Lög og reglur um öryggi fatlaðs fólks
Hér að neðan er samantekt laga- og reglugerðarákvæða er varða öryggi fatlaðs fólks í umferðinni
Skilgreining á ökutæki fyrir hreyfihamlaða
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004
05.101 Ökutæki fyrir hreyfihamlaða.
(1) Ökutæki sem er búið þannig að það mæti sérþörfum hreyfihamlaðra til aksturs.
Stýrisbúnaður ökutækja fyrir hreyfihamlaða
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004
05.101 Ökutæki fyrir hreyfihamlaða.
(1) Stýrisbúnaður sem breytt hefur verið þannig að léttara er fyrir ökumann að stjórna ökutækinu skal hafa viðtengt orkuforðabúr. Ef hreyfill ökutækisins stöðvast af ófyrirsjáanlegum orsökum skal orkuforðabúrið gera ökumanni kleift að stýra ökutækinu örugglega þar til það hefur stöðvast.
(2) Stýrisbúnaði ökutækis fyrir hreyfihamlaða má breyta þannig að það henti hreyfihömluðum ökumanni.
Handstýrður aksturshemill ökutækja fyrir hreyfihamlaða
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004
06.101 Ökutæki fyrir hreyfihamlaða.
(1) Bifreið fyrir hreyfihamlaða sem búin er handstýrðum aksturshemli þarf ekki að uppfylla ákvæði liðar 06.10 (2).
06.10 (2) : Ökumaður skal geta beitt aksturshemli, neyðarhemli og stöðuhemli úr sæti sínu. Auk þess skal hann geta beitt aksturshemli án þess að taka hendur af stýri og neyðarhemli með a.m.k. aðra hönd á stýri.
Negldir hjólbarðar ökutækja fyrir hreyfihamlaða
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004
16.101 Ökutæki fyrir hreyfihamlaða.
(1) Hámarksfjöldi nagla í hverjum hjólbarða bifreiðar fyrir hreyfihamlaða má vera 150, óháð stærð hjólbarðans.
Skilgreining á bifreið til að flytja hreyfihamlaða
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004
01.208 Bifreið til að flytja hreyfihamlaða.
(1) Bifreið sem er búin til flutnings á hreyfihömluðu fólki í a.m.k. tveimur hjólastólum.
Aðbúnaður ökumanns og farþega í bifreið til að flytja hreyfihamlaða
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004
08.208 Bifreið til að flytja hreyfihamlaða.
(1) Lofthæð í farþegarými skal vera a.m.k. 1450 mm á öllu svæði sem er 400 mm innan við hliðar.
(2) Hjólastól skal vera hægt að festa í fjórum hornum. Í hverju hjólastólarými skulu vera festingar sem eru niðurfelldar í gólf, a.m.k. tvær festingar aftan við og ein framan við hvern hjólastól. Bil milli festinga skal vera sem næst breidd hjólastóls. Ef notuð er ein festing að framan skal hún vera fyrir miðju. Festingar skulu vera sjálflæsandi krókar eða augu með innanmáli 25 til 30 mm. Aftari festingarnar skulu þola a.m.k. 650 daN átak hvor við átak í 45° halla fram á við. Ef sömu festingar eru notaðar fyrir öryggisbelti skulu þær þola a.m.k. 1400 daN. Tvær festingar að framan skulu þola a.m.k 500 daN hvor við átak í 45° halla aftur, ein festing að framan skal þola 1000 daN.
(3) Festiólar skulu vera a.m.k. 25 mm breiðar og 350 til 700 mm að lengd. Þær skulu þola a.m.k. 500 daN átak. Festiólar skulu vera með viðeigandi festingar fyrir gólffestingar og hjólastóla.
(4) Heimilt er að nota hjólastólafestingar fyrir sæti þegar ekki er verið að flytja hjólastóla.
(5) Þar sem því verður við komið skal vera bakstuðningur og höfuðpúði fyrir hreyfihamlaða farþega sem fluttir eru í bifreiðum í hjólastólum. Neðri brún bakstuðnings skal vera 350-450 mm yfir gólfi, efri brún skal vera a.m.k. 1350 mm yfir gólfi. Breidd skal vera 300-400 mm, halli má ekki vera meiri en 12°. Bakstuðningur með efri öryggisbeltafestingu skal við beltafestingu þola a.m.k. 1350 daN átak, án öryggisbeltafestingar 530 daN á öllu svæðinu.
Inn- og útgangur í bifreið til að flytja hreyfihamlaða
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004
11.208 Bifreið til að flytja hreyfihamlaða.
(1) Hið minnsta skulu vera einar dyr á farþegarými, a.m.k. 1300 mm að hæð og a.m.k. 1000 mm að breidd.
(2) Hið minnsta skulu vera þrír neyðarútgangar, einn á þaki og einn á hvorri hlið. Dyr á afturgafli geta komið í stað neyðarútgangs á hlið. Frá farþegarými skal vera greiður gangur a.m.k. 350 mm að breidd að neyðarútgangi á hvorri hlið. Sömu reglur gilda um neyðarútganga og í hópbifreið, sbr. lið 11.12.
(3) Ef hæð frá jörðu og upp í gólf bifreiðar er meiri en 100 mm skal vera rampi (uppkeyrslubraut) eða lyfta. Rampi skal vera í heilu lagi, halli má eigi vera meiri en 15%, breidd skal vera a.m.k. 800 mm á rampa sem er lengri en 1200 mm skulu vera brúnir a.m.k. 30 mm háar.
(4) Breidd lyftupalls skal vera a.m.k. 800 mm og lengd a.m.k. 1000 mm. Á lyftupalli skal vera búnaður sem varnar því að hjólastóll geti runnið út af pallinum.
Öryggisbúnaður í bifreið til að flytja hreyfihamlaða
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004
24.208 Bifreið til að flytja hreyfihamlaða.(1) Bifreið sem búin er til flutnings á hreyfihömluðum skal búin a.m.k. þriggja festu öryggisbeltum eða öðrum öryggisbúnaði sem hæfir flutningi hins hreyfihamlaða.
(2) Bifreið sem búin er til flutnings á hreyfihömluðum í hjólastólum skal búin a.m.k. þriggja festu öryggisbeltum eða öðrum öryggisbúnaði sem hæfir flutningi hins hreyfihamlaða. Öryggisbeltin skulu fest við yfirbyggingu bifreiðarinnar eða með festingum tengdum yfirbyggingu. Neðri festing öryggisbeltanna skal vera eins og skástrikaða svæðið sem sýnt er á mynd 24.1.
(3) Ef bifreið er útbúin fyrir sérstakan hjólastól skulu festingar vera samkvæmt lið (2) eftir því sem við á.
Farþegasæti fyrir hreyfihamlaða farþega í strætisvagni
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004
08.12 Hópbifreið.
..
(3) Farþegasæti.
a. Í hópbifreið í undirflokki I skulu vera a.m.k. 4 sæti sem frátekin eru fyrir hreyfihamlaða farþega og merkt sem slík. Þau skulu staðsett nærri útgangi og henta vel til inn- og útgöngu. Lágmarksbreidd setu skal vera 440 mm. Hæð að efri brún setu frá gólfi skal vera 400-500 mm.
Skoðun vegna breytingar á ökutæki
Reglugerð um skoðun ökutækja nr. 8/2009
12. gr. Skoðun vegna breytingar á ökutæki.
(Innskot : T.d. við breytingar í „ökutæki fyrir hreyfihamlaða“ eða „bifreið til að flytja hreyfihamlaða“.)
Áður en skráningu ökutækis er breytt vegna breytingar á ökutækinu, skal skoða það sérstaklega til þess að ganga úr skugga um að breytingin sé í samræmi við reglur um gerð og búnað ökutækja.
Ath. Að auki ber að færa þessi ökutæki til reglubundinnar skoðunar líkt og öll önnur. Skoðun fer fram í samræmi við skoðunarhandbók ökutækja, sbr. 15. gr. reglugerðarinnar, en skoðunarhandbókin byggir á þeim kröfum sem fram koma í reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
Heilbrigðiskröfur til ökuréttinda
Reglugerð um ökuskírteini nr. 830/2011
2. gr. Almennt
Enginn má stjórna bifreið, bifhjóli eða öðru vélknúnu ökutæki sem tilgreint er í 6. gr. reglugerðar þessarar nema hann hafi gilt ökuskírteini sem veitir réttindi fyrir ökuréttindaflokk, eftir atvikum, einn eða fleiri. Sýslumaður annast útgáfu ökuskírteinis í umboði ríkislögreglustjóra.
..
Veita má ökuskírteini þeim sem:
1. Uppfyllir lágmarksskilyrði reglugerðar þessarar um andlegt og líkamlegt heilbrigði til að geta stjórnað ökutæki örugglega,
3. gr. Umsókn um ökuskírteini
..
Gögn varðandi umsókn um ökuskírteini:
1. Umsókn um ökuskírteini skal fylgja:
..
b. Læknisvottorð, en þó nægir skrifleg yfirlýsing umsækjanda um heilbrigði þegar sótt er um ökuskírteini fyrir AM-, A1-, A2-, A-, B-, BE- og T-flokk nema sýslumaður telji þörf á læknisvottorði eða umsækjandi sé orðinn 65 ára.
..
Samgöngustofa setur, að höfðu samráði við landlækni, reglur um hvernig skuli meta hvort umsækjandi um ökuskírteini fullnægi skilyrðum í III. viðauka um andlegt og líkamlegt heilbrigði.
Heimilislæknir umsækjanda gefur út læknisvottorð. Gefi annar læknir vottorðið út, skal umsækjandi upplýsa hvers vegna. Læknisvottorð skal ritað á eyðublað sem gert er eftir fyrirmælum landlæknis og má við umsókn ekki vera eldra en þriggja mánaða og við útgáfu ökuskírteinis ekki eldra en 18 mánaða.
4. gr. Könnun sýslumanns
Sýslumaður byggir á heilbrigðisyfirlýsingu eða læknisvottorði við könnun þess hvort umsækjandi fullnægi heilbrigðisskilyrðum. Sýslumaður getur þó krafist þess að frá lækni eða öðrum sérfræðingi verði fengin yfirlýsing eða ítarlegri upplýsingar, svo og að umsækjandi að öðru leyti taki þátt í læknisfræðilegri rannsókn til að skorið verði úr um hvort gefa megi út ökuskírteini eða það skuli skilyrt á einhvern hátt. Í því sambandi getur sýslumaður krafist þess að umsækjandi þreyti próf í aksturshæfni skv. 15. gr. Umsækjandi ber kostnað af læknisfræðilegri rannsókn, gagnaöflun og prófi samkvæmt þessari grein.
I. VIÐAUKI, Kafli III – Tákntala í ökuskírteini.
Með tákntölu eru tilgreindar viðbótarupplýsingar, skilyrði og takmarkanir sem varða ökuréttindi. Vísast nánar til kaflans í viðaukanum þar sem tákntölurnar eru listaðar upp.
III. VIÐAUKI - Lágmarkskröfur um andlega og líkamlega hæfni til að stjórna vélknúnu ökutæki.
Vísast nánar til viðaukans hvað kröfurnar varðar.
Ökutæki sem notað er við kennslu og verkleg próf
Reglugerð um ökuskírteini nr. 830/20118. gr. Ökutæki sem notað er við kennslu og verklegt próf
C. Notkun bifreiðar, sem sérstaklega er búin fyrir hreyfihamlaðan ökumann.
Bifreið, sem sérstaklega er búin fyrir hreyfihamlaðan ökumann, má eigandi/umráðamaður nota við æfingaakstur með ökukennara og við verklegt próf að fengnu samþykki Samgöngustofu. Um hemla og spegla gildir hið sama og fyrir B-flokk. Ef bifreiðin er með handstýrðum hemlabúnaði til að nota með hægri hendi fellur brott áskilnaður um hemlafetil við sæti ökukennara ef einnig er unnt án erfiðleika að nota handstýrða hemlabúnaðinn úr sæti ökukennarans.
Takmörkun og afturköllun ökuréttinda
Reglugerð um ökuskírteini nr. 830/201121. gr. Takmörkun ökuréttinda
Gefa má út ökuskírteini til styttri tíma en gildir skv. 22. gr. Einnig má takmarka ökuréttindi við ökutæki af sérstakri gerð eða með sérstökum búnaði, ef nauðsyn krefur, fyrir líkamlega fatlaðan umsækjanda eða ökumann, sbr. lið 8.1. í III. viðauka, eða takmarka útgáfuna með öðrum hætti til að auka öryggi í akstri. Takmörkun skal færa á ökuskírteini sem tákntölu skv. I. viðauka.
26. gr. Afturköllun ökuréttinda af heilbrigðisástæðum.
Hafi sýslumaður eða lögreglan sérstaka ástæðu til að ætla að skírteinishafi fullnægi ekki lengur skilyrðum varðandi heilbrigði, eiga ákvæði 4. gr. við um athugun þess. Að fenginni niðurstöðu slíkrar athugunar, tekur sýslumaður ákvörðun um hvort afturkalla skuli ökuréttindin skv. 53. gr. umferðarlaga. Sama gildir ef skírteinishafi neitar að taka þátt í slíkri athugun.
Ákveði sýslumaður eftir að athugun hefur farið fram að ökuréttindin skuli takmörkuð, skal nýtt ökuskírteini gefið út.
27. gr. Afturköllun ökuréttinda vegna skorts á aksturshæfni.
Telji sýslumaður vafa leika á um hvort aksturshæfni skírteinishafa sé fullnægjandi, getur hann ákveðið að skírteinishafi þreyti próf í aksturshæfni skv. 15. gr., eftir því sem sýslumaður ákveður, fyrir B-flokk eða tiltekinn réttindaflokk eða flokka sem skírteinishafi hefur. Neiti skírteinishafi að þreyta próf, getur sýslumaður afturkallað ökuréttindi hans skv. 53. gr. umferðarlaga. Sama gildir, standist skírteinishafi ekki próf.
Undanþága frá notkun öryggisbeltis og öryggisbúnaðar fyrir börn
Reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum nr. 348/2007
5. gr. Undanþága frá notkun öryggisbeltis.
Ekki er skylt að nota öryggisbelti í ökutæki í eftirfarandi tilvikum:
..
f. Þegar heilsufars- eða læknisfræðilegar ástæður valda því að ökumaður eða farþegi ökutækis er undanþeginn notkun öryggisbeltis á grundvelli læknisvottorðs. Læknisvottorði skal framvísað sé þess óskað.
6. gr. Öryggi barna í ökutækjum.
..
Heimilt er að víkja frá kröfum 1.-5. mgr.
(innsk: þ.e. skyldu barna til að nota viðurkenndan öryggis- og verndarbúnað) þegar heilsufars- eða læknisfræðilegar ástæður krefjast þess. Skal slíkt einungis gert á grundvelli læknisvottorðs viðkomandi barns og skal vottorðinu framvísað sé þess óskað.
Almennar kröfur samkvæmt umferðarlögum
48. gr. Enginn má stjórna bifreið eða bifhjóli nema hann hafi til þess gilt ökuskírteini sem ríkislögreglustjórinn gefur út. Ökumaður skal hafa skírteinið meðferðis við akstur og sýna það, er löggæslumaður krefst þess. Ríkislögreglustjórinn getur falið sýslumönnum og lögreglustjórum að annast útgáfu ökuskírteina.
53. gr. Útgefandi ökuréttinda getur afturkallað ökuréttindi, ef hlutaðeigandi fullnægir ekki lengur skilyrðum til að öðlast ökuskírteini. Nú neitar hlutaðeigandi að taka þátt í rannsókn eða prófi, sem nauðsynlegt er til ákvörðunar þessarar, og getur útgefandi ökuréttinda þá afturkallað ökuréttindin þegar í stað.
59. gr. Ökutæki skal svo gert og því haldið í þannig ástandi að nota megi án þess að af því leiði hættu eða óþægindi fyrir aðra eða skemmd á vegi.
Eigandi eða umráðamaður ber ábyrgð á, að ökutæki sé í lögmæltu ástandi.
Ökumaður skal gæta þess, að ökutæki sé í góðu ástandi. Sérstaklega skal þess gætt, að stýrisbúnaður, hemlar, merkjatæki og ljósabúnaður séu í lögmæltu ástandi og virki örugglega. Sama á við um eftirvagn og tengitæki, svo og tengingu þeirra og tengibúnað. Verði starfsmaður verkstæðis þess var að öryggisbúnaði vélknúins ökutækis sem þar er til viðgerðar eða breytinga sé áfátt skal hann skýra yfirmanni verkstæðisins frá því. Skal yfirmaður verkstæðis gera eiganda ökutækisins viðvart og tilkynna til lögreglu, verði eigi úr bætt.
68. gr. Lögreglu er heimilt hvenær sem er að stöðva ökutæki og skoða ástand þess og hleðslu. Henni er einnig heimilt að skoða upplýsingar sem varðveittar eru í ökurita ökutækis, á ökuritakorti eða með öðrum hætti. Reynist ökutæki ekki vera í lögmæltu ástandi má krefjast þess að það skuli fært til sérstakrar skoðunar.