Flugvernd
Samgöngustofa fer með stjórnsýslu og eftirlit með flugvernd og veitir auk þess starfsleyfi og samþykki vegna flugverndar en flugvernd er sambland af ráðstöfunum, mannlegum og náttúrulegum úrræðum til að vernda almenningsflug gegn ólöglegum aðgerðum.
Markmið flugverndar í almenningsflugi er að stuðla að auknu öryggi farþega, áhafna, starfsfólks flugvalla og almennings með viðeigandi flugverndarráðstöfunum. Kröfur eru um verndarráðstafanir á flugvöllum, hjá veitendum flugleiðsöguþjónustu og flæðisstjórnun flugumferðar, hjá flugrekendum sem sinna millilandaflugi með farþega, farm og póst, flugafgreiðsluaðilum, birgjum o.fl.
Til að ná markmiði flugverndar skal Samgöngustofa viðhafa eftirlit með aðilum sem sjá um framkvæmd flugverndarrástafana, þar með talið rekstraraðila flugvalla, flugleiðsöguþjónustuveitendum, flugrekendum, flugafgreiðsluaðilum, viðurkenndum umboðsaðilum, þekktum sendendum o.fl. Markmið eftirlitsins er að tryggja að kröfur flugverndar séu innleiddar og framkvæmdar í samræmi við kröfur.
Helstu verkefni flugverndar
- Uppfærsla reglugerða um flugvernd.
- Móta, koma á og viðhalda flugverndaráætlun Íslands.
- Samþykkja flugverndaráætlanir aðila sem sjá um framkvæmd flugverndar.
- Móta, koma á og viðhalda þjálfunaráætlun Íslands vegna flugverndar.
- Eftirlit með aðilum sem sjá um framkvæmd flugverndar skv. gæðakerfi Samgöngustofu.
- Erlend samskipti vegna flugverndarmála, m.a. við flugmálayfirvöld annarra ríkja, erlenda flugrekendur, Alþjóða flugmálastofnunina - ICAO, Samtök Evrópskra flugmálayfirvalda - ECAC, Evrópusambandið, Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins - EASA.
- Svara fyrir eftirlit erlendra stofnana á sviði flugverndar, þ. á. m. á vegum eftirlitsstofnunar EFTA - ESA og Alþjóða flugmálastofnunarinnar – ICAO.
- Almenn og sértæk leiðbeiningaskylda vegna flugverndar og flugverndarráðstafana.
Eftirtaldir aðilar sem sinna millilandaflugi eru skyldugir til að sækja um samþykki vegna flugverndar til Samgöngustofu:
- Flugvellir
- Flugrekendur
- Viðurkenndir umboðsaðilar
- Þekktir sendendur
- Viðurkenndir birgjar birgða til notkunar um borð í loftförum;
- Flugafgreiðsluaðilar
Eftirlitsskyldir aðilar eru þeir aðilar sem sækja þurfa um samþykki vegna flugverndar en einnig þjónustuaðilar sem sinna framkvæmd flugverndarráðstafana í millilandaflugi, t.d., birgjar, aðilar sem sjá um ræstingu o.fl. Stofnunin veitir upplýsingar um eftirlitsskylda aðila.