Notkunarflokkur

Ökutæki fyrir hreyfihamlaða og flutning þeirra

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna kröfur til ökutækja sem hönnuð eru fyrir hreyfihamlaða ökumenn og fyrir ökutæki sem flytja hreyfihamlaða farþega, auk leiðbeininga um skoðun.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.

Skilgreining notkunarflokkanna


Ökutæki fyrir hreyfihamlaða

Ökutæki sem er búið þannig að það mæti sérþörfum hreyfihamlaðra til aksturs.


Flutningur hreyfihamlaðra

Bifreið sem er búin til flutnings á hreyfihömluðu fólki í a.m.k. tveimur hjólastólum.


Flutningur hreyfihamlaðra í atvinnuskyni

Ökutæki sem er búin til flutnings á hreyfihömluðu fólki í a.m.k. tveimur hjólastólum og er notuð í atvinnuskyni.


Skráning notkunarflokkanna


Notkunarflokkur "Ökutæki fyrir hreyfihamlaða"

  • Skráningarheimild: Það er heimilt (ekki krafa) að skrá ökutæki í þennan notkunarflokk uppfylli það kröfurnar sem lýst er í þessu skjali.
  • Tilvist: Notkunarflokkurinn er til vegna þess að hann er skilgreindur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.
  • Notkun: Til að auðkenna þau ökutæki sem hafa viðurkennd stjórntæki fyrir hreyfihamlaða ökumenn.


Notkunarflokkur "Flutningur hreyfihamlaðra"

  • Skráningarheimild: Það er heimilt (ekki krafa) að skrá ökutæki í þennan notkunarflokk uppfylli það kröfurnar sem lýst er í þessu skjali.
  • Tilvist: Notkunarflokkurinn er til vegna þess að hann er skilgreindur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.
  • Notkun: Til að auðkenna þau ökutæki sem viðurkennd hafa verið fyrir  flutning á hreyfihömluðum farþegum.


Notkunarflokkur "Flutningur hreyfihamlaðra í atvinnuskyni"

  • Skráningarheimild: Það er heimilt (ekki krafa) að skrá ökutæki í þennan notkunarflokk uppfylli það kröfurnar sem lýst er í þessu skjali.
  • Tilvist: Notkunarflokkurinn er til vegna þess að hann er skilgreindur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.
  • Notkun: Til að auðkenna þau ökutæki sem viðurkennd hafa verið fyrir flutning á hreyfihömluðum til nota í atvinnuskyni.


Notkunarflokkur: Ökutæki fyrir hreyfihamlaða (sérbúið fyrir ökumann)


Einfaldur aukabúnaður á hefðbundin stjórntæki

Í VINNSLU - HÉR ER FJALLAÐ UM EINFALDAN AUKABÚNAÐ Á HEFÐBUNDINN STJÓRNBÚNAÐ. Stuðst verður við tákntölur í reglugerð um ökuskírteini.


Sérútbúin stjórntæki

Í VINNSLU - HÉR ER FJALLAÐ UM HVERNIG STJÓRNTÆKI ERU SÉRBÚIN SVO BIFREIÐIN HENTI HREYFIHÖMLUÐUM ÖKUMANNI. Stuðst verður við tákntölur í reglugerð um ökuskírteini.


Notkunarflokkur: Flutningur hreyfihamlaðra


Aðbúnaður við flutning á hreyfihömluðum (St3.7.2.8)

Við flutning á hreyfihömluðum er yfirleitt notast við hjólastóla (yfirleitt hjólastól viðkomandi einstaklings, stundum sérstaka hjólastóla fyrir notkun í bíl), en einnig er hægt að flytja hinn hreyfihamlaða í venjulegu farþegasæti.

Þann 01.01.2001 tóku gildi fyrstu sérákvæðin um festingar og frágang hjólastóla. Viðbótarákvæði tóku svo gildi, sbr. reglugerð nr.822/2004 um gerð og búnað ökutækja.

Þann 01.01.2001 tók gildi sú skilgreining að “Bifreið til að flytja hreyfihamlaða” sé bifreið sem er búin til flutnings á hreyfihömluðu fólki, fyrir a.m.k. tvo hjólastóla. Sérákvæði reglugerðanna gilda því eingöngu í þeim tilvikum (og fyrir alla ökutækjaflokka), en ekki þegar bifreiðin er bara útbúin fyrir einn hjólastól, eða var skráð fyrir þennan tíma (og gilda þá engin sérákvæði). Þetta má sjá í töflu 1.


Tafla 1. Sérákvæði og gildistaka þeirra.

GildistakaEinn hjólastóllTveir eða fleiri hjólastólar
Fram til 31.12.2000Engin sérákvæðiEngin sérákvæði
Eftir 01.01.2001Engin sérákvæðiSérákvæði taka gildi um farþegarými, dyr, neyðarútganga og festingar hjólastóla
Eftir 27.04.2007Engin sérákvæðiÖll sérákvæði gilda

Í þeim tilvikum sem engin sérákvæði hafa gilt um ísetningu hjólastóla verður almenn skoðun að miðast við það, en krafa er um að allar ísetningar og breytingar verði að uppfylla núgildandi kröfur.

Þegar bifreið er skráð fyrir fleiri en einn hjólastól ber að skrá hana í notkunarflokk “018 Flutningur hreyfihamlaðra” að lokinni úttekt (standist hún úttekt).

Heimilt er að nota hjólastólafestingar fyrir sæti þegar ekki er verið að flytja hjólastóla.


Farþegarýmið (gildir frá 01.01.2001)

  • Lofthæð: Lofthæð í farþegarými skal vera a.m.k. 1.450 mm á öllu svæði sem er 400 mm innan við hliðar.
  • Svæði í kringum hjólastól: Sérhver hjólastóll skal hafa gólfpláss sem er a.m.k. 750 mm breitt og 1.300 mm langt.


Dyr og neyðarútgangar (gildir frá 01.01.2001)

  • Dyr: Hið minnsta skulu vera einar dyr á farþegarými, a.m.k. 1.300 mm að hæð og a.m.k. 1.000 mm að breidd.
  • Neyðarútgangar: Hið minnsta skulu vera þrír neyðarútgangar, einn á þaki og einn á hvorri hlið. Dyr á afturgafli geta komið í stað neyðarútgangs á hlið. Frá farþegarými skal vera greiður gangur a.m.k. 350 mm að breidd að neyðarútgangi á hvorri hlið. Sömu reglur gilda um neyðarútganga og í hópbifreið (sjá reglugerðarákvæði í lið 11.12).

Rampar og lyftupallar (gildir frá 27.04.2007)

  • Rampur: Ef hæð frá jörðu og upp í gólf bifreiðar er meiri en 100 mm skal vera rampi (uppkeyrslubraut) eða lyfta. Rampi skal vera í heilu lagi, halli má eigi vera meiri en 15% (samsvarandi 7°), breidd skal vera a.m.k. 800 mm, og á rampa sem er lengri en 1.200 mm skulu vera brúnir sem eru a.m.k. 30 mm háar.
  • Lyftupallur: Breidd lyftupalls skal vera a.m.k. 800 mm og lengd a.m.k. 1.000 mm. Á lyftupalli skal vera búnaður sem varnar því að hjólastóll geti runnið út af pallinum (einhverskonar brúnir eða klossar).


Festingar hjólastóla (gildir frá 01.01.2001)

  • Afstaða hjólastóls: Hjólastól ber að snúa fram eða aftur (óheimilt er að snúa hjólastól út á hlið eða á ská) og eiga festingar að miðast við það.
  • Fjöldi gólffestinga: Hjólastól skal vera hægt að festa í fjórum hornum.
  • Staðsetning gólffestinga: Í hverju hjólastólarými skulu vera festingar sem eru niðurfelldar í gólf, a.m.k. tvær festingar aftan við og ein framan við hvern hjólastól. Bil milli festinga skal vera sem næst breidd hjólastóls. Ef notuð er ein festing að framan skal hún vera fyrir miðju.
  • Útfærsla gólffestinga: Festingar skulu vera sjálflæsandi krókar eða augu með innanmáli 25 til 30 mm.
  • Þol gólffestinga: Gerð er krafa um að aftari festingarnar skuli þola a.m.k. 650 daN átak hvor við átak í 45° halla fram á við (og a.m.k. 1.400 daN ef sömu festingar eru notaðar fyrir öryggisbelti), og tvær festingar að framan skulu þola a.m.k 500 daN hvor við átak í 45° halla aftur, ein festing að framan skal þola 1000 daN. Þetta átak jafngildir að sama tala í kg hangi í viðkomandi festingu. Við skoðun er ekki hægt að prófa þetta, því notast við sjón- og átaksskoðun.
  • Festiólar: Festiólar skulu vera a.m.k. 25 mm breiðar og 350 til 700 mm að lengd (og skulu þola a.m.k. 500 daN átak, en það er ekki hægt að taka út við skoðun). Festiólar skulu vera með viðeigandi festingar fyrir gólffestingar og hjólastóla.


Öryggisbúnaður (gildir frá 27.04.2007, nema annað sé tekið fram)

  • Bakstuðningur: Í reglugerð er gerð krafa um bakstuðning og höfuðpúða við hjólastóla þar sem því verður við komið. Ekki er því almennt hægt að gera kröfu um slíkt, en þegar þessi búnaður er til staðar þá gildir að neðri brún bakstuðningsins skal vera 350-450 mm yfir gólfi og efri brún skal vera a.m.k. 1.350 mm yfir gólfi. Breidd skal vera 300-400 mm, halli má ekki vera meiri en 12°. Bakstuðningur með efri öryggisbeltafestingu skal við beltafestingu þola a.m.k. 1.350 daN átak, án öryggisbeltafestingar 530 daN á öllu svæðinu. Þetta átak jafngildir að sama tala í kg hangi í bakstuðningnum. Við skoðun er ekki hægt að prófa þetta, því notast við sjón- og átaksskoðun.
  • Belti fyrir hjólastóla: Krafa er um a.m.k. þriggja festu öryggisbelti fyrir hjólastóla. Öryggisbeltin skulu fest við yfirbyggingu bifreiðarinnar eða með festingum tengdum yfirbyggingu. Neðri festing öryggisbeltanna skal vera eins og skástrikaða svæðið sem sýnt er á mynd 1. Sjá líka liðinn um annan öryggisbúnað hér að neðan. Í bíla sem skráðir eru fyrir 27.04.2007 gilda þær kröfur sem almennt gilda um öryggisbelti í viðkomandi sæti (þ.e. hjólastól) miðað við skráningardag.
  • Belti í sæti: Á við um þau sæti bílsins sem ætluð eru fyrir flutning á hreyfihömluðum. Í þau sæti er krafa um a.m.k. þriggja festu öryggisbelti. Sjá líka liðinn um annan öryggisbúnað hér að neðan. Í bíla sem skráðir eru fyrir 27.04.2007 gilda þær kröfur sem almennt gilda um öryggisbelti í viðkomandi sæti miðað við skráningardag.
  • Annar öryggisbúnaður: Í stað öryggisbelta (fyrir hjólastól og í sæti) er heimilt að nota annan öryggisbúnað sem hæfir flutningi hins hreyfihamlaða. Þessum búnaði er ekki lýst í reglugerð og því ber að framvísa skriflegum upplýsingum til Samgöngustofu sem skráir útfærsluna sem athugasemd í skráningarskírteini ef hann fæst samþykktur.
  • Sérstakur hjólastóll: Um er að ræða stól sem gæti verið búinn eigin öryggisbeltum, annað hvort alfarið eða með viðbót frá öryggisbeltum sem fest eru í bílinn. Í slíkum tilvikum ber að færa stólinn til skoðunar með bílnum svo hægt sé að leggja mat á útfærslu áskyldra öryggisbelta eins og henni er lýst í liðnum um belti fyrir hjólastóla hér að ofan.


Hreyfih1 Mynd 1. Belti fyrir hjólastóla, festingasvæði fyrir neðri festingu öryggisbelta.


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kafli 3.7.2.8.



Var efnið hjálplegt? Nei