja ára fresti næstu tvö skipti og árlega eftir það.

    • Eftirvagnar í flokki III og IV (O3 og O4, leyfð heildarþyngd yfir 3.500 kíló) skulu sæta árlegri skoðun allt frá skráningu.

Tryggingar

Þegar ökutæki dregur eftirvagn eða annað tæki er fest við það, telst það vera ein heild og eigandi (umráðamaður) ökutækisins er ekki skaðabótaskyldur ef tjón verður á eftirvagninum eða tækinu.

Eigandi (umráðamaður) ökutækis sem notað er til dráttar er skaðabótaskyldur ef tjón hlýst af þegar það dregur annað ökutæki.

Athugið að til að tryggja eftirvagninn sjálfan þarf að kaskótryggja hann en kaskótrygging ökutækis nær aldrei yfir eftirvagninn sjálfan. Vinsamlegast leitið til tryggingafélaga varðandi sértryggingar fyrir eftirvagna.

Ökuhraði

Hámarkshraði fyrir ökutæki með eftirvagna, er ekki lægri, eins og áður var. Ökumenn skulu aldrei aka yfir uppgefinn hámarkshraða. Uppgefinn hámarkshraði er alltaf miðaður við bestu mögulegu aðstæður.

Ökuhraði skiptir miklu máli þegar umferðaröryggi er annars vegar. Eftir því sem hraðinn eykst þeim mun lengri verður hemlunarvegalengdin, þar með aukast líkur á að ökumaður nái ekki að stöðva í tæka tíð ef eitthvað óvænt kemur upp á - ekki síst þegar ekið er með eftirvagn.

Að því sögðu þarf þó að hafa í huga að eftirvagn sem dreginn er af bíl, hvort sem það er tjaldvagn, fellihýsi, kerra eða hjólhýsi, breytir aksturseiginleikum bílsins. Hann verður þyngri, óstöðugri og vill rása til á veginum.

Varúðarviðmið vegna vinds

  • Vindur getur tekið í og við verstu aðstæður getur eftirvagninn fokið út af veginum ásamt bílnum. Fyrir húsbíla, hjólhýsi, fellihýsi og aðra tengivagna ber að fara sérstaklega varlega ef að stöðugur vindur er 15-19 m/sek en 15-25 m/sek. í vindhviðum.

  • Fylgist vel með upplýsingum um veður og færð á vedur.is.

Vindaviðmið fyrir eftirvagna

Stöðugur vindur
15-19 m/sek Viðvörunarstig 1-2 fyrir húsbíla, hjólhýsi, fellihýsi og aðra tengivagna
20-23 m/sek Viðvörunarstig 1 fyrir önnur ökutæki
24-27 m/sek Viðvörunarstig 2 fyrir önnur ökutæki
meira en 28 m/sek Viðvörunarstig 3 fyrir önnur ökutæki

Vindhviður
15-25 m/sek Viðvörunarstig 1-3 fyrir húsbíla, hjólhýsi, fellihýsi og aðra tengivagna
26-29 m/sek Viðvörunarstig 1 fyrir önnur ökutæki
30-35 m/sek Viðvörunarstig 2 fyrir önnur ökutæki
meira en 30 m/sek Viðvörunarstig 3 fyrir önnur ökutæki

Fræðslumynd

Lög og reglur