Öryggi bifhjólamanna
Hér er ætlunin að fara yfir þann öryggisbúnað sem almennt á við um akstur bifhjóla og jafnframt er gerð grein fyrir hvaða búnaður á við um ólíkar tegundir bifhjóla og aksturs.
Nota þarf ólíkan öryggisbúnað og hlífðarfatnað eftir því hvers eðlis akstur hjólsins er.
Til eru margar gerðir bifhjóla og notkun þeirra býður upp á ýmsar ólíkar tegundir íþrótta og afþreyingar allt eftir því hvernig hjól er verið að nota.
Fyrir utan þá vernd sem viðurkenndur hjálmur, hlífðarfatnaður og annar verndarbúnaður veitir er ökumaður bifhjóls nánast óvarinn ef hann lendir í árekstri.
Á bifhjóli má ekki vera með farþega nema ökumaður sé 20 ára eða eldri. Í þeim tilfellum er það aðeins heimilt ef framleiðandi staðfestir að hjólið sé gert fyrir farþega. Farþeginn verður þá að sitja fyrir aftan ökumanninn. Barn, sjö ára eða yngra, sem er farþegi á bifhjóli, skal sitja í sérstöku sæti því ætluðu. Ef á hjólinu er sæti fyrir farþega skal það einnig búið fóthvílum fyrir farþega. Á bifhjóli og hliðarvagni þess má ekki flytja fleiri farþega en ökutækið er ætlað til.
Upplýsingar um létt bifhjól í flokki I og II
Ökuréttindi fyrir bifhjól
Þann 21. janúar 2013 tóku gildi breytingar á reglum er lúta að bifhjólum.
Flokkur Tákntala | Ökuréttindi |
---|---|
AM | Veitir rétt til að stjórna: léttu bifhjóli á tveimur eða þremur hjólum, með vélarstærð ekki yfir 50cc ekki hannað fyrir meiri hraða en 45 km. |
A1 (A72) | Veitir rétt til að stjórna: bifhjóli á tveimur hjólum, með eða án hliðarvagns með slagrými sem er ekki yfir 125 sm³, með afl sem er ekki yfir 11 kW og með afl/þyngdar-hlutfall sem er ekki yfir 0,1 kW/kg, einnig bifhjóli á þremur hjólum með afl sem er ekki yfir 15 kW, réttindi í AM-flokki fylgir. |
A2 | Veitir rétt til að stjórna: bifhjóli, en undir það flokkast:
|
A | Veitir rétt til að stjórna: bifhjóli, en undir það flokkast
|
Öryggisbúnaður fyrir allar tegundir bifhjóla:
1. Ljós
Það er alveg sama hvaða hjóli er ekið úti í almennri umferð - það á að nota ljós og þ.m.t. stefnuljós. Gæta skal að því að ljósin séu kveikt.
2. Hjálmur
Gæta ber að því að hjálmurinn passi vel og að hann hafi ekki orðið fyrir hnjaski. Framleiðendur hjálma tala yfirleitt um að endingartími hjálma sé fimm ár. Eftir það má búast við að þeir veiti ekki fullkomlega þá vörn sem til er ætlast. Jafnframt skal gæta þess að hjálmarnir séu samkvæmt ECE 22.05 staðli.
3. Hlífðarfatnaður
Þarf að vera slitsterkur og inni í fatnaðinum eða innan undir honum þurfa að vera svokallaðar brynjur sem geta dregið mjög úr höggi og alvarlegum meiðslum. Hlífðarfatnaður og hlífar skulu vera CE merktar samkvæmt eftirfarandi stöðlum eða sambærilegum:
- Jakkar, buxur og samfestingar - CE EN 13595
- Bakhlífar - CE EN 1621
4. Hanskar
Svonefndir vetrarhanskar henta yfirleitt vel á Íslandi þótt algengast sé að mótorhjólum sé ekið yfir sumartímann. Þeir þurfa helst að vera með góðri hlíf yfir hnúana. Gæta skal þess að hanskarnir séu samkvæmt CE EN 13594 staðli.
5. Skór og stígvél
Þurfa að vera með stífum ökkla til að minnka líkur á ökklabroti. Gæta skal þess að skórnir eða stígvélin séu samkvæmt CE EN 13634 staðli.
6. Hlífðargleraugu
Geta verið mjög gagnleg þar sem þau veita skjól gegn ryki og skordýrum sem geta valdið skaða á augum. Jafnframt virka mörg slík gleraugu eins og sólgleraugu en þau geta aukið öryggi til muna þegar sól er lágt á loft. Gæta skal þess að hlífðargleraugun séu samkvæmt CE EN 1938 staðli.
7. Hálskragi
Getur hlíft ökumanni við viðbeinsbroti auk þess sem hann dregur úr kælingu. Hálskraginn dregur einnig úr þreytu í hálsvöðvum.
8. Nýrnabelti
Draga úr alvarlegum meiðslum og skemmdum á líffærum, þá helst nýrum. Skemmdir á nýrum geta helst orðið við akstur mótorkross hjóla en þó er einnig mælt með notkun nýrnabelta við akstur annarra tegunda mótorhjóla. Beltin veita jafnframt stuðning við bakið og henta því vel, þeim sem stríða við bakmeiðsli.
9. Að sjást
Bifhjólamenn geta sést illa jafnvel að degi til. Því skulu hjálmar og hlífðarfatnaður vera í áberandi litum eða með endurskini.
10. Hjólbarðar
Þurfa að hafa eins mikið veggrip og mögulegt er. Í þeim kulda sem oft er við akstur á íslenskum vegum getur í mörgum tilfellum borgað sig að hafa loftþrýstingin allt að 2 pundum undir því sem mælt er með af framleiðanda hjólsins. Ef hjólbarðarnir eru of stífir er hætta á að veggrip þeirra skerðist mikið.
Myndbönd
Í þessum myndböndum er fjallað um þær hættur sem geta skapast í umferðinni milli bifhjóla og bíla og önnur atriði sem gott er fyrir bifhjólamenn að hafa í huga.
Fræðslumynd um létt bifhjól í flokki I með íslensku tali og texta, enskum texta og pólskum texta.