Endurskin
Í myrkri sjást óvarðir vegfarendur (gangandi, hjólandi) illa þrátt fyrir götulýsingu og ökuljós bifreiða og er notkun endurskinsmerkja þess vegna nauðsynleg
Endurskinsmerkin eiga að vera sýnileg og er best að hafa þau á eftirfarandi stöðum:
- Fremst á ermum
- Hangandi meðfram hliðum
- Á skóm eða neðarlega á buxnaskálmum
Þá virkar endurskin eins og blikkljós þegar ljós skín á þau. Því fyrr og betur sem ökumenn greina óvarða vegfarendur þeim mun minni líkur eru á að slys verði. Það er staðreynd að ökumenn sjá óvarða vegfarendur með endurskin fimm sinnum fyrr en ella og því getur notkun endurskinsmerkja skilið milli lífs og dauða.
Endurskin fyrir alla
Allir ættu að finna endurskin við hæfi en til eru margar gerðir og stærðir þ.m.t. endurskinsvesti, límmerki, barmmerki eða hangandi endurskinsmerki. Á mörgum skólatöskum eru endurskinsmerki og eins er gott að líma endurskin á barnavagna, sleða, bakpoka og skíðastafi.
Fullorðnir eiga að sjálfsögðu að vera fyrirmyndir barna og vera með endurskinsmerki á sínum flíkum. Nauðsynlegt er fyrir skokkara að vera í endurskinsvestum eða með gott endurskin á æfingafatnaði þegar æft er utandyra.
Endurskinsmerki er einnig hægt að líma á hunda- og kattaólar og sjálfsagt er að bregða endurskinsborðum um fætur hesta þegar farið er í reiðtúr.
Sölu- og dreifingaraðilar endurskinsmerkja
Endilega sendið okkur ábendingu á netfangið fraedsla@samgongustofa.is
Hægt er að fá endurskinsmerki á eftirfarandi stöðum:
A4 |
ADHD samtökunum |
Ástund |
Boett Iceland |
BYKO |
Dynjandi |
Dýrabær |
Endurskin.is |
Epal í Hörpu |
FB sport |
Fjarðarkaup |
Funshine |
Heimkaup |
Húsasmiðjan |
Iceland |
Íslandía í Kringlunni og Bankastræti |
Kaupfélag Borgfirðinga |
Krabbameinsfélaginu |
Lyfjaver |
Lyfju |
MI búðin |
Múrbúðin |
N1 |
Nettó |
Norsk pöntunarsíða |
Penninn Eymundsson |
RAMBA store |
Rúmfatalagernum |
Samgöngustofu |
Sjóvá |
Slysavarnafélaginu Landsbjörg |
Sportval |
TM |
UN WOMAN - Fokk ofbeldi húfan 2019 |
VASKUR |
Verkfærasalan |
Versluninni Álafoss í Mosfellsdal |
Viltu.is |
VÍS |
Þjóðminjasafninu |
Endurskinsmerkjum er enn fremur oft dreift af fyrirtækjum, félagasamtökum og íþróttafélögum. Líklegt er að til séu endurskinsmerki í skúffum og skápum á flestum heimilum og þá er um að gera að nota þau merki, enda gera þau lítið gagn ef þau eru ekki notuð.
Gæði endurskinsmerkja
Miklu máli skiptir að skoða endurskinsmerkin áður en þau eru keypt en þau þurfa að vera með CE-merkingu með nafni framleiðanda (eða heiti vörunnar). Ennfremur þarf númer staðalsins að koma fram á merkinu (EN 13356) og að lokum eiga að fylgja með því notkunarleiðbeiningar. Markaðseftirlit með endurskinsmerkjum er í höndum Neytendastofu.