Sektir og refsipunktar

Í reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim má finna skrá yfir tegundir brota og sektarfjárhæðir með tilvísun í lagagreinar. Sektarreiknir sem áður var á síðu Samgöngustofu er ekki lengur til staðar en þess í stað bendum við á sektarreikni lögreglunnar.

Ákvörðun um sektir og sakarkostnað

Ákvörðun um að leggja á sekt eða sakarkostnað er einvörðungu í höndum lögreglustjóra eða dómstóla. Lögreglustjóra ber að veita sakborningi 25% afslátt af sektarfjárhæð vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim sem ákveðin er í lögreglustjórasekt, ef sakborningur greiðir sektina ásamt sakarkostnaði að fullu innan 30 daga frá dagsetningu sektar á vettvangi, sektarboðs eða undirritun sektargerðar sem sakborningur hefur gengist skriflega undir. Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar annast innheimtu álagðra sekta og sakarkostnaðar fyrir landið allt.

Sektarreiknir

Á vef lögreglunnar má finna sektarreikni þar sem hægt er að sjá með auðveldum hætti sektarfjárhæðir umferðarlagabrota með tilvísun í lagagreinar og upplýsingar um fjölda refsipunkta sem færast á ökuferilsskrá.

Ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota

Samkvæmt reglugerð um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota eru þeir sem gerast brotlegir í umferðinni dæmdir í sektir og safna refsipunktum í ökuferilsskrá sína.

Punktakerfi vegna umferðarlagabrota
Ríkislögreglustjóri skal halda landsskrá um ökuferil ökumanna og punkta sem þeir hafa hlotið vegna umferðarlagabrota. Refsipunktar eru 1-4 eftir alvarleika brots. Ef 12 punktar safnast á þremur árum eða skemmri tíma missir ökumaður ökuréttindi í þrjá mánuði. Refsipunktar fyrir brot fyrnast á þremur árum. Við útsendingu sektartilkynningar er tekið fram hvort brotið leiði til refsipunkta og þá hversu margra. Einnig er tilgreint hversu marga punkta í heild ökumaðurinn hefur fengið. Við stórfelldan eða ítrekaðan ölvunarakstur, hraðakstur eða akstur án ökuréttinda má gera ökutæki upptækt.

Bráðabirgðaskírteini
Byrjandi með bráðabirgðaskírteini hlýtur akstursbann eftir fjóra refsipunkta sem gildir þar til viðkomandi hefur sótt sérstakt námskeið og tekið ökupróf að nýju. Ökumaður með bráðabirgðaskírteini skal sviptur ökurétti í þrjá mánuði þegar hann hefur hlotið samtals sjö punkta. Svipting ökuréttar kemur til viðbótar þeim viðurlögum sem liggja við síðasta broti ökumanns og ökumaður þarf að sækja sérstakt námskeið og taka ökupróf að nýju. Refsipunktar fyrir brot fyrnast á þremur árum.

Svipting og endurveiting

Sá sem sviptur hefur verið ökuréttindum í lengri tíma en eitt ár öðlast ekki ökuréttindi að nýju að loknum sviptingartíma nema hann standist ökupróf að nýju.

Hann þarf einnig að standast verklegt próf fyrir alla flokka sem hann er með í ökuskírteininu. Þannig þarf jafnvel að taka verklegt próf fyrir bifhjól, vörubifreið og hópbifreið ef um slík réttindi er að ræða. Undirbúningur og próf mega fara fram allt að einum mánuði áður en svipting rennur út.

HöfuðborgarsvæðiðSýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, Hlíðasmára 1, 201 Kópavogi
Á landsbyggðinniViðkomandi sýslumannsembætti

Endurveiting ökuréttar

Ríkislögreglustjóri getur heimilað endurveitingu ökuréttar í tilvikum þar sem um er að ræða lengri sviptingu en þrjú ár eða ævilangt. Hafi maður verið sviptur ökurétti ævilangt má þó eigi veita ökurétt að nýju fyrr en svipting hefur staðið í fimm ár.

Lögreglustjórar annast framkvæmd endurveitinga í umboði Ríkislögreglustjóra.

Sektarreiknir

Á vef lögreglunnar má finna sektarreikni þar sem hægt er að sjá með auðveldum hætti sektarfjárhæðir umferðarlagabrota með tilvísun í lagagreinar og upplýsingar um fjölda refsipunkta sem færast á ökuferilsskrá.


Var efnið hjálplegt? Nei