K7 Akstursmælir

Kröfur og leiðbeiningar um skoðun

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna samantekt á kröfum um akstursmæli, auk leiðbeininga um skoðun.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
  • Reglugerð um skoðun ökutækja nr. 414/2021.
  • Tilskipun ESB um skoðun ökutækja nr. 2014/45/ESB.
  • Ályktun Evrópuþingsins með tillögum til Evrópuráðsins varðandi sviksamlegar breytingar á akstursmælum ökutækja nr. 2017/2064(INL).


Skoðunaratriði


Dæmingar á annmarka er að finna í skoðunaratriðahluta handbókarinnar. Samantekt skoðunaratriða sem koma fyrir í skjalinu:

 SkoðunaratriðiSkýring
 7.11Akstursmælir


Skilgreining krafna


Úr reglugerð um gerð og búnað ökutækja

Hvorki eru gerðar kröfur um að ökutæki sé búið akstursmæli, né til nákvæmni hans eða útfærslu sé hann til staðar.


Úr reglugerð um skoðun

21. grein reglugerðarinnar um niðurstöðu skoðunar hljóðar svo: Komi í ljós við skoðun að óeðlileg breyting hefur orðið á akstursmæli ökutækis og þá helst að akstursmælir sýni lægri kílómetrastöðu en í fyrri skoðun, skal skoðunarstofa upplýsa eiganda ökutækisins um það og skrá sem athugasemd í ferilskrá.

19. grein reglugerðarinnar um það sem er til skoðunar: b) athuga hvort óeðlileg breyting hafi orðið á stöðu akstursmælis ökutækis.


Úr reglugerð ESB um skoðun ökutækja

Annmarki við skoðun (sjónskoðun eða með rafrænum aflestri): Augljóslega hefur verið átt við kílómetramælinn (svik), ef hann er til staðar, til að stytta skráða vegalengd ökutækis eða gefa rangar upplýsingar um hana.


Ályktun Evrópuþingsins

Í ályktun Evrópuþingsins  EU-þingsins (31.05.2018) er bent á ýmsar leiðir til að spyrna við sviksamlegum breytingum á stöðu akstursmælis, enda eru þær jafnan gerðar með hagnaðarsjónarmið í huga. Helsta leiðin er að skrá stöðu akstursmælis í miðlægar skrár sem oftast, hvort sem það er við reglubundna skoðun, í verkstæðisheimsóknum eða í tengslum við hefðbundið viðhald. Einnig að skilgreina kröfur til akstursmæla, reyna að hindra það að átt sé við þá og gera athæfið refsivert.


Framkvæmd skoðunar og skráningar


Akstursmælir er í flestum vélknúnum ökutækjum. Sé hann ekki til staðar er staðan 1 (talan einn) skráð á skoðunarvottorð. 

Sé akstursmælir til staðar er ætlast til að staða hans lesin og skráð í ökutækjaskrá í öllum skoðunum ökutækisins. Vanda verður til verka við aflestur og skráningar svo sem minnst hætta sé á mistökum. Ekki skiptir máli í hvaða mælieiningu mælirinn er (km eða mílum), alltaf skal skrá þá stöðu sem stendur á mælinum óháð mælieiningu (aldrei á að umreikna milli eininga).

Eðlilegt telst að akstursmælir hækki á milli skoðana (þó getur verið eðlilegt að mælir gangi yfir, þ.e. vélrænn mælir fari í botn og byrji að telja upp á nýtt). Eðlileg hækkun er mismunandi eftir notkun ökutækisins og tímans sem liðið hefur frá síðustu skoðun. Ekki er gerð athugasemd við hækkun en skoðunarmaður er hvattur til að yfirfara aflestur sinn sé hækkun óeðlilega mikil að hans mati og upplýsa eiganda (umráðamann) ef svo er.

Hafi akstursmælir ekkert hækkað milli aflestra (staðið í stað) eru ekki heldur gerðar athugasemdir. Rétt er samt að skoðunarmaður hafi orð á því við eiganda (umráðamann) til að hann sé upplýstur.

Hafi akstursmælir lækkað milli skoðana (og ekki gengið yfir) er fyrsta skrefið að yfirfara aflestur til að tryggja að ekki hafi verið rangt lesið af. Ef aflestur er réttur er síðustu skráningum akstursmælis flett upp í ökutækjaskrá og metið hvort einhverja skýringu megi finna þar (t.d. síðasta skráning akstursmælis augljóslega röng). Ef skýringa er að leita í röngum eldri skráningum er eigandi (umráðamaður) upplýstur um það án þess að aðhafast frekar í málinu gagnvart honum. Eðlilegt er þó að skoðunarstofan athugi svo hvort skoðunarmaður hennar hafi skráð rangt í fyrri skoðun og leitist þá við að leiðrétta mistökin í samræmi við ferla hennar þar um.

Á þessum tímapunkti er orðið ljóst að staða akstursmælis er lægri en við síðustu skráningu akstursmælis (og í ósamræmi við síðustu skráningar akstursmælis ef þær eru fleiri). Eigandi (umráðamaður) skal þá upplýstur um stöðuna og beðinn um að staðfesta að aflestur við þessa skoðun sé réttur.


Dæming á akstursmæli


Sé orðið ljóst við skoðun og skráningu á stöðu akstursmælis (sbr. fyrri kafla) að hann sýnir lægri stöðu en í fyrri skoðun, er það túlkað sem svo að átt hafi verið við mælinn til lækkunar. En hvort það hafi verið gert með sviksamlegum hætti er annað mál. Mögulegt er t.d. að skipt hafi verið um akstursmæli eða mælaborð af eðlilegum ástæðum og mælir ekki stilltur rétt eftir viðgerð. Ekki er heldur víst að núverandi eigandi (umráðamaður) hafi upplýsingar um það.

Skoðunaratriði 7.11 er dæming 2 ef augljóslega hefur verið átt við akstursmælinn (svik) til að stytta skráða vegalengd ökutækis eða gefa rangar upplýsingar um hana. Slík augljós breyting á akstursmæli, með sviksamlegum hætti, þarf að túlka þröngt og gerir í raun kröfu um játningu eiganda (umráðamanns) eða að önnur staðfest sönnun liggi fyrir svo beita megi dæmingunni. Liggi slík sönnun fyrir er dæmingunni beitt, annars ekki og ekki frekar aðhafst.


Framkvæmd endurskoðunar vegna dæmingar á akstursmæli


Hafi verið dæmt á akstursmæli, dæming 2, í fyrri skoðun eru tvær leiðir til að lagfæra þann annmarka:

  1. Að breyta stöðu akstursmælis til hækkunar. Ekki er hægt að leggja mat á hvað telst eðlileg hækkun í þessu tilviki. Ný staða er skráð í endurskoðuninni og annmarki telst vera lagfærður.
  2. Eigandi (umráðamaður) skilar skriflegum útskýringum á hinu sviksamlega athæfi. Skoðunarstofa leggur ekki sérstakt mat á innihaldið. Hafi orðið eigendaskipti á ökutækinu, og fyrri eigandi þar með ekki lengur tiltækur, þarf nýi eigandinn að skila yfirlýsingu um að hann sé upplýstur um þennan annmarka (enda markmiðinu náð um að við eigendaskipti sé eigandi upplýstur um gjörninginn). Þessi gögn skulu merkt fastnúmeri ökutækisins og skilað til Samgöngustofu.


Breytingasaga skjals


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.02.2024
  • Sé akstursmælir ekki til staðar á að skrá töluna 1 (en ekki mínus einn).
  • Bætt við til áréttingar í texta um framkvæmd álesturs við skoðun: "Ekki skiptir máli í hvaða mælieiningu mælirinn er (km eða mílum), alltaf skal skrá þá stöðu sem stendur á mælinum óháð mælieiningu (aldrei á að umreikna milli eininga).".
  • Ef skýringu á lægri akstursmælastöðu en í fyrri skoðun er að finna í röngum álestri síðast, átti ekki að aðhafast frekar í málinu. Til áréttingar hefur nú verið bætt við texanum "Eðlilegt er þó að skoðunarstofan athugi svo hvort skoðunarmaður hennar hafi skráð rangt í fyrri skoðun og leitist þá við að leiðrétta mistökin í samræmi við ferla hennar þar um".
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr reglugerðum og túlkað.



Var efnið hjálplegt? Nei