Endurnýjun á ökuskírteini

Almenn ökuréttindi (B réttindi) þarf að endurnýja við 70 ára aldur. Nýja ökuskírteinið gildir í 4 ár. Eftir það þarf að endurnýja það þriðja og annað hvert ár en eftir 80 ára aldur á árs fresti.

Aldur umsækjanda Gildistími
65 ára 5 ár
70 ára 4 ár
71 árs 3 ár
72 ára 2 ár
80 ára eða eldri 1 ár

Ekki gleyma að endurnýja!
Ef meira en tvö ár líða frá því að ökuréttindi renna úr gildi verður að taka próf í aksturshæfni áður en réttindin fást endurnýjuð.

Einblöðungur, bæklingur fyrir eldri ökumenn Baeklingur_eldriokumenn

Bæklingur gefinn út af LEB og Samgöngustofu

Aksturefriar

Umsóknareyðublað - endurnýjun ökuskírteinis

Umsóknareyðublað má finna hjá sýslumanni og hér: www.logreglan.is/adstod/eydublod/okuskirteini/

Umsókn skal skila inn til sýslumanns sem kannar hvort skilyrði til útgáfu ökuskírteinis eru fyrir hendi. (Athugið að ljósmynd í stærð 3.5 x 4,5 þarf í flestum tilvikum að fylgja umsókn við fyrstu endurnýjun á almennum ökuréttindum).

Umsækjendur sem eru 65 ára eða eldri

Ef umsækjandi er orðinn 65 ára eða eldri þarf að framvísa læknisvottorði frá heimilislækni þegar sótt er um endurnýjun á almennum ökuréttindum (B). Vottorðið má við umsókn ekki vera eldra en þriggja mánaða.

Heimilislæknir athugar meðal annars sjón, heyrn og hreyfigetu ásamt öðru sem getur haft áhrif á aksturshæfni. Sú staða getur komið upp að læknirinn vilji ráðfæra sig við aðra lækna eða fagfólk eða ráðleggi að ekki skuli endurnýja ökuskírteinið.

Próf í aksturshæfni

Lögreglustjóri getur ákveðið að fara skuli fram próf í aksturshæfni. Sú athugun er ekki venjulegt ökupróf heldur athugun á öryggi í umferðinni þar sem prófdómari fer með umsækjanda í stutta ökuferð.

Prófdómari skilar niðurstöðu í formi umsagnar til sýslumanns um að ökuskírteinið skuli:
• Endurnýjað óbreytt
• Endurnýjað með einhverjum skilyrðum (takmörkunum með tákntölum)
• Endurnýjað eftir að umsækjandi stenst próf í aksturshæfni
• Ekki endurnýjað

Réttindi á sjálfskiptan bíl

Nú er frjálst val um það hvort próf sé tekið á sjálfskipta eða beinskipta bifreið. Sé próf tekið á sjálfskipta bifreið verða ökuréttindin takmörkuð við bifreið með sjálfskiptingu. Hægt er að afmá þessa takmörkun síðar, sé þess óskað, og þarf þá að standast próf í aksturshæfni á beinskipta bifreið.

Takmörkun ökuréttinda

Gefa má út ökuskírteini til styttri tíma en fram kemur hér á undan. Einnig má takmarka ökuréttindi við ökutæki af sérstakri gerð eða með sérstökum búnaði, ef nauðsyn krefur, til að auka öryggi í akstri. Takmörkun kemur þá fram á ökuskírteini með sérstakri tákntölu.

Dæmi um þætti sem fylgja oft hækkandi aldri og geta haft áhrif á akstur

  • Viðbragðstími lengri og hreyfingar hægari
  • Erfiðara að skynja hraða og fjarlægð
  • Sjón og heyrn skerðist
  • Hreyfigeta minnkar og stirðleiki eykst
  • Erfiðara að muna, sérstaklega nýleg atriði
  • Inntaka lyfja sem eru merkt með rauðum þríhyrningi

Góð ráð fyrir eldri ökumenn

  • Veldu þér tíma til að aka. Forðastu að aka á álagstíma, í ljósaskiptum eða myrkri, hálku eða slæmu veðri.
  • Veldu öruggar leiðir sem þú þekkir. Forðastu t.d. erfið og snúin gatnamót.
  • Veldu bíl sem hentar þér og þínum aðstæðum, með góðu útsýni til allra átta, sem auðvelt er að stíga inn í og út úr, stilla sæti og spegla, jafnvel með sjálfsskiptingu.
  • Kannaðu þær velferðarlausnir sem í boði eru t.d. hjá Öryggismiðstöðinni (snúningssæti, handgang á stýri, bakstuðning, auka spegla o.fl.).
  • Láttu ekki aðra í umferðinni trufla eða þvinga þig til að taka óþarfa áhættur eða aka hraðar en þú treystir þér til.
  • Ef þú tekur inn lyf sem er merkt með rauðum þríhyrningi skaltu ráðfæra þig við lækni um það hvort þér sé óhætt að aka.
  • Aldrei aka eftir neyslu áfengis eða annarra vímugjafa.
  • Ekki nota farsíma eða önnur snjalltæki sem geta truflað athygli þína við akstur.
  • Haltu ökufærni þinni við, innanbæjar og utanbæjar.
  • Hafðu í huga að farþegar þínir noti bílbelti og að börn lægri en 135 cm á hæð séu í viðeigandi bílstól í bílnum hjá þér.

Ökunám fyrir eldri ökumenn

  • Taktu nokkra ökutíma hjá ökukennara ef þú finnur fyrir óöryggi í umferðinni. Ökukennarafélag Íslands getur leiðbeint þér með val á ökukennara, s. 898-0360 www.aka.is 
  • Sæktu upprifjunarnámskeið um öryggi í akstri fyrir eldri ökumenn þegar það býðst.

Hvenær er rétti tíminn til að hætta að aka?

  • Ef aðrir hafa áhyggjur af hæfni þinni til að aka skaltu taka því alvarlega. Líttu á það sem vísbendingu um umhyggju fyrir þér og áhyggjur af velferð þinni.
  • Ræddu málið við nánustu aðstandendur eða vini, heilbrigðisstarfsfólk eða félagsþjónustu.
  • Kynntu þér fyrirkomulag akstursþjónustu eldri borgara í þínu sveitarfélagi.
  • Berðu saman kostnað við að reka bíl samanborið við að nýta almenningssamgöngur, akstursþjónustu sveitarfélaga eða leigubíl.

Var efnið hjálplegt? Nei