Létt bifhjól í flokki II

(≤ 45km/klst)

Létt bifhjól í flokki II, oft kallaðar skellinöðrur, eru vélknúin ökutæki á tveimur eða þremur hjólum sem ná ekki meiri hraða en 45 km/klst.

Létt bifhjól í flokki II, oft kallaðar skellinöðrur, eru vélknúin ökutæki á tveimur eða þremur hjólum sem ná ekki meiri hraða en 45 km/klst. Til þess að aka þeim þarf ökumaður að vera orðinn 15 ára og að vera með ökupróf – B-réttindi eða AM-réttindi. 

Skráning

Ný létt bifhjól í flokki II, oft kallaðar skellinöðrur, eru yfirleitt skráð beint af söluaðila og afhendast skráð og skoðuð. Þau fara í gegnum ferli varðandi forskráningu ökutækja og fylla þarf út eyðublað og skila því inn ásamt viðeigandi gögnum. Ekki er hægt að skrá þau rafrænt.

Spurt og svarað um létt bifhjól í flokki II 

Hvernig hjól eru þetta?

Létt bifhjól í flokki II eru vélknúin ökutæki á tveimur eða þremur hjólum sem ná ekki meiri hraða en 45 km/klst.

Fellur bifhjólið í flokk I eða II?

  • Til að skilgreina megi hvort létt bifhjól falli í flokk I eða II þurfa skráningargögn frá framleiðanda um að hjólið sé ekki hannað til hraðri aksturs en 25 km klst. að liggja fyrir.
  • Létt bifhjól í flokki I þurfa að uppfylla öll þau sömu skilyrði og létt bifhjól í flokki II. Eini munurinn er að létt bifhjól í flokki II eru gerð fyrir hámarkshraða á bilinu 26-45 km á klst., en létt bifhjól í flokki I fyrir hámarkshraða að hámarki 25 km á klst.
  • Ef ætlunin er að flytja inn létt bifhjól í flokki I utan EES-svæðisins þar sem notast er við mælieininguna mílur á klst., en ekki km á klst þarf að umbreyta mílum yfir í kílómetra til að sjá með hvort hámarskshraði sé ekki meiri en 25 km á klst.

Hver eru aldursmörkin?

Ökumaður þarf að vera orðinn 15 ára.

Þarf einhver réttindi?

Já, ökumaður þarf að vera með ökupróf – B-réttindi eða AM-réttindi.

Hvað má fara hratt?

Hjólið er ekki hannað til hraðari aksturs en 45 km/klst.

Hvar má aka?

Á akbrautum.

Hvar má ekki aka?

Ekki má aka á stígum – hvorki gangstéttum, gangstígum né hjólreiðastígum.

Má aka með farþega?

Ökumaður þarf að vera orðinn 20 ára eða eldri til þess að vera með farþega. Í þeim tilfellum er það aðeins heimilt ef framleiðandi staðfestir að hjólið sé gert fyrir farþega. Farþeginn verður þá að sitja fyrir aftan ökumanninn. Barn sjö ára eða yngra, sem er farþegi á bifhjóli, skal sitja í sérstöku sæti því ætluðu. Barn eldra en sjö ára verður að ná með fætur niður að fóthvílum bifhjóls, annars þarf það að vera í sérstöku sæti.

Þarf að vera með hjálm?

Já, skylt er að nota viðurkenndan hlífðarhjálm ætlaðan til slíkra nota.

Þarf tryggingar?

Já, létt bifhjól í flokki II er tryggingaskylt.

Eru þau skráningarskyld?

Já, létt bifhjól í flokki II er skráningarskylt. Auðkennd með bláum númeraplötum.

Þarf að vera með hjálm eða í hlífðarfatnaði?

Já, skylt er að vera með bifhjólahjálm og nota skal viðurkenndan lágmarks hlífðarfatnað ætlaðan til aksturs á bifhjóli.


Var efnið hjálplegt? Nei