Öryggisbúnaður

Þótt hjólreiðar séu án efa einn öruggasti og heilsusamlegasti ferðamáti sem hugsast getur þá er mikilvægt að huga vel að öryggi hjólreiðamanna

Hjólandi vegfarandi þarf að vera vel sýnilegur og það borgar sig að vera sem mest í sjónsviði annarra vegfarenda. Mikilvægt er að vera með öflug og góð ljós. Hvítt að framan og rautt að aftan. Skylt er að vera með ljós þegar skyggja tekur og gæta þarf þess að þau séu rétt stillt.

Endurskin á að vera á hjólinu, bæði að framan og aftan, á fótstigum og í teinum. Einnig skal hjólreiðamaður vera með bjöllu svo hægt sé að vara aðra vegfarendur við.

Endurskinsvesti eða föt í áberandi litum auka sýnileika og því er mælt með þeim.

Bremsur á hjólum eru mjög mikilvægar og því borgar sig að athuga ástand þeirra reglulega. Athuga þarf einnig dekk, drifbúnað og annað mikilvægt á hjólinu og vera þess fullviss að það sé í lagi.

Hjálmar

Börnum yngri en 16 ára ber samkvæmt lögum að nota hlífðarhjálm við hjólreiðar.

  • Hjálmurinn skal sitja rétt - ekki of aftarlega.
  • Hjálmurinn skal sitja þétt svo hann hvorki detti af né skekkist þegar á reynir.
  • Böndin eiga að vera rétt stillt. Aftara bandið skal stillt á móti fremra bandinu, þannig að eyrað lendi í miðju V-forminu sem böndin mynda.
  • Hvorki má líma merki á hjálminn né mála hann, þá getur höggþolið minnkað.
  • Hjálminn má aðeins hreinsa með vatni og sápu - ekki með uppleysandi efnum, ss. þynni, bensíni o.s.frv.
  • Hjálminn á ekki að nota í leiktækjum.
  • Hjálmurinn skal vera CE merktur (nánar hér á vef Neytendastofu). 
  • Framleiðendum reiðhjólahjálma ber að tilgreina endingu hjálms í notendaleiðbeiningum og kemur framleiðsludagur fram á límmiða innan í hjálminum. Oft er miðað við fimm ár frá framleiðsludegi en þrjú ár frá söludegi. 

Barn yngra en 16 ára skal nota hlífðarhjálm við hjólreiðar og hjálmurinn þarf að vera í réttri stærð og rétt stilltur. Mælt er með að fullorðnir noti einnig hjálm enda mikilvægur öryggisbúnaður.

Skyldubúnaður reiðhjóla

Hér má sjá yfirlit yfir þann búnað sem skal vera á reiðhjóli í umferð.

  • Bremsur í lagi á fram- og afturhjóli.
  • Bjalla - ekki má nota annan hljóðmerkjabúnað.
  • Ljós að framan - hvítt eða gult (ef hjólað er í myrkri eða skertu skyggni).
  • Rautt ljós að aftan (ef hjólað er í myrkri eða skertu skyggni).
  • Þrístrennd glitaugu - rauð að aftan og hvít að framan.
  • Keðjuhlíf - til varnar því að fatnaður festist í keðjunni.
  • Teinaglit í teinum.
  • Glitaugu á fótstigum.
  • Lás.

Einnig er gott að vera með standara á hjólinu.


Áfengi og símanotkun

Áfengi og hjólreiðar eiga enga samleið frekar en áfengi og akstur enda bannað með lögum. Símanotkun á hjóli er bönnuð samkvæmt lögum. Stöðva ber hjólið áður en síminn er notaður.  


Var efnið hjálplegt? Nei